Þrekraun framundan í óbyggðum Alaska

Framundan er 2-10 daga hjólakeppni á fatbike yfir 563 kílómetra, líklega mestmegnis snæviþaktar, óbyggðir Alaska þar sem sem hitastigið verður á bilinu frostmark og niður í -30°C. Gistiaðstaðan er í formi bívaks eða mögulega í fjallaskálum, en svefn verður þó af skornum skammti og áhersla lögð á að vera framarlega í keppninni við hina 30 hjólarana sem hyggjast halda út í sama ævintýrið/brjálæðið. Svona mætti lýsa komandi dögum fyrir hjólarann og ævintýramanninn Berg Benediktsson sem flestir tengja líklegast við Lauf.

Í vetur hafa reglulega poppað upp furðulegir túrar hjá Bergi á Strava þar sem vegalengdir, tími dags og staðsetning passa ekki alveg við það sem flestir aðrir hjólarar á Íslandi eru að gera á veturna. Hjólafréttir heyrðu í honum í vikunni til að athuga hvað lægi þarna á bak við og fengu nánari upplýsingar um áskorunina framundan.

Aðeins 75 sérvaldir keppendur

Keppnin sem um ræðir heitir Iditarod Trail Invitational og er keppni sem hefur þróast síðan um miðjan níunda áratuginn. Rétt eftir aldamót fékk keppnin núverandi ásýnd og hefur verið óbreytt síðan. Keppendur eru sér valdir, en þeir þurfa að uppfylla ákveðin lágmarksskilyrði, hvort sem það er þátttaka í öðrum álíka keppnum eða kunnátta og reynsla af hjólreiðum í óbyggðum og við erfiðar veðuraðstæður. Hámarksfjöldi er 75 manns, en það skiptist bæði í 350 og 1000 mílna keppnina. Bergur tekur þátt í fyrri keppninni sem er sem fyrr segir 563 kílómetra löng, en sú lengri er rúmlega 1.600 km. Til að setja það í samhengi er það eins og fara hringveginn frá Reykjavík og halda svo áfram annan hring og enda í Varmahlíð.

Keppnin hefst við Knik vatn, rétt hjá Anchorage í Alaska og er þaðan haldið  hina fornu leið sem kallast Iditarod yfir nærliggjandi fjallgarð og að smábænum McGrath. Leiðin er ekki venjulegur vegur heldur er hægt að fara hann þegar snjór er yfir öllu á vélsleðum eða hundasleðum og svo auðvitað á hjólum, gönguskíðum eða labbandi, eins og boðið er upp á í þessari keppni.

Þegar keppnin er ræst fer klukkan í gang og hún stoppar ekki fyrr en keppandinn kemur í mark. Það þarf því að skipuleggja svefn, matarpásur og hvíld eins vel og hægt er. Keppendur geta sent mat og vistir á nokkra viðkomustaði á leiðinni, en þess fyrir utan þurfa þeir að ferðast með allan fatnað, svefnbúnað og varahluti sjálfir. Þá þarf einnig að vera með nóg af vistum milli stöðva, en það eru 50-150 km á milli þeirra.

„Ég næ ekki alveg að tikka í öll box”

Hvernig kom þetta til og hvað ertu búinn að koma þér útí?

Þetta var fyrsta spurning undirritaðs þegar hann heyrði í Bergi til að forvitnast um þátttöku hans.  Bergur segir að keppnin hafi lengi verið á radarnum hjá honum þó hann hafi í raun ekki pælt mikið í þátttöku fyrr en í lok árs 2018. „Ég sá Facebook status í lok nóvember 2018, en keppnin átti að byrja í febrúar 2019. Það voru auglýst þrjú laus sæti og ég ákvað að slá til,“ segir Bergur. Hann segist hafa sent ítarlega lýsingu á helstu afrekum sínum, en hann hafði aldrei tekið þátt í viðlíka vetrarkeppni og þurfti því að uppfylla undanþáguskilyrðið. Það stóð þó ekki á skipuleggjendunum sem sáu eitthvað öflugt í Íslendingnum og skráðu hann beint til leiks.

„Ég næ ekki alveg að tikka í öll box sem þeir vilja, en það hjálpar eflaust að vera frá Íslandi og svo að haf averið í allskonar rugli og það tókst allavega að sannfæra þá um að ég myndi klára þetta,“ segir Bergur léttur í bragði. Meðal keppna sem hann hefur tekið þátt í eru Dirty Kanza 200 og 350 auk fjölda keppna í kringum 200 km í kringum starf sitt hjá Lauf. Þá hefur hann einnig farið í nokkur löng ferðalög frá fimm dögum og upp í tvær vikur og nefnir hann tveggja vikna ferðalag um Tads­íkist­an og Kirgistan árið 2018 með kærustunni sinni. Það hafi verið þægileg ferð, en samtals hjóluðu þau um 960 km. Einnig lengdi hann eitt sinn vinnuferð í Taívan og tók fimm daga um eyjuna, meðal annars upp eitt lengsta, ef ekki lengsta samfellda klifur heims, Wuling Pass. Þessi áhugi á löngum ferðalögum og áskorunum byrjaði hins vegar með 1.400 km ferð í gegnum Suður-Kóreu, en þá hjólaði hann ásamt Árna Má Sturlusyni félaga sínum 150-200 km á hverjum degi yfir 8 daga.

Bergur búinn að undirbúa náttstað í Grindarskörðum nú í vetur við æfingar.

En svo kom babb í bátinn. Bergur slasaðist á hné og þurfti að hætta við, en hann samdi um að fá að færa keppnisréttinn yfir til næsta árs og núna er komið að stóru stundinni.

Búnaður og aðstæður skipta miklu máli

Spurður um aðstæður á svæðinu segir hann að erfitt sé að segja nákvæmlega fyrr en menn eru mættir. „Það getur verið ansi kalt, ég geri ráð fyrir allt niður í -30°C,“ segir hann, en þó hafi einnig komið ár þar sem hitastig var við frostmark. Hann segist helst vilja sjá nokkuð kalt veður með þjöppuðum snjó eða harðfenni, enda komist hjól þannig hraðast yfir. Séu aðstæður slæmar, annað hvort nýfallinn snjór eða jafnvel mikið um bráðinn snjó gæti ferðalagið hins vegar dregist all svakalega. Segir hann að í slíkum aðstæðum megi alveg búast við að þurfa frekar að ýta hjólinu en að ná að hjóla á því.

Til að vera sem best búinn segist Bergur taka með sér mörg lög af fatnaði og svo rétt fyrir keppni muni hann ákveða hvaða lög hann taki með sér. Svefnpokinn er skráður fyrir -18-20°C og svo ætlar hann einnig að hafa ullarsokka og primaloft buxtur og jakka til að skella sér í í pokanum. Hann segir að við bestu aðstæður væri hann að hjóla í föðurlandi og skel og mögulega primaloft vesti, en það verði að koma í ljós hvað hann taki með sér.

Aðstæðurnar geta eins og áður segir skipt miklu máli varðandi á hvaða tíma tekst að klára keppnina. Bergur segir að undanfarin ár hafi sigurvegarinn á hjóli verið frá 40 klukkustundum upp í 10 daga. Vegna þessa segist hann aðeins hafa keypt sér flugmiða aðra leið heim.

Bergur segist geta átt von á því að þurfa að ganga með hjólið stóran hluta leiðarinnar sé færið slæmt. Þá er gott að hafa æft það eitthvað eins og hann gerir hér.

20 tímar á ferðinni og hvíld í fjóra

Spurður út í plön á leiðinni, svefn á móti tíma á hjólinu o.s.frv. segir Bergur að það muni koma í ljós eftir aðstæðum. „Ég er með allskonar plön í hausnum, en svo spilar maður þetta eftir því hvernig þetta verður. Ef það er ekki of gott færi þarf maður að koma upp einhverri rútínu og ég sé fyri rmér 20 tíma á ferðinni og hvíla í fjóra, en svo gæti líka skipt máli hvort maður hitti á skála,“ segir hann. Ef færið er hins vegar fullkomið segir hann að líklega verði reynt að ná sem lengst og mögulega alla leið áður en farið sé að sofa.

Vinnudagur-hjólanótt-vinnudagur

Það gerist ekki sjálfkrafa að fólk hafi kraftinn og úthaldið í keppni sem þessa. Bergur býr vel að því að hafa tekið þátt í fjölda malarkeppna víða um heim undanfarin ár, en þær hafa þó allar verið yfir sumartímann. Vegna þess hefur hann undanfarna mánuði æft sig umtalsvert hér á landi og tekið nokkur „góð mission.“ Þannig segist hann nokkrum sinnum hafa hjólað af stað beint eftir vinnudag og hjólað alla nóttina og svo mætt aftur til vinnu morguninn eftir. Þetta hafi verið hluti af bæði andlegum og líkamlegum æfingum, en að læra á svefninn skiptir þarna auðvitað gríðarlegu máli. Þá segist hann hafa farið oft út á kvöldin eða nóttunni til að æfa sig í snjónum eða slæmu veðri og þá reynt að sofa í bívak þegar það passaði. Þá nefnir hann hring um Reykjanesið fyrr í vetur í skítaveðri og 100 km á fatbike á Sporinu nú fyrir stuttu.

Landslagið á leiðinni verður ekki það auðveldasta og segir Bergur að vegna þessa hafi han nokkrum sinnum tekið 7-8 klst túra í erfiðu landslagi hér í vetur með það að markmiði að þurfa ða labba stóran hluta leiðarinnar með hjólið og svo að leggja sig úti.

Smá ekta íslensk vosbúð í Reykjaneshring fyrir skemmstu hjá Bergi.

Hjólið og hjólabúnaðurinn

Það er ekki aðeins hjólarinn sjálfur sem skiptir máli í ferðalagi sem þessu. Hjólið verður af gerðinni Fatback og fær hann það lánað frá eiganda fyrirtækisins, en það gerir einmitt út frá Alaska og styrkir keppnina. Bergur segir að það sé með enn stærri dekkjum en hans eigið fat bike hjól og því hafi hann ákveðið að fara þessa leið. Hins vegar verður það auðvitað sérútbúið og ætlar Bergur að skella Lauf gaffli á það. Dekkin verða 27,5×4,5 tommur og á hjólinu verða „frambag“ í stellinu, tvær minni töskur á topptúbunni og 14 lítra hnakktaska. Þá verður hann með camelbag á bakinu sem er aðallega hugsað fyrir vatn og mögulega smá annað smotterí. „Trixið er að hafa vatnið næst líkamanum svo það frjósi ekki,“ segir hann. Framan á stýrinu verður hann svo með sjópoka með svefnpoka og dýnu. Á stýrinu verða einnig fastar lúffur.

Númer eitt að koma heill heim

Keppnin hefst 1. mars, en Bergur ætlar að gefa sér nokkra daga í undirbúning úti. Spurður út í markmið segist hann ekki hafa sett sér nein skýr markmið annað en að komast heill frá keppninni. Markmið tvö sé að klára og ánægjulega markið væri að klára í topp 30%. „Annað er bara bónus.“

En af hverju að fara út í þetta og hvað er þá næst?

Bergur hlær að þessari spurningu og segist ekki alveg vita svarið. Hann virðist oft enda í allskonar rugli og hafi áhuga á öðruvísi áskorunum. „Svo stækkar þægindarramminn eftir því sem maður gerir meira af þessu.“ Hann hefur engar áhyggjur af því að þetta verði loka verkefnið hans. „Það er alltaf hægt að finna eitthvað meira.“

Hjólafréttir óska Bergi góðs gengis, en hægt verður að fylgjast með keppenum út frá staðsetningartækjum á meðan keppnin er í gangi. Slóðin á það hefur þó ekki enn verið birt, en líklega kemur það á heimasíðu keppninnar. 

Bergur ætlar að hjóla til styrktar Krafti – stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Hægt er að styrkja málefnið á Karolina Fund.

Forsíðumynd: Snorri Þór Tryggvason

Previous Article
Next Article

One Reply to “Þrekraun framundan í óbyggðum Alaska”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar