Blikar skella í nýtt útlit

Nýja hjólakittið hjá Breiðablik.

Félagar í hjólreiðadeild og þríþrautardeild Breiðabliks fengu afhent nýtt hjólakitt í vikunni og má búast við að bleiki litur nýju treyjunnar verði áberandi á götum höfuðborgarsvæðisins á næstunni.

Hákon Hrafn Sigurðsson, stjórnarmaður í hjólreiðadeildinni, hefur haft veg og vanda með pöntuninni undanfarið og fór aðeins yfir með Hjólafréttum aðdragandann og pælinguna með nýja gallanum.

Völdu lítið flippað fyrirtæki frá vesturströnd Bandaríkjanna

Það er orðið meira en eitt ár síðan byrjað var að skoða með nýtt útlit á hjólafatnaði fyrir Breiðablik. Hákon segir að fyrst hafi þau leitað til fyrirtækis og fengið þaðan nokkrar tillögur, en ekki litist nægjanlega vel á. Hákon er svo sjálfur á ferð í Los Angeles, þar sem hann tók þátt í þríþrautarkeppni, og hittir þau Sean Waktins (Wattie) og Heather Jackson, sem stofnuðu Wattie ink fatalínuna fyrir um áratug síðan.

Kittið í heild sinni. Takið eftir sokkunum sem eru einnig með bleikum röndum.

Þrátt fyrir að hafa vaxið talsvert á þeim tíma er merkið enn lítið í samanburði við stóru íþróttafatafyrirtækin. Segir hann það nánast eingöngu selja vörur sínar í Bandaríkjunum, en þau hafi fallist á að senda Breiðablik nokkrar tillögur. Segir Hákon að þetta hafi meðal annars verið spennandi þar sem hönnuðir fyrirtækisins séu þekktir fyrir nokkuð villtar útgáfur af íþróttafötum.

Að lokum fengnu þau sendar þrjár tillögur. „Ein var eiginlega eins og við báðum um, ein var mjög sérstök og líka ljót og svo var það þessi sem við þróuðum áfram með þeim og endaði sem núverandi hjólaföt,“ segir Hákon.

Hér má sjá gamla Breiðabliks kittið sem nú er verið að skipta út. Græni liturinn fær að víkja fyrir bleikum og svörtum.

Bleikur og svartur í staðinn fyrir grænan

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum kemur bleiki liturinn sterkt inn í nýja búninginn, auk svarta litarins. Grænn hefur verið aðallitur Breiðabliks og var hann meðal annars aðalsmerki í eldri hjólafötunum. Hákon segir græna litinn þó hafa passað frekar illa, meðal annars við sum hjól. Þau hafi því horft til annarra lita sem félagið hafi notað, en sunddeild Breiðabliks hefur aðeins verið að nota bleika litinn og þá segist Hákon telja að ekkert annað félag hafi bleikan sem aðallit. Það er þó rétt að taka fram að Hjólafréttir notast við bleika litinn og gaman að sjá fleiri horfa í þá átt. Þá er ljóst að liturinn verður nokkuð áberandi í stærri hópum og það ætti ekki að fara farm hjá neinum að þarna sé um að ræða Breiðabliksfatnað.

Nýju treyjurnar hjá Breiðablik frá Wattie.
Bibs buxurnar

Ósymmetrík og hæðarlínur

En það er ekki bara liturinn sem sem horft var til við gerð gallans. Hákon segir að fyrir utan bleika og svarta litinn hafi verið lagt upp með að vera með ósymmetríska búninga þar sem grafíkin átti að sýna ákveðið útlit úr fjarlægð, en svo þegar nær væri komið kæmu smáatriðin betur í ljós.

Á nýja gallanum er einmitt fjöldi lína, bæði þykkar og svo hárfínar línur sem tákna hæðarlínur. Hákon segir þetta vera tengingu við Ísland, bæði hvað varði landslag, en einnig sem skírskotun í þrýstilínur á veðurkortum, en hér er auðvitað allra veðra von.

Kynjajafnréttismerkið aftan á treyjunni.

Án auglýsinga og með merki kynjajafnréttis

Fötin eru án allra auglýsinga og þá sé Breiðabliks merkingin ekki mjög áberandi, en hugsunin sé sú að fötin eigi að vera það sérstök að ekki fari milli mála að um sé að ræða Breiðabliksfólk. Til viðbótar er kynjajafnréttismerki á einum vasa á treyjunni, en Hákon segir það hafa sprottið upp af umræðu um að taka þátt í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í heildarkittinu eru stuttar bib buxur, stutterma hjólatreyja, síðerma race treyja, vesti, armwarmers, legwarmers og sokkar. Þá hafi nokkrir vetrar jakkar verið teknir til prófunar og segir Hákon að þeim verði bætt við í næstu pöntun.

160 treyjur í fyrstu pöntun

Samtals voru pantaðir 160 stutterma eða síðerma treyjur og 113 buxur auk þess sem nokkur aukapör voru tekin. Þau eru strax farin og biðlisti kominn á næstu pöntun.

Previous Article
Next Article

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar