Reykjanesmótið: Upphitun

Í gær átti að fara fram Nettó Reykjanesmótið sem hefur vaxið gríðarlega í vinsældum undanfarin ár. Því var þó frestað til næsta fimmtudags, en fyrir hjólaþyrsta erum við í staðinn með smá upphitun fyrir mótið í dag.

Þótt brautin sé nokkuð flöt bjóða aðstæður oft upp á hressandi keppni þar sem veður og vindur getur skipt höfuðmáli. Hjólafréttir fengu Árna Má Jónsson hjólreiðaáhugamann til langs tíma til að rýna aðeins í keppnina og segja hverju búast megi við að. Rætt var við Árna Má um miðja síðustu viku áður en mótinu var frestað.

Lesa meira: Reykjanesmótið handan við hornið

„Mörg tækifæri til að slíta hópinn“

„Þetta er vissulega flöt braut, en það sem gerir hana erfiða er að það eru mörg tækifæri til að slíta hópinn á ekkert of erfiðan hátt,“ segir Árni. Bendir hann á að keppendur séu berskjaldaðir fyrir vindinum og margar beygjur geti haft sitt að segja.

Það sem helst getur komið í veg fyrir „brake“ er ef vindurinn er beint á móti hjólurum. Þá hafa þeir sem á eftir koma skjól frá fremsta manni og erfitt að stinga af. Eftir 9 kílómetra beygir vegurinn þó í háaustur og fer svo í einskonar U inn á Hafnarveg og að Höfnum. Á stuttum kafla er því hjólað í suður, austur og svo vestur sem ætti að gefa færi á árásum.

Sjá má vegalengdirnar þrjár á meðfylgjandi myndum:

 

Hliðarvindurinn getur sett strik í reikninginn

Árni bendir einnig á að í hliðarvindi geti aðeins fjórir til sex þverað veginn út að miðlínu og þannig notið skjóls saman. Við slík skilyrði þurfi því margir að taka á sig vind og það sé skólabókardæmi um aðstæður þar sem hópurinn slitni upp. „Ég geri ráð fyrir miklu action strax frá upphafi,“ segir Árni.

Hann segist eiga von á því að fljótlega í upphafi muni í mesta lagi 10 manna hópur reyna að stinga af í „brake“. Segir hann að brautin sé þess eðlis, bæði flöt og löng, að með réttri stærð geti slíkur hópur haldist saman, en ólíklega verði hann mikið stærri. Bæði sé styrkleikamunurinn í íslensku senunni það mikill og þá sé ólíklegt að stærri hópur muni ná að vinna saman, meðal annars út af aðstæðum sem nefndar eru hér að ofan.

Fyrstu kílómetrarnir mikilvægir

Fyrstu kílómetrar keppninnar eru á einbreiðum vegi og þó að farið sé af stað með rúllandi starti segir Árni að ef 3-4 sterkir einstaklingar skjótist fram úr geti þeir gert út af við keppnina strax í byrjun. „Ef það eru einhverjir sofandi gefur hópurinn auðveldlega sloppið,“ segir hann.

Keppnisreynsla getur að sögn Árna spilað stóra rullu varðandi hvernig keppnin þróast og hverjir verði í fremsta hóp. „Það eru margir sterkir einstaklingar, en ekki margir með mikla keppnisreynslu og að hugsa út í taktík í svona keppnum,“ segir hann. Segir hann brekkurnar á leiðinni að öllum líkindum ekki verða stórt atriði, nema að mikill meðvindur verði í þeim. Sé einhver mótvindur skipti brekkurnar litlu máli út af „drafti“.

Í „Elite“ flokknum er hjólað alla leið upp á Festarfjall fyrir austan Grindavík. Árni segir að það myndi koma honum á óvart ef fleiri en 10 verði þá í forystu. Í 63 kílómetra flokknum er aftur á móti snúið við við Reykjanesvirkjun og í 32 kílómetra flokknum er snúið við við gatnamótin á Hafnarvegi.

Hafsteinn Ægir Geirsson og Ingvar Ómarsson hafa verið meðal sterkustu hjólurum landsins undanfarin ár og segir Árni að komi fámennur hópur inn í endasprett telji hann þá tvo líklega til sigurs. Að öðru leyti vill hann ekki spá um úrslit, en keppnin er fyrsta götuhjólakeppni ársins og því er hún oft ágætur vettvangur til að sjá hvernig menn koma undan vetri. Árni bendir þó á að brautin sé nokkuð auðveld þar sem lítið er um stórar brekkur og því þurfi úrslitin ekki endilega að hafa forspárgildi fyrir tímabilið framundan.

Öryggið ofar öllu

Árni ítrekar að þótt um keppni sé að ræða sé öryggi hjólreiðafólks númer eitt, tvö og þrjú. Ítrekar hann að fólk þurfi að vera með búnað til að bregðast við komi eitthvað óvænt upp á, t.d. að laga slöngu. Þá ættu allir að tileinka sér að láta aðra hjólara í kringum sig vita af hættum og öðru óvæntu. Einnig segir hann að fólk þurfi að passa sig að búa ekki til óþarfa keppni í þeim aðstæðum þar sem ekki er raunverulega verið að keppa að t.d. sæti.

Hverjum á að fylgjast með?

Það er erfitt að segja hverjum eigi nákvæmlega að fylgjast með í meistaraflokki karla og kvenna. Ekki er heldur búið að loka fyrir skráningu, en meðal skráðra keppenda þegar þetta er skrifað eru Ingvar Ómarsson, Hafsteinn Ægir og Birkir Snær Ingvason í karlaflokki og Ágústa Edda Björnsdóttir og Rannveig Anna Guicharnaud í kvennaflokki. Þar sem um fyrsta mót ársins er að ræða og ekki er vitað nákvæmlega með hvernig keppendur koma undan vetri er hér rifjað upp hverjir voru efstir í mótinu í fyrra, en líklega munu einhver þeirra nafna raða sér ofarlega núna á sunnudaginn.

Í fyrra bar Óskar Ómarsson sigur úr býtum í Reykjanesmótinu. Hafði hann ásamt Bjarna Garðari Nicolaissyni, Hafsteini Ægi, Birki Snæ og Rúnari Erni Ágústssyni stungið af fljótlega í keppninni. Óskar kom svo sjónarmun á undan Bjarna og þar næst Hafsteini í mark eftir harðan endasprett. Birkir hafði lent í vandræðum með hjólið og gat ekki klárað keppni. Á eftir þeim fjórum kom svo ellefu manna hópur, rúmlega ellefu og hálfri mínútu á eftir fyrsta manni. Í heildina voru 63 skráðir í Elite flokkinn og kláruðu 47 þeirra keppni.

Í kvennaflokki sigraði Rannveig Anna Guicharnaud og var fimm og hálfri mínútu á undan þeim Ásu Guðnýju Ásgeirsdóttur og Ágústu Eddu Björndsdóttur sem komu þar á eftir. Voru sjö konur skráðar í kvennaflokkinn og kláruðu sex þeirra.

Skráning fer fram á vef Hjólareiðasambandsins, í 106km, 63km og 32km vegalengdirnar.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar