Tímatöku Breiðabliks frestað um viku

Fyrstu tímaþraut ársins, TT tímatöku Breiðabliks, hefur verið frestað um rúmlega viku frá miðvikudeginum 9. maí til 17. maí. Er ákvörðunin tekin eftir að Reykjanesmótinu í götuhjólreiðum var frestað frá sunnudeginum til næsta fimmtudags. Hefði innan við hálfur sólarhringur verið á milli keppnanna, en gera má ráð fyrir að fjölmargir hafi ætlað að taka þátt í báðum mótunum.

Hákon Hrafn Sigurðsson, formaður hjóladeildar Breiðabliks, tilkynnti um ákvörðunina á Facebook nú í kvöld.

Kemur fram í tilkynningunni að félagið hafi í samráði við Hjólreiðasamband Íslands ákveðið að flytja tímatökuna á fyrrgreinda dagsetningu. Þá segir hann að Reykjanesmótið hafi veirð fært án samráðs við Breiðablik eða HRÍ og hafi það sett marga hjólara sem séu að reyna að næla í landsliðssæti í mjög erfiða stöðu. Segir Hákon meðal annars að einn af topphjólurum landsins muni ekki komast í tímatökuna vegna þessa, en samkvæmt upplýsingum Hjólafrétta er um að ræða Ingvar Ómarsson.

Á Facebook-síðunni Keppnisspjall hjólreiðafólks er nokkur umræða um báðar ákvarðanirnar um frestun og hvaða ástæður eigi að liggja að baki þess að slíkt sé gert. Margt áhugavert þar, en vonandi verður þetta til þess að samráð verði aukið milli skipuleggjenda keppna í framtíðinni með hagsmuni sportsins að leiðarljósi.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar