Fer hringinn á Gulu þrumunni

Arnór Gauti Helgason fékk ekki skemmtilegasta dag sumarsins til að byrja hringferð sína um landið, en yfir daginn hefur gengið á með éljum og vosbúðarverðri milli þess sem birtir til og skellir jafnvel í glampandi sól á köflum. Þetta er fyrsti dagurinn hans af vonandi sjö dagleiðum umhverfis landið, en Gauti ætlar með ævintýri sínu að vekja athygli á því að sala á SÁÁ álfinum hefst í næstu viku.

Gauti eins og hann er alltaf kallaður byrjaði fyrst fyrir alvöru að hjóla í fyrra. Var hann á rólegu tempói á hybridhjóli í nágrenni vinnunnar þegar spandexklæddur racerhjólari þeysti fram úr honum og þá var ekki aftur snúið. Daginn eftir var hann kominn á splúnkunýtt Sensa-hjól og er orðinn forfallinn götuhjólamaður. Hjólafréttir ræddu við Gauta um ferðatilhögunina og fyrsta daginn.

Gauti var nýleg kominn á Laugabakka þegar Hjólafréttir náðu í hann, en þá var hann búinn að fara rúmlega 180 kílómetra leið frá Reykjavík. Hjólaði hann fyrsta hluta leiðarinnar og alla leið um Hvalfjörðinn í hópi sex hjólreiðamanna Víkings og fékk hjá þeim ágætt veganesti. „Þeir drógu mig alla leið. Það var helvíti fínt að byrja ferðina með svona góðu drafti,“ segir Gauti.

20180505_125808
Gauti var einstaklega sáttur með aðstoð Víkinganna norður fyrir Hvalfjörð.

Í Hvalfirði fengu þeir allan skalann af veðurafbrigðum líkt og höfuðborgarbúar fengu líka að kynnast í dag. Gekk á með éljum og almennt leiðinlegu hjólaveðri. Var jafnvel ís og krapi á veginum. Þannig voru sumir samferðamannahans á hybrid-hjólum og þrír á cyclocross. Var hann sá eini sem var á racer. Við Þyril birti svo upp og segir Gauti að ekki sé hægt að lýsa því öðruvísi en að það hafi komi glampandi sól og blíða. „Þetta er skiptið sem ég mun muna eftir,“ segir hann um Hvalfjarðartúrinn.

Eftir að komið var út á þjóðveg 1 var stefnan tekin á Borgarnes og því næst inn Borgarfjörðinn. Þetta var að mörgu leyti þægilegur kafli að sögn Gauta, en hann var með vindinn í bakið stærstan hluta leiðarinnar. Aftur á móti þurfti hann að fara upp í húsbílinn sem félagi hans keyri á eftir honum á Holtavörðuheiðinni, enda var veðrið þar orðið mjög slæmt. „Það tók allavega mjög vel í gjarðirnar,“ segir Gauti hress.

 

 

Spurður út í hvernig plan hann sé með á ferð sinni um landið segist hann stefna að því að fara að meðaltali tæplega 200 kílómetra á dag, en það fari aðeins eftir því hvar gott sé að hafa næturstað. Þannig ætli hann að reyna að komast á Akureyri á morgun, en daginn eftir það fari hann um 100 kílómetra á Mývatn til að vera ekki upp á miðjum Möðrudalsöræfum yfir nótt. Eftir það sé stefnan sett á Egilsstaði og þaðan suður firði og Suðurlandið. „Planið er að vera í viku, en síðasti dagurinn, ef allt stenst, verður helvíti strembinn, eða um 250 kílómetrar,“ segir Gauti.

Taktíkin er að hjóla á zone 2 samkvæmt púlsmæli og wattamæli, en í Borgarfirði lenti hann hins vegar í að púlsmælirinn fór að stríða honum og hætti að tengjast hjólatölvunni. Segist hann vonast til að koma því í lag fyrir átök morgundagsins. Segist hann hjóla á um 180 wöttum, eða 65-70% af FTP. Í brekkum fari hann hins vegar aðeins yfir það og upp í zone 3.

20180505_154541
Það skiptust á skin og skúrir á leiðinni í dag.

Gauti fer hringinn á Sensa Aquila hjóli sem ber nafnið Gula þruman. Eins og myndirnar bera með sér er það réttnefni fyrir hjólið. Auk þess er hann Sensa Giuli hjól meðferðis.

Veðurspáin fyrir morgundaginn er ekkert rosalega spennandi heldur og segist Gauti aðeins vona að vinurinn verði áfram í bakið. Þá vonist hann til að sjá eitthvað betra veður þegar líða tekur á ferðina.

Hjólafréttir óska Gauta góðs gengis á hringferðinni.

Previous Article
Next Article

One Reply to “Fer hringinn á Gulu þrumunni”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar