Hugmyndin um græna stíginn endurvakin – 50km stígur um efri byggðir höfuðborgarsvæðisins

Nýlega var greint frá því að unnið er að umfangsmiklu nýju rammaskipulagi fyrir svokallaðar Austurheiðar (Hólmsheiði, Reynisvatnsheiði og Grafarheiði), en þar eru meðal annars nokkrar skemmtilegar fjallahjóla- og malarhjólaleiðir, auk þess sem Morgunblaðshringurinn fer þar fram einu sinni á ári.

Í tillögum að rammaskipulaginu er meðal annars búið að setja upp sérstakt svæði fyrir fjallahjólreiðar, en í tillögunum var einnig rifjað upp gamalt hugtak sem hefur verið í skoðun hjá skipulagsyfirvöldum á höfuðborgarsvæðinu síðustu áratugi og virðist nú loks nálgast það að verða að veruleika.

Lega græna stígsins samkvæmt tillögum fyrir nýtt rammaskipulag Austurheiða.

Þetta er hugmyndin um græna stíginn en hann var fyrst kynntur fyrir nokkrum áratugum í tengslum við hugmyndina um græna trefilinn.

Í sem styðstu máli er hugmyndin um græna trefilinn að það sé samfellt útivistarsvæði í upplandi höguðborgarsvæðisins, frá Esjurótum í norðri að Undirhlíðum í suðri. Græni stígurinn er svo hluti af þessari heildarsýn, 50 kílómetra langur stígur sem þræðir áhugaverðar náttúruperslur og útivistarsvæði í skjóli vaxandi skógarteiga. Á stígurinn að vera þrír metrar á breidd og upplýstur, allavega nálægt byggð.

Frumdrög að hugmyndinni um stíginn voru kynnt stjórn Samtaka sveitarfélaginu á höfuðborgarsvæðinu í febrúar 2009, rétt eftir hrunið. Lítið hefur gerst hnitmiðað í þessum efnum hingað til, en í nýja rammaskipulagi Austurheiða er lega stígsins rifjuð upp og sett fram á því svæði sem rammaskipulagið nær til, eða frá uppheiðum Grafarholts að Rauðavatni.

Græni stígurinn á drögum frá árinu 2009.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir í samtali við Hjólafréttir að með þessu sé verið að endurvekja hugmyndina um græna stíginn. Segist hún sjálf telja æskilegt að stígurinn væri tvískiptur, bæði fyrir gangandi og fyrir hjólandi. „Það er mikið af fólki í báðum hópum þannig að það væri betra að skipta honum upp.“

Hún tekur fram að í tillögunum komi fram leiðbeinandi lega og sé ekki bundin í rammaskipulaginu, „en þarna er hugmynd um leguna.“

Græni trefillinn

Markmiðið um græna trefilinn er að sögn Sigurborgar áfram vegvísir í skipulagsvinnu borgarinnar og var meðal annars í aðalskipulaginu.

Í frétt mbl.is kom fram að fyrstu skref varðandi innviðauppbyggingu fyrir bætt útivistarsvæði á Austurheiðum væru mögulega væntanleg á næsta ári. Sigurborg segir að engin ákvörðun hafi þó verið tekið um möguleg fyrstu skref varðandi græna stíginn.

Þó má geta þess að nýlega var samþykkt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur samþykkt að uppfæra deiliskipulag fyrir Vesturlandsveg, líkt og Hjólafréttir hafa greint frá. Er nú meðal annars komið inn í skipulagið tillaga að göngu- og hjólaleið frá Leirvogsá upp í Hvalfjörð. Þó þetta falli ekki alveg að hugmyndinni um Græna stíginn, þá myndi stígur frá Kollafirði og norður gera það.

Upplýsingar um rammaskipulag Austurheiða

Upplýsingar um græna trefilinn og græna stíginn hjá Skógræktinni

Samantekt Magneu J. Guðmundsdóttur um græna trefilinn

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar