Hvíldardagur í dag – Simon Yates með gott forskot fyrir tímatökuna
Áhugafólk um hjólreiðar hafði beðið eftir laugardeginum með mikilli eftirvæntingu. Giroið var þar með komið í Alpana og byrjaði ekki með neinni léttri upphitun, heldur upp Monte Zoncolan eitt erfiðasta klifur atvinnuhjólreiða. Það var viðbúið að 14. dagleið myndi fara á fullt í síðasta klifrinu en það sem kom þó á óvart var að Sky liðið var loks mætt til leiks. Wout Poels leiddi pelotonið framan af klifrinu með erfiðu pacei, en hópurinn þynntist hratt og pelotonið saxaði hratt á forystu fremstu manna. Í pelotoninu mátti m.a. finna fremstu menn í heildarkeppninni, Simon Yates (Mitchelton Scott), ríkjandi meistarann Tom Dumoulin (Sunweb), Pozzovivo (Bahrain Merida), Pinot (FDJ) auk Chris Froome (Sky), Carapaz (Movistar) og Lopez (Astana). Þegar um 5 km voru eftir fóru sterkir hjólarar að týnast úr hópnum t.d. Fabio Aru (UAE) og síðar Carapaz (Movistar) og Michael Woods (EF Education).
Þegar 4,3 km voru eftir stimplaði Wout Poels sig úr lestinni og sjálfur Chris Froome mætti til leiks. Eins og Chris Froome er þekktur fyrir fór hann í árás þegar síðasti domestique Sky fór úr hópnum, á mjög háu cadenci sem aðrir áttu erfitt með að fylgja. Pozzovivo, Miguel Angel Lopez og Simon Yates reyndu að elta en Froome náði fljótlega að búa til bil. Þegar um 3 km voru eftir ákvað Simon Yates að hefja eftirför af fullum þunga og upp hófst gríðarlega spennandi eltingarleikur þar sem Froome hafði 15 sek forskot að verja. Það var tvísýnt í lokin hvort Froome myndi ná að halda forskotinu en honum tókst þó á endanum að skila sér fyrstur í mark með 6 sekúndna forystu og nælir sér þannig í sigur á dagleið 14. Simon Yates tókst að sækja enn fleiri sekúndur á Tom Dumoulin og aðra keppinauta í heildarkeppninni. Pozzovivo kom þriðji í mark, Miguel Angel Lopez fjórði og nældi sér þar með í hvítu treyjuna og Tom Dumoulin fimmti.
Margir hafa velt fyrir sér stöðunni á Chris Froome sem meiddist í upphafi keppninnar og hefur verið að hjóla langt undir því sem hann á til. Hvort hann hafi fundið formið eða hvort hann sé einfaldlega kominn í þann gír að reyna að sigra dagleiðir á eftir að koma í ljós í þriðju vikunni. Það voru þó aðrir en Froome og Simon Yates sem stálu senunni á Monte Zoncolan. Þar ber hæst að nefna.
- Maðurinn með bananana
2. Risaeðlumaðurinn
- Maðurinn með uppstoppaða refinn
Það verður að viðurkennast að Simon Yates er að bjóða upp á gríðarlega skemmtun fyrir áhorfendur og hjólar af miklu öryggi og yfirburðum. Hann fer í árásir við öll tilefni og sækir sér sekúndur hvar sem hann getur í stað þess að reyna að halda fengnum hlut. Dagleið 15 var engin undantekning þar sem Simon Yates gerði sér lítið fyrir og sleit sig frá sínum helstu keppinautum þegar meira en 17 km voru eftir. Þegar 4 km voru eftir hafði Simon Yates tekist að búa til 52 sekúnda bil á næsta hóp en þar leiddi Tom Dumoulin eftirförina.
Dumoulin tókst ekki að ná upp mikilli samvinnu í þeim hóp, en þar mátti meðal annars finna Carapaz og Miguel Angel Lopez sem virðast vera komnir í harða keppni um hvítu treyjuna og svo Pinot og Pozzovivo. Simon Yates náði þannig að sigra dagleiðina með 41 sekúnda forskoti á næsta mann og fór þannig með 2 mín og 11 sek í forskot inn í hvíldardaginn og þar með tímatökuna sem verður í Trento á morgun. Tom Dumoulin er sigurstranglegur fyrir tímatökuna sem er um 34 km löng en þó honum takist að sækja bleiku treyjuna bíður hans erfið þriðja vika í fjöllunum. Allt getur hinsvegar gerst en haldi Simon Yates forminu áfram er ljóst að erfitt verður að ná af honum bleiku treyjunni.
Nafn – Lið – Sek frá efsta manni
- Simon Yates – Mitchelton Scott – /
- Tom Dumoulin – Team Sunweb – 02:11
- Domenico Pozzovivo – Bahrain Merida – 02:28
- Thibaut Pinot – Groupama-FDJ – 02:37
- Miguel Angel Lopez – Astana Pro Team – 04:27
- Richard Carapaz – Movistar – 04:47
- Christopher Froome – Sky – 04:52
- George Bennett – Team LottoNL-Jumbo 05:34
- Pello Bilbao – Astana Pro Team – 05:59
- Patrick Konrad – Bora Hans Grohe – 06:13
Í bleiku treyjunni -> Simon Yates
Í bláu treyjunni -> Simon Yates
Í fjólubláu treyjunni -> Elia Viviani
Í hvítu treyjunni -> Miguel Angel Lopez