Helgi og Elsa efst í fyrsta Enduro-móti ársins
Helgi Berg Friðþjófsson og Elsa Gunnarsdóttir stóðu uppi sem sigurvegarar á vorfögnuði Enduro Ísland sem fór fram í gær í Heiðmörk. Keppt var á sex sérleiðum og var í báðum flokkum spenna fram á síðustu sérleið. Voru tveir efstu í karlaflokki meðal annars hnífjafnir fyrir síðustu leiðina.
Samtals tóku 84 þátt í mótinu, 62 karlar og 22 konur. Lárus Árni Hermannsson segir í samtali við Hjólafréttir að þrátt fyrir leiðinlega veðurspá hafi veðrið verið merkilega gott. „Fengum éljaskot á fyrstu sérleið, en svo hélst hann þurr fram á síðustu sérleið og allir komu þurrir í mark.“
Hnífjafnir fyrir síðustu sérleið
Í karlaflokki börðust þeir Helgi og Rúnar Theodórsson um efsta sætið, en þeir hafa verið ofarlega síðustu misseri í Enduro keppnum og fyrirfram þeir líklegustu til að vinna. Bjarki Bjarnason var í þriðja sæti og Davíð Þór Sigurðsson í því fjórða.
Til að setja í samhengi þá miklu samkeppni sem var á milli þeirra Helga og rúnars í gær þá skiptust þeir alltaf á að vera í fyrsta og öðru sæti á fyrstu fjórum sérleiðunum, en í lok þeirrar fimmtu voru þeir jafnir upp á sekúndu. Helgi skreið svo fram úr Rúnari á síðustu leiðinni og vann með sex sekúndum. Var það jafnframt sú sérleið sem var flötust og því þurfti meira að hjóla en á hinum sérleiðunum.
Nýtt fólk í efstu sætum
Í kvennaflokki var Elsa Gunnarsdóttir sem fyrr segir í efsta sæti. Berglind Aðalsteinsdóttir var í öðru sæti og Halla Jónsdóttir í því þriðja.
Lárus segir að gaman hafi verið að sjá nýjung í efstu sætunum, en þetta er í fyrsta skiptið sem Elsa vinnur Enduro-fögnuð. Þá er Berglind búsett í Noregi og aðeins hennar annað mót hingað til.
Elsa hélt fyrsta sætinu frá annari sérleið, en Berglind leiddi eftir fyrstu sérleið. Þrátt fyrir að hafa haldið efsta sætinu svona lengi var ekki mikill munur á þeim Erlu og Berglindi og aðeins 9 sekúndur skildu þær að í lokin.Halla kom svo öðrum 17 sekúndum á eftir Berglindi.
Búnið að fara allar leiðir í kringum Reykjavík
Út af tímasetningu á árinu er fyrsta mótið meira á láglendi en seinni keppnir ársins. Það hefur þau áhrif að meira þarf að hjóla en í þeim sem eru brattari. Lárus segir að gaman hafi verið að sjá nýjungar í brautinni í heild, en þetta er fyrsta skipti sem keppt var á þessari leið í fögnuði Enduro Ísland. „Núna erum við nokkurn veginn búnir að fara allt í kringum Reykjavík sem hægt er að fara ,“ segir Lárus að lokum og verður því fróðlegt að sjá upp á hverju verður bryddað að ári.
Hjólafréttir óska þeim Helga og Elsu til hamingju með sigurinn.