Ný Criterium mótaröð rúllar af stað í kvöld

Ný götuhjólamótaröð hefst nú í kvöld (fimmtudaginn 24. maí) á lokaðri braut á Völlunum í Hafnarfirði. Fyrirvarinn er stuttur en skráning er strax orðinn góð. Frábært tækifæri fyrir hjólreiðafólk til að fá aukna reynslu, drafta og jafnvel kynnast taktík í keppnum.

Mótaröðin nefnist Canon criterium og er samstarf HRÍ, hjólreiðafélaganna Tinds, HFR, Bjarts og Breiðabliks og styrktaraðilans Origo. Alls verða þetta fjórar stuttar og hressar keppnir þar sem skipt verður upp í fjóra flokka eftir getustigi keppenda. Hjólafréttir mæla hiklaust með svona keppni, ekki síst í ljósi umræðna sem hafa verið um skort á keppnisreynslu í stærri keppnum.

Criterium keppnirnar verða allar á lokuðu svæði á Völlunum í Hafnarfirði. Samkvæmt upplýsingum frá keppnishaldara á Keppnisspjalli hjólreiðafólks á Facebook verður A, B og C flokkum startað sér og mega karlar og konur drafta hvort annað. Þar sem keppnin er í raun enn á teikniborðinu koma nánari upplýsingar síðar í dag. Skráning fer fram á vefsíðu HRÍ.

Mótaröðin var tilkynnt með nokkuð stuttum fyrirvara, en hún hefur verið í burðarliðnum í nokkurn tíma. Með sanni er hægt að kalla hana eins konar grasrótarkeppni, en hún er t.d. ekki hluti af bikamótaröðinni. Þá er í tilkynningu sagt að tónlist verði spiluð alla keppnina og lagt sé áhersla á að keppendur og áhorfendur komi hjólandi og hjóli til baka í samhjóli.

Þrátt fyrir stuttan fyrirvara eru þegar yfir 50 manns skráðir í kvöld og er skráning opin til klukkan 18. Það er því enn nægur tími til að skrá sig, en keppnisgjaldið er ekki nema 500 krónur.

Hringurinn sem er hjólaður er 1,1 km og hægt er að sjá Strava prófíl af honum hér. Keppt verður í eftirtöldum flokkum:

A-flokkur (30 min + bjölluhringur)
B-flokkur (20 min + bjölluhringur)
C-U17 (20 min – fyrir 15 og 16 ára)
C-U15 (20 min – fyrir 13 og 14 ára)

Keppnirnar fara fram á eftirtöldum dagsetningum:

24. maí kl. 20:00
19. júní kl. 20:00
23. júlí kl. 20:00
9. ágúst 20:00

Nánar um criterium keppnir á Wikipedia fyrir áhugasama.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar