Dennis fremstur og Froome í vandræðum
Þrem dagleiðum um Ísrael er nú lokið sem þýðir að næsti áfangastaður verður Sikiley eftir hvíldardaginn á morgun sem þýðir að Giroið verður komið aftur til Ítalíu. Gífurleg spenna ríkti fyrir fyrstu dagleið, 9,7 km tímatöku um Jerúsalem. Líkt og við röktum í upphitun höfðu augu allra beinst að einvígi Tom Dumoulin og Christopher Froome sem báðir töldust líklegir til að fara með góðan tíma úr tímatökunni. Froome varð hinsvegar fyrir áfalli í brautarskoðun þar sem hann féll af hjólinu en sem betur voru meiðslin ekki alvarleg. Með 21 erfiðar dagleiðir framundan er það hinsvegar ekki óskabyrjun á keppninni.
Lesa meira: Giro d’Italia: Fyrsti túr ársins
Lesa meira: Hvað eru eiginlega þessir Grandtúrar?
Tom Dumoulin í bleiku treyjunni eftir fyrstu dagleið
Rohan Dennis (BMC) náði fljótlega tíma sem fáir virtust ætla að ógna á dagleiðinni. Það kom á óvart hversu langt á eftir sterkir tímatökumenn eins og Tony Martin (Katusha) og Vasil Kiryienka (Sky) voru. Martin var 27 sek frá besta tímanum og Kiryienka 45 sek. Jos Van Emden (Lotto Jumbo) sem sigraði tímatöku í síðustu dagleið Giro 2017 var einnig 45 sek frá besta tímanum.
Eftir því sem leið á dagleiðina fóru sterkari keppendur að koma út. Af þeim keppendum sem munu reyna við sigur í heildarkeppninni (GC) töpuðu Fabio Aru (UAE), Lopez (Astana) og Chavez (Mitchelton Scott) yfir 50 sek. Hinsvegar náðu Domenico Pozzovivo (Bahrain-Merida) og Simon Yates (Mitchelton Scott) mjög góðum tíma af GC keppendum, Pozzovivo 27 sek. frá besta tíma og Yates 20 sek.
Það sást að fallið virtist hafa haft áhrif á Froome, í það minnsta fór hann varkár inn í tímatökunna og tapaði hraða í beygjum. Þó Froome væri eflaust búinn undir það að vinna ekki tímatökunna hlýtur niðurstaðan að hafa verið vonbrigði, 37 sek. frá besta tíma. Síðastur út var Tom Dumoulin, en sem heimsmeistari í tímatöku klæddist hann regnbogalitunum. Dagskipunin var augljóslega fullt rör og Dumoulin setti þar með besta tíma dagsins. Hann sigraði því fyrstu dagleið og með besta tímann færðist hann í Bleiku treyjuna.
Lítið óvænt á dagleiðum 2 og 3
Það var ljóst að dagleiðir 2 myndu ekki hafa nein stórvægileg áhrif á heildarkeppnina. Stærstu fréttirnar eru að að Tom Dumoulin tapaði bleiku treyjunni til Rohan Dennis en þó er einungis 1 sek sem skilur þá að eftir þrjár dagleiðir. Tom Dumoulin gleðst eflaust þar sem hann losnar við þá viðbótapressu sem fylgir bleiku treyjunni.
Sigurvegari annarrar dagleiðar kom heldur ekki á óvart, en þar var Elia Viviani (Quick Step) sterkastur þar sem hann náði að spretta til sigurs þrátt fyrir að hafa týnt leadout mönnunum sínum í aðdragandanum. Næstir komu Jakub Mareczko frá Wilier Triestina og Sam Bennett frá Bora Hans Grohe.
Vandræði Sky héldu áfram á annarri dagleið, en skammt frá endalínunni lenti Wout Poels í vandræðum með hjólið sitt sem varð til þess að hann tapaði 40 sek. Ekki gott í ljósi þess að Froome gæti verið tæpur eftir fallið á fyrsta degi og Poels því Plan B hjá Team Sky.
Elia Viviani (Quick Step) hélt uppteknum hætti á dagleið þrjú og kom fyrstur í mark. Eftir þrjár dagleiðir er hann því kominn fjólubláu treyjuna (flest stig fyrir spretti) og sýnir svipaða yfirburði og liðsfélagi hans Gaviria sýndi framan af í Giroinu 2017. Quick Step sem hafa átt frábært tímabil til þessa ætla augljóslega að halda þeirri velgegni áfram í sprettum keppninnar.
Staðan eftir 3. dagleið
Nafn – Lið – Sek frá efsta manni
1. Rohan Dennis – BMC /
2. Tom Dumoulin – Team Sunweb – 00:01
3. Jose Goncalves – Team Katusha Alpecin – 00:13
4. Alex Dowsett – Team Katusha Alpecin – 00:17
5. Pello Bilbao – Astana Pro Team – 00:19
6. Simon Yates – Mitchelton Scott – 00:21
7. Maximilian Schachmann – Quick Step floors – 00:22
8. Tony Martin – Team Katusha Alpecin – 00:28
9. Domenico Pozzovivo – Bahrain Merida – 00:28
10. Carlos Betancour – Movistar – 00:29
/
16. Thibaut Pinot – Groupama-FDJ – 00:34
19. Chris Froome – Team Sky – 00:38
34. Fabio Aru – UAE – 00:51
Í bleiku treyjunni -> Rohan Dennis
Í bláu treyjunni -> Enrico Bardin
Í fjólubláu treyjunni -> Elia Viviani
Í hvítu treyjunni -> Maximilian Schachmann
Hvað er framundan
Á morgun er hvíldardagur á meðan liðin færa sig frá Ísrael til Sikileyjar. Á Sikiley verða hjólaðar þrjár dagleiðir þar sem förin hefst í Catania. Á þriðjudag verða hjólaðir 198 km. og 153 km. á miðvikudag í hæðóttu landslagi án stórra fjalla. Á fimmtudag endar keppnin hinsvegar upp Etnu en líkt og við fórum yfir í upphitun okkar má búast við fjöri í heildarkeppninni á þeirri dagleið.