Baráttan við Dólómítana

Halldór Jörgensson byrjaði að hjóla af ráði fyrir einungis 2 árum þegar hann flutti til Danmörku. Hann byrjaði sem samgönguhjólari, en einungis ári síðar var hann kominn í Dólómítana að taka þátt í Maratona dles dolomites. Keppnin er heilmikil áskorun fyrir alla hjólara, hvað þá einhvern sem byrjaði ári áður að æfa af einhverju viti. Ekki nema von að Halldór hafi, kvöldið fyrir keppni verið farinn að hugsa hvernig hann gæti látið sig hverfa af staðnum, “ég átti bara erfitt með að horfast í augu við áskorun morgundagsins”. Þessi áskorun átti hinsvegar ekki að vera auðveld, heldur lærdómsrík, skemmtileg og gefandi.

Hinir einu sönnu Dólómítar

Áhugamenn um keppnishjólreiðar þekkja Dólómítana vel. Þeir liggja í austur ítölsku ölpunum og þar eru margar af fallegustu fjallaleiðum sem finnast í hjólreiðum. Landslagið í Dólómítunum er einstakt og þeir koma reglulega fyrir í Giro d’Italia. Þar finnast þónokkur fjallaskörð, mislöng og misbrött. 

Maratona dles dolomites er svokölluð gran fondo keppni, opin fyrir áhugafólki en þar taka þátt yfir 9000 hjólreiðamenn. Þátttakendur geta valið um þrjár leiðir. Sellaronda leiðina, 55 km með 1780 m. hækkun fer í gegnum 4 klifur, m.a. hið fræga Passo Pordoi. Miðleiðin er sama og Sellaronda leiðin, nema við bætast tveir tindar, alls hjólaðir 106 km með 3.130m hækkun.

Erfiðasta leiðin er svo Maratona dles dolomitesi, alls 7 tindar Dólómítana á 138 km leið með 4.230 m hækkun. Þar þurfa keppendur meðal annars að fara upp Giau skarðið, 9,9 km hækkun með 9,3% meðalhalla.   

Byrjaði að hjóla 2018

Árið 2018 flutti Halldór til Danmerkur og þrátt fyrir að hafa ekki verið mjög virkur að hjóla langaði honum mikið að komast inn í sportið. Erfitt er að vera í Danmörku án þess að verða var við þá hjólamenningu sem þar ríkir og Halldór dáðist af öllu fólkinu sem nýtti hjól til samgangna og annarra erindagjarða.

“Ég var snöggur að verða mér úti um venjulegt bæjarhjól og hóf að hjóla í vinnu, kanna leiðir og njóta. Ég fékk tækifæri að heimsækja Borgundarhólm í júlí mánuði þar sem dóttir mín vann að verkefni. Ég leigði strax fjallahjól og áttaði mig á því að bíll var það síðasta sem taka þarf með á eyjuna. Það eru frábærar hjólaleiðir á eyjunni, bæði fjalla og götu, þessum hæðóttasta hluta Danmerkur ef Grænland og Færeyjar eru undanskildar.”

“Ég og dóttirin höfðum skipulagt túr þann 15. júlí til að skoða nokkra af fallegustu stöðum eyjunnar. Túrinn var svo magnaður að við gleymdum okkur alveg og misstum af fyrri hálfleik úrslitaleiks heimsmeistarakeppninnar í fótbolta. Við náðum seinni hálfleiknum og vorum bara glöð með það”.

Í kjölfarið setti Halldór sér markmið um að komast meira út að hjóla. Hann fjárfesti í götuhjóli og æfingatæki á viðráðanlegu verði og var tilbúinn til stærri verka. Það sem vantaði var hins vegar einhver alvöru áskorun og markmið til að hvetja sig áfram.

Tilboð sem ekki var hægt að hafna

Margir góðir hjólarar unnu með Halldóri hjá Valitor. Danska teymi Valitor hafði í nokkur ár tekið þátt í hjólaviðburðum á Ítalíu og nú kom upp sú staða að eitt pláss hafði losnað í ferðina og það var tilboð sem ekki var hægt að hafna.

“Ég tók agnið nánast viljandi og var kominn í teymið. Eina hindrunin var að þetta var 138km ferð með 4200 metra hækkun, eitthvað sem er sjaldséð í Danmörku”.

Sem betur fer átti ég góða að, bæði á íslandi og annarsstaðar. Hafði strax samband við Haffa (Hafstein Ægi) og fleiri sem gáfu góð ráð. Ég reyndi að púsla saman plani úr öllum góðum ráðum og endaði með að ráða mér þjálfara í Bretlandi sem setti upp æfingaplan. Nú var ég allavega kominn með plan sem miðaði að þessari ferð og búið til af þjálfara. Ég var því það eina sem stóð í vegi fyrir að halda plani. Tólf daga fjölskyldufrí þurfti einnig að byggjast inn í tveggja mánaða plan sem leit út eins og Everest!“

“Það var semsagt það óþekkta sem var óvinurinn.”

“Ég var álíka spenntur og hræddur við að horfast í augu við glæsileg en jafnframt ógnvægleg fjöllin“. Danski þjálfari hópsins hafði sett upp plan um að hjóla stuttu dagleiðina á föstudegi (Sellaronda leiðina), hvíla vel á laugardegi og vera klár fyrir áskorun sunnudagsins.

“Ég var svo reglulega í sambandi við breska þjálfarann og aðra fyrir góð ráð en líka bara til að róa mig. Strax á föstudagsæfingunni fór ég að efast. Að klifra þessar brekkur og vita ekki hvenær þær enda fór illa í sálina og sjálfstraustið. Ég tók samt eftir því að þegar komið var hærra, tréin farin úr landslaginu akrarnir blöstu við, svona í líkingu við íslenskt landslag, og það glitti í toppinn, þá átti ég auðveldara að með klifrið. Það var semsagt það óþekkta sem var óvinurinn.”

Nú var komið að ögurstundu. Góðu fréttirnar voru þó að fyrstu 65 km af 138km voru í brekkum sem Halldór var búinn að hjóla og kynnast á föstudeginum. Þá voru bara 11km eftir af óþekktri leið þar til komið yrði að tímamarkalínunni.

“Nú þurfti ég bara að kynna mér restina af leiðinni enn betur og hóf að lesa reynslu og lýsingar annarra. Vissulega var Passo di Giau stærsta klifuráskorunin, 9,9km að lengd, 922m hækkun, meðalhalli 9,3% og mest 15%. Mér til furðu náði ég tímamarkalínunni.”

“Þarna stóð ég, nokkuð sáttur, frammi fyrir vali. Ætti ég kannski að skella mér bara í mið leiðina, 106 km eða halda áfram að glíma við 138 km leiðina. Þetta var þó mjög auðveld ákvörðun. Þarna var ég og af hverju ekki skella sér 138km í stað fyrir að bíða til næsta árs (sem var frestað) eða einhvers annars tíma. Þannig að 138km var það.“

 Erfiður lokakafli

“Það sem gerðist eftir það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Passo di Giao var töluvert erfiðari brekka en ég gerði ráð fyrir og þegar ég átti 2km eftir af næstu og síðustu brekku, Valparola, byrjaði að rigna og blása. Á toppnum fór ég framhjá hópi fólks með angistarsvip sem hafði stoppað og virtust vera að bíða af sér þrumuveðrið áður en lagt yrði af stað í 26km niðurkeyrslu með einum smá hól upp á 19% halla. Ég stoppaði ekki, hélt bara áfram og með vel dofna fingur var ég í vandræðum með að taka á bremsunum. Ég þurfti svo sannarlega á þeim að halda. Vindur, rigning, haglél, lélegt grip og skyggni fékk mig ekki til að líða vel. Hafði í raun aldrei hjólað í almennilegri rigningu hvað þá á niðurleið með bunka af beygjum. Ég fann keppanda í skærum jakka sem ég ákvað að elta, aðallega til að læra hvernig hann væri að taka á bremsunum. Eftir smá stund óx mér kjarkur, tók framúr og hjólaði í einhverskonar „gati“ nánast einn. Púlsinn á þessari niðurkeyrslu var að a.m.k. 20 slögum hærri en á öllum hinum þó ég færi töluvert hægar.“

“Að fara yfir marklínuna var ótrúleg sæla. Sem íslendingur skráður til keppni undir dönskum fána þótti mér vanta eitthvað til að Ísland fengi sína athygli. Ég hafði skellt íslenska fánanum í vasann á kostnað næringar eða regnjakka. Ég náði að skella honum utan á mig þegar um 5km voru eftir og fór yfir marklínuna undir báðum fánum.“

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar