Staðan fyrir lokaumferðina

Nesjavallarbrekkan.

Úrslitin úr næst síðustu áskoruninni, sjálfri drottningarleiðinni (e. queen stage) upp Nesjavallabrekkuna, eru komin inn. Sjá má heildarúrslitin og stöðuna hér.

Yfir tímabil áskorunarinnar í þetta skiptið var veðráttan nokkuð hagstæð og síst mótvindur. Enda fengum við að sjá stórgóða tíma hjá þátttakendum og met í bæði karla- og kvennaflokki.

Í kvennaflokki fengum við að sjá flugeldasýningu hjá Erlu Sigurlaugu Sigurðardóttur sem bætti fyrra QOM um tæplega tvær mínútur, eða úr 13:01 niður í 11:17. Bríet Kristý Gunnarsdóttir kom einnig gríðarlega sterk inn og var á 11:52, sem hefði líka mölbrotið fyrra met ef Erla hefði ekki sett sinn tíma daginn áður. Margrét Indíana Guðmundsdóttir var á 13:09, aðeins 8 sekúndum yfir fyrra QOM, en það dugði ekki nema í þriðja sætið. Þetta sýnir kannski ágætlega hvað við erum með sterka aðila í kvennaflokki í ár, enda hefur Nesjavallabrekkan lengi verið ein af alvöru raununum sem fólk skellir sér í hér á suðvestur horninu.

Fyrir lokaumferðina er nú Erla Sigurlaug með 8 stiga forskot á Bríeti, en Erla er með 153 stig eftir átta áskoranir og Bríet 145. Talsverð spenna er einnig um þriðja sætið, en þar er Margrét Indíana með 113 og 6 stiga forskot á nöfnu sína Margréti Örnu Arnardóttur sem er með 107 stig.

Þar á eftir kemur svo Hrefna Jóhannsdóttir með 96 stig, en þær Helga Guðrún og Elsa María Davíðsdóttir berjast svo um sjötta sætið, með 81 og 80 stig. Ljóst að það verður um ýmsilegt að berjast í síðustu umferðinni.

Í karlaflokki fengum við líka talsverða bætingu á fyrra meti, en hann Dennis Van Eljk bætti KOM-ið um 26 sekúndur og fór upp brekkuna á 9:12. Ingvar Ómarsson varð annar á 9:42, en hann hafði átt fyrra KOM upp á 9:38. Eyjólfur Guðgeirsson varð þriðji á 10:39 og Jón Arnar Óskarsson var á 10:42.

Ingvar er með nokkuð þægilega forystu í fyrsta sætinu fyrir síðustu umferðina, eða með 118 stig. Jón Arnar er næstur með 103 stig og Guðni Ásbjörnsson er þriðji með 86 stig. Jón Arnar Sigurjónsson er svo jfórði með 79 stig og Björgvin Pálsson með 77 stig í fimmta sæti. Birkir Snær Ingvason er sjötti með 75 stig.

Úrslitin í heild má nálgast hér.

Næsta áskorun verður birt í kvöld og verður það sem fyrr segir síðasta áskorunin í þessu holli.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar