Norðmaður kom og sigraði silfurhringinn á fjallahjóli
KIA Gullhringurinn fór fram núna um helgina. Við fengum að sjá hörkukeppni í karlaflokki þar sem fjórir Hollendingar settu svip sinn á fremsta hóp, en tveir þeirra enduðu í fyrsta og öðru sæti á meðan Eyjólfur Guðgeirsson varð þriðji og þar með fyrstur Íslendinga. Í kvennaflokki varð Elín Björg Björnsdóttir fyrst, en skammt þar á eftir var Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir.
Það var þó í silfurhringnum sem óvæntustu úrslitin áttu sér stað, en þar mætti óvænt Norðmaður á fjallahjóli og kom öllum á óvart.
Var eitthvað að vesenast í kringum Tindstjaldið
Svanur Daníelsson, formaður Tinds, var mættur vel ríflega fyrir keppni og var að setja upp smá bás fyrir Tind þegar til hans mætir Norðmaðurinn Ole Bjorn Smisethjell, en hann var að sögn Svans eitthvað að vesenast, fá verkfæri lánuð o.s.frv.
„Hann var ekki alveg beint hjólalegur,“ segir Svanur, en Ole var í hálf slitnum strigaskóm og eins og ekta hjólaferðalangur, enda á þriðja degi í hjólaferð ásamt Heidi kærustunni sinni um Ísland. Er þetta önnur ferð þeirra um landið, en í fyrra hjóluðu þau hringveginn, en núna var stefnan tekin á hálendið.
Hélt að allt annar keppandi væri að koma fyrstur í mark
Svanur hélt fyrst að Ole ætlaði að fara bronshringinn, enda var hann á fjallahjóli. Hins vegar hafi komið í ljós að Ole væri að horfa á að taka þátt í gullhringnum og bauð þá Svanur honum götuhjólið sitt. Eftir smá umhugsun afþakkaði Ole það og skráði sig í staðinn í silfurhringinn á fjallahjólinu. Fyrst þurfti hann hins vegar að taka töskurnar af hjólinu, en var svo tilbúinn. „Hann fór svo og ég óskaði honum góðs gengis,“ segir Svanur.
Tæplega einni og hálfri klukkustund síðar kom fyrsti hópur í silfurhringnum í mark. Svanur segir að hann hafi fyrst talið að Matthías Schou Matthíasson væri að koma fyrstur í mark, en Matthías þessi var hins vegar skráður í gullhringinn og var fremsti maður enginn annar en hjólaferðalangurinn Ole.
Á leiðinni yfir Kjöl með kærustunni
Þegar Hjólafréttir náðu á Ole voru hann og Heidi búin að tjalda í nágrenni Gullfoss og ætluðu á morgun (þriðjudag) að halda inn á Kjöl á leið sinni norður í land.
Það lá fyrst við að spyrja hann um bakgrunn hans í hjólreiðum, hvernig hann hafi endað á að mæta í þessa keppni og um keppnina sjálfa. Ole, sem sjálfur er 21 árs gamall, segir að hann hafi byrjað að hjóla að einhverju ráði þegar hann var um 15 ára. Hann hafi hins vegar talsverðan grunn einnig úr fjallaskíðun og gönguskíðum og stundi það enn á veturnar.
Keppir reglulega en helst í local keppnum
Á sumrin hjóli hann hins vegar mikið og keppi í talsverðum fjölda keppna. Ole segir það hins vegar mest megnis local keppnir, en þó reyni hann að taka þátt í nokkrum national keppnum á hverju ári. Hann hafi þó ekki jafn gaman af þeim þar sem þær séu svo mikið „war zone“. Hann heillist meira af lengri keppnum sem og maraþon fjallahjólreiðum (XCM), en þar segist hann hafa staðið sig best hingað til. Hann eigi eitthvað af sigrum úr junior flokkum, en almennt sé hann ekki að gera miklar rósir nema í stöku local keppnum.
Þegar ljóst var að hann og Heidi kæmust til Íslands hafði Eyþór nokkur, sem er með honum í hjólaklúbbi í Molde, látið sig vita af Gullhringnum. Það hafi passað við áform þeirra um að fara yfir Kjöl og því hafi hann stefnt á keppnina án þess að vita mikið annað. „Ég ætlaði mér að fara í gullhringinn, en allir sögðu mér að þeir fyrstu þar myndu stinga mig af svo ég endaði í silfur,“ segir Ole.
Mikill munur á fjallahjóli og götuhjóli
Stuttu eftir að keppnin var farin í gang segir Ole að þeir hafi verið um 15 í fremsta hóp, þar af meirihluti frá Sensa liðinu. Hann var auðvitað sá eini á fjallahjóli, enda um götuhjólakeppni að ræða. Ole lýstir því að Sensa liðið hafi strax farið í árásir í flestum brekkum og mikill hamagangur verið. Hann hafi sjálfur nokkrum sinnum farið í break, en hópurinn hafi alltaf haldist. „Ég vildi auðvitað reyna að vinna“ segir hann hlægjandi. Þegar leið á keppnina hafi hann hins vegar farið í alvöru að horfa til þess að geta endað á palli og fór hann því að reyna að safna orku.
Ole vissi að lokakafli brautarinnar er niður í mót, rétt áður en komið er að hringtorgi og stuttur endasprettur tekinn. Á fjallahjóli er loftmótstaðan umtalsvert meiri en á götuhjólum, auk þess sem hann var lægra gíraður en allir aðrir. „Ég vissi að þeir gætu náð allt að 80 km hraða, en ég get ekki lengur pedalað þegar ég kemst yfir 60 km hraða,“ segir Ole. Hann taldi því nokkuð ljóst að hann gæti ekki unnið á niðurleiðinni, heldur þyrfti hann að gera árás á leiðinni upp. Fyrir áhugasama var Ole með 36t að framan og 11-46t að aftan. Hlutfallið hjá honum verður því hæst 3,27 meðan þeir sem eru á 52-36t að framan og 11-28t að aftan t.d. geta farið í 4,73.
„Ég skellti svo í næstum 200 í cadence í 2-3 sekúndur“
Ole fór því í árás upp Lyngdalsheiðina. Brynjar Örn Borgþórsson fylgdi honum og náðu þeir smá forystu á hópinn. Á leiðinni niður var Brynjar á undan honum. „Á einum tímapunkti fór hann á toptube og var á um 70 km hraða. Hann var svo lár á hjólinu að ég fékk á mig talsverðan vind,“ segir Ole, en nokkurra metra bil myndaðist við þetta á milli þeirra. „Ég skellti svo í næstum 200 í cadence í 2-3 sekúndur og náði honum,“ segir Ole og tekur fram að hann hefði líklega ekki getað það sekúndunni lengur. Mótherji hans hafi við þetta byrjað að pedala aftur í smá stund og þannig komst Ole aftur í draftið og náði að halda í Brynjar niður brekkuna. „Ef hann hefði haldið sig neðar aðeins lengur hefði hann náð þessu.“
Í lok brekkunnar kemur svo hringtorg sem er mjög krefjandi þegar fólk kemur á miklum hraða, sérstaklega þegar um fleiri en einn er að ræða í einu. Ole segist hins vegar vera nægjanlega brjálaður til að fara á miklum hraða í hringtorgið og þannig hafi hann náð nokkrum metrum á Brynjar og byggt upp forskot sem hafi dugað í endasprettinum.
Búin að skrá sig bæði í Vesturgötuna
En hjólaævintýri Ole og Heidi er ekki alveg lokið hér á Íslandi. Eins og fyrr segir var planið þeirra að hjóla um hálendið, en Ole segir að þau hafi ætlað að hjóla yfir Kjöl, koma við á Akureyri og Húsavík og fara svo til baka yfir Sprengisand og Laugaveginn. Planið var að taka þetta á tveimur vikum, en þau væru þó ekki alveg negld niður varðandi tímann.
Eftir keppnina ræddi Svanur við Ole og Heidi og eftir það hafa plönin hins vegar breyst aðeins. Nú eru þau bæði búin að skrá sig í Vesturgötuna næstu helgi og fá þangað far með Tindi, auk þess sem hann útilokar ekki að kíkja við á Hjólreiðahátíð Greifans vikuna eftir. Það verði þó að koma í ljós. Segist hann sérstaklega spenntur fyrir Vesturgötunni og hæðarprófílnum, með gott klifur strax í byrjun. Verður fróðlegt að sjá hvort hann nái að blanda sér í baráttuna þar.
Þess má til gamans geta að Ole er á leið í kennaranám í haust í Noregi eftir skemmtilega ævintýraferð á Íslandi. Þá var hann jafnframt gerður að heiðursfélaga í Tindi eftir frammistöðu helgarinnar.