Fyrsta götuhjólið – Hvað á að velja?

Spurningin sem nær allir hjólarar hafa þurft að spyrja sig, og ef ekki þá hefur einhver spurt þá. Hvernig velur maður fyrsta götuhjólið við íslenskar aðstæður? Á að fara beint í racer, á maður að fá sér Cyclocross hjól eða til að bæta á valkvíðann er nú einnig hægt að fá sér malarhjól. Fyrir byrjendur líta þessi hjól eins út, öll eru þau með hrútastýri og geta örugglega komist hratt en þau eru mjög ólík. Það er þó áhugavert að öll geta verið ágætis kaup fyrir byrjendur. Fyrir Suður-Evrópubúa væri valið einfalt, hægt að hjóla á racer allt árið en á Íslandi er tímabilið styttra og fyrir þá sem vilja hjóla allt árið eða inn í haustið gæti verið sniðugt að hugsa um cyclocross eða malarhjól sem valkost, en þau koma á breiðari dekkjum en einnig er hægt að setja mjó racer dekk undir.

„Racer“

Specialized Tarmac – Racer

Götuhjól, (e. road bike) eða racer eru hjól sem hönnuð eru til hjólreiða á malbiki á mjóum dekkjum, oft frá 23mm en 25mm og 28mm eru algengari stærðir. Þau hafa sjaldnast pláss fyrir stærri dekk eða nagladekk. Þau koma oftast með púðabremsum, sérstaklega ódýrari tegundir en á undanförnum árum hefur fjölgað tegundum sem koma með diskabremsum. Diskabremsurnar eru umtalsvert betri í bleytu.

Racerar eru ekki allir eins hannaðir, auðvelt er að flokka þá í tvo flokka. Í fyrsta lagi svokallaða endurance racera en þar er reynt er að hafa stöðu hjólarans sem þægilegasta. Í öðru lagi þá sem eru með keppnisstöðu (e. race geometry) en þau hjól eru oft fáanleg sem „klifurhjól“ eða „aerohjól“. Hin svokölluðu „klifurhjól“ eru hugsuð þannig að hvert gramm skiptir máli, þau eiga að vera létt á meðan „aerohjól“ eiga að draga úr loftmótstöðu.

Af hverju racer?

Ef þú ætlar þér eingöngu að hjóla á malbiki yfir sumartímann.
Ef þú færð þér espresso á stoppi í löngum túrum
Ef þú ert tilbúinn að virkja n+1 þegar þú vilt loksins fara af malbikinu eða hjóla inn í veturinn.

Cyclocross hjól

Trek Boone Cyclocross hjól

Cyclocross (e. CX) hjól hafa verið afar vinsæl á Ísland a.m.k. ef horft er til þess að enginn stundar CX af neinu ráði á Íslandi. Ástæðan er einföld, þau hafa verið afar hentug til götuhjólreiða fyrir þá sem vilja vinnuhest allt árið í kring. Cyclocross er keppnisgrein innan hjólreiða þar sem hjólað er á lokuðum brautum, á ólíku undirlagi, en oftast mold, gras, drulla og upp og niður stuttar brattar brekkur og í krappar beygjur. Hönnun cyclocross hjóla tekur mið af þessu og eru þau hönnuð þannig að auðveldara sé að komast í gegnum krappar beygjur, oft á litlum hraða. Í ljósi þess að CX keppnir eru ekki langar, þá eru þægindi hjólarans heldur ekki ofarlega á forgangslistanum. Þau eiga líka að vera létt (hjólarinn þarf að halda á þeim í keppnum) og hröð.

Wout Van Aert með Bianchi CX hjólið sitt.

Cyclocross hjól koma á breiðari dekkjum en racer, að hámarki 33mm í keppnum en hafa gjarnan meira rými fyrir stærri dekk (t.d. 38-40mm). Þau koma einnig nær alltaf með diskabremsum.

Af hverju CX?

Ef þú vilt vinnuhest fyrir allt árið.
Ef þú færð þér belgískan öl eftir hjólatúr.
Ef þú vilt geta hjóla í öllum aðstæðum, en fyrst og fremst á malbiki og fínni möl en með minni áherslu á gróft undirlag.

Malarhjól

Malarhjól eru nýjasti valkosturinn í þessari deilu um eina götuhjólið (Sjá meira um malarhjólreiðar). Við fyrstu sýn virðast þau svipuð og cyclocross, enda á breiðum dekkjum og hrútastýri en það er þó nokkur munur. Ólíkt CX eru malarhjólarar ekki að fara í marga krappar beygjur og þeir þurfa ekki að hoppa af hjólinu. Þeir þurfa hinsvegar að geta farið yfir grófara undirlendi, eru frekar á lausri möl og grjóti en t.d. drullu og grasi og því eru malarhjól með mun breiðari dekkjum en CX, eða algengt að þau séu yfir 40-45mm á íslenskri möl.

True grit hjólið frá Lauf

Hönnun á malarhjólum tekur einnig tillit til þess að malarkeppnir séu yfirleitt langar. Þau eru því hönnuð með þægindi í huga og stöðugleika og mæta einnig öðrum þörfum en t.d. CX hjól, t.d. með því að hafa pláss fyrir fleiri brúsahaldara. Þó það sé ekki að finna á öllum malarhjólum, þá koma þau gjarnan með fjöðrun, en Íslendingar þekkja vel Lauf hjólin þar sem framgaffallinn er með fjöðrun sem sérstaklega er hugsuð fyrir minna átak, eins og tildæmis að hjóla á malarvegi. Mörg malarhjól eru án slíks dempara en þó með einhvers konar búnaði sem á að draga úr víbring, t.d. með fjöðrun í sæti eða stýri.

 Af hverju malarhjól?

Þú vilt geta haft möguleikann á að hjóla við allar aðstæður, yfir allar árstíðir, bæði á malbiki og grófu undirlagi.
Þú elskar humlaða Ameríska Pale Ale.

Hvað segja sérfræðingarnir?

Við ákváðum að spyrja nokkra sérfræðinga hvaða hjól þeir myndu velja ef þeir gætu bara átt eitt hjól og það þyrfti að vera racer, cyclocross eða gravel.

Ágústa Edda Björnsdóttir                  

Ágústa myndi velja Cyclocross eða Malar hjól ef hún væri að byrja í hjólreiðum. Hún segir að hefðbundin racer henti einungis þeim sem séu vissir um að þeir ætli sér ekki að hjóla utandyra að vetri til. Um valið milli CX og Gravel segir hún að hún tæki CX hjól ef hún ætlaði sér að keppa í CX keppnum til að geta notað aggressívari stöðu, annars væri það malarhjól.  

„Ef ég væri að byrja í hjólreiðum og ætlaði að fá mér bara eitt hjól (til að byrja með… þau verða orðin mun fleiri fljótlega ef maður fær hjólabakteríuna) þá myndi ég fá mér cyclocross eða gravel hjól. Það er hægt að æfa og keppa á þeim eins og um götuhjól væri að ræða. En helsti kosturinn við cyclocross og gravel hjól umfram götuhjól er að það er hægt að setja bæði gróf dekk og nagladekk undir þau – sem þýðir að það er hægt að hjóla utanvegar (á möl, grasi og moldarstígum) og hjóla á þeim í vetrarfærðinni (snjó, slabbi og hálku)“

Rúnar Örn Ágústsson

Rúnar Örn vill helst vera á malbikinu enda Tímatöku og götuhjólari. Hann vill þó líka geta hjólað allt árið og komist af malbikinu. Hann myndi velja Malarhjólið. Ástæðan fyrir því að hann velur malarhjólið umfram CX er til að geta haft sem breiðust dekk og þægilega stöðu fyrir langa túra. Hann myndi kjósa að hafa það með dempara.

 „CX er með of lítið tire clearance (pláss fyrir dekk) til að vera gott alhliða hjól. Þau voru góður kostur þegar Gravel hjólin voru ekki kominn jafn langt í þróun og í dag. Nú eru malarhjól betri kostur þar sem staðan hentar betur fyrir langar dagleiðir og á sama tíma meira tire clearance sem hentar vel á sumrin ef maður vill fara spennandi gravel ævintýri en líka á veturinn með að koma undir breiðari nagladekkjum“

Ingvar Ómarsson

Ingvar Ómarsson var fljótur að svara að hann myndi velja malar hjólið ef hann gæti bara átt eitt af þessum þrem. Ingvar vill að hjólið ráði við flestar aðstæður, enda er Ingvar fjallahjólari þó hann keppi og hafi unnið í öllum greinum hjólreiðanna. „ég myndi velja gravel hjólið af þessum þremur, vegna þess að það er líklegast til að ráða við flestar aðstæður. það kæmist upp með að vera ágætt götuhjól á réttum dekkjum og gjörðum, færi ýmsa fjallahjólaslóða á breiðari dekkjum, og myndi sleppa í cyclocross keppnir líka. það væri fullkomið do-it-all hjól ef það væri létt og með nóg pláss fyrir breið dekk

Hvert er rétta svarið?

Í raun er ekkert rétt svar við spurningunni hvað sé besta fyrsta götuhjólið eða hvaða hjól ættirðu að fá þér ef þú gætir bara átt eitt. Til að auðvelda valið snýst þetta fyrst og fremst hve mikið þú vilt geta haft möguleikann á að fara af malbikinu, þar liggur ‚trade-offið‘. Ef þú ætlar að vera eingöngu á malbiki á sumrin, þá er racer málið, en það er sjaldnast raunin. Líkt og sjá má af vali sérfræðingana myndi enginn þeirra velja sér að eiga einungis racer hjólið en algengt er að byrjendur fari beint í racer.

Ef þú vilt hafa möguleikann á að hjóla yfir veturinn þá eru bæði CX og Malarhjól valkostir og hvort um sig með skemmtilega eiginleika, spurningin er þá frekar hvað viltu geta komið breiðum dekkjum undir, hvað eru túrarnir langir og þá hvort þú viljir cyclocross stöðuna eða þægindin sem fylgja malarhjólinu.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar