Vorkeppnirnar byrja um helgina
Vorboðinn ljúfi, Omloop Het Nieuwsblad, fyrsta evrópska einsdagskeppnin á Heimstúrnum fer fram næstu helgi og markar þá upphaf götuhjólatímabilsins í Evrópu. Fyrir hjólreiðaaðdáendur er langri bið lokið en fyrir þá sem fylgjast minna með hjólreiðum er þetta rétta tækifærið til að sjá frábærar keppnishjólreiðar án þess að þurfa að fylgja þeim eftir í þrjár vikur.
Hverjar eru þessar vorkeppnir ?
Þeir sem minna fylgjast með keppnishjólreiðum hafa frekar heyrt um Tour de France eða Giro d‘Italia heldur en vorkeppnirnar. Þeir sem meira fylgjast með, iða líklega af spenningi. Það er hins vegar stór munur á þriggja vikna grand túrum og svo einsdagskeppnum og einnig munur á þeim hjólreiðamönnum sem njóta sín í grandtúrum og þeim sem gjarnan eru sigurstranglegastir í einsdagskeppnum. Eitt er víst, þær eru spenna, taktík og hamagangur frá fyrstu mínútu.
Hver og ein keppni hefur sitt sérkenni sem gjarnan mótast af landslagi, vegakerfi og veðri á hverjum stað og henta þær ólíkum hjólreiðamönnum. Belgísku vorkeppnirnar og Paris Roubaix með sína löngu kafla af hellusteinum sem verða blautir og sleipir í rigningu. Strade Bianche með sína malarkafla og lokaklifur inn í miðbæ Siena. Hin 292 km langa Milan-San Remo sem fer meðfram ítölsku rívíerunni og endar á tveim klifrum upp hinar frægu Cipressa og Poggio hæðir. Að lokum Ardennes keppnirnar (Amstel Gold Race, La Fleche Wallone og Liege Bastogne Liege) með sínum hólum og hæðum.
Dagatalið – Þessum má ekki missa af
29. febrúar – Omloop Het Nieuwsblad – Belgía
7. mars – Strade Bianche – Ítalía
21. mars – Milan – San Remo – Ítalía
5. apríl – Ronde van Vlaanderen (Tour of Flanders) – Belgía
12. apríl – París Roubaix – Frakkland
19. apríl – Amstel Gold Race – Belgía
26. apríl – Liege Bastogne Liege – Belgía
Aðrar
1. Mars – Kuurne Brussels Kuurne – Belgía
25. Mars – E3 BinckBank Classic – Belgía
29. Mars – Gent – Wevelgem – Belgía
1. apríl – Dwars door Vlaanderen – Belgía
22. apríl – La fleche Wallone – Belgía
Hverjum eigum við að fylgjast með?
Það getur verið snúið að spá fyrir um sigurvegara í vorkeppnunum áður en keppnirnar hefjast. Miklu máli skiptir fyrir menn að koma inn í toppformi úr undirbúningstímabilinu en það er ekki endilega nóg því einsdagskeppnirnar geta verið taktískar og óvæntar. Þetta sást í fyrra í Tour of Flanders þegar Alberto Bettiol tók á skarið og gerði árás á fremsta hóp en þar náðist ekki að búa til samvinnu til að loka bilinu. Margir sem töldust sigurstranglegri voru þar skildir eftir.
Vorkeppnirnar eru ólíkar á sinn hátt og geta úrslit verið háð veðri, aðstæðum og landslagi. Sumar enda í breiki eða smækkuðum hóp á meðan aðrar eru líklegri til að enda í hópspretti. Það er þó ekki á færi allra sprettara að hlaða í wattabombur eftir jafn langar og erfiðar keppnir og vorkeppnirnar eru. Hér eru hins vegar nokkrir keppendur sem gaman verður að fylgjast með.
Deceuninck Quick-Step liðið – Quick Step liðið fór hamförum í vorkeppnum síðasta árs og með sterkan hóp má búast við að árið í ár verði ekki undantekning. Þeir hafa marga sem hafa getu í að vera í fremsta hóp þegar líður á keppnirnar og geta þar með gert árásir sem erfitt er fyrir aðra að fylgja eftir. Í belgísku keppnunum verða Zdenek Stybar, Bob Jungels og Yves Lampert líklegir. Líklegt er að Julian Alaphilippe ætli sér að endurtaka magnað tímabil síðasta árs, en hann tók sigur í Strade Bianche, Milan-San Remo, La Fleche Wallone og hafði einnig verið líklegur í Amstel Gold Race. Hann er afar sigurstranglegur í hæðóttari keppnum og fáir sem geta skákað honum þar.
Danirnir – Síðasta ár var gott fyrir danskar hjólreiðar. Augu margra munu líklega beinast að Mads Pedersen, liðsmanni Trek og heimsmeistaranum í götuhjólreiðum. Mads skartar regnboga treyjunni þetta árið og munu væntingar til hans vera miklar. Fleiri Danir gætu gert sig líklega, Kasper Asgreen hjá Quick Step var annar í Tour of Flanders í fyrra og Michael Valgren hjá NTT sigraði Amstel Gold Race og Omloop árið 2018. Jakob Fuglsang hjá Astana kom gríðarlega sterkur inn í vorið 2019 og þó hann hafi einungis sigrað Liege Bastogne Liege af vorkeppnunum, þá tók hann þriðja sætið í Amstel Gold Race, annað sætið í La Fleche Wallone og annað sætið í Strade Bianche. Hann sýndi það í síðustu viku að hann kemur sterkur inn í 2020 tímabilið þegar hann sigraði Vuelta a Andalucia keppnina á Spáni. Fuglsang verður þó ekki á ráslínu í fyrstu vorkeppninni á laugardag og hefur líklega augað á hæðóttari leiðum.
Peter Sagan – Hinn magnaði Peter Sagan átt slæmt tímabil á síðasta ári, á sínum mælikvarða og er ekki skráður á startlista fyrir Omloop og Kuurne Brussels Kuurne. Sagan mun að öllum líkindum byrja vortímabil sitt í Strade Bianche eða Milan San Remo. Spurningin er hvort Sagan geti komið aftur inn í því formi sem hann náði árin 2016-2018, en þau árin var hann heimsmeistari, sigraði Tour of Flanders, Paris Roubaix o.fl.
Mathieu Van Der Poel – Hann kom eins og stormur inn í götuhjólreiðar á síðasta ári þessi langbesti fjallahjólreiðamaður og cyclocrossari í heimi. Hann sigraði tvær keppnir í fyrra, byrjaði á Dwaars door Vlaanderen en sigraði svo Amstel Gold Race í einum magnaðasta endasprett síðustu ára. MVdP kemur inn í tímabilið í toppformi eftir að hafa gjörsigrað heimsmeistaramótið í CX fyrir mánuði síðan. (Uppfært: MvDP verður ekki í Omloop vegna veikinda).
Hverjir aðrir – Fegurðin við vorkeppnirnar eru að þær geta verið óútreiknanlegar og óvæntar og því margir sem gætu gert sig líklega. Gaman verður að fylgjast með Philippe Gilbert sem skipti úr Quick Step yfir í Lotto Soudal fyrir þetta ár en hann hefur unnið flest sem hægt er að vinna í einsdagskeppnum. Til viðbótar eru vorkeppnirnar alltaf aðalmarkmið hjá Greg Van Avermaet hjá CCC og Alexander Kristoff hjá UAE.
Fyrsta keppnin á laugardag
Líkt og fyrr segir fer fyrsta keppnin fram á laugardag, Omloop Het Nieuwsblad en hún er ein af belgísku vorkeppnunum sem einkennast af þónokkrum hellulögðum vegaköflum. Leiðin liggur frá Gent til Ninove, 200 km löng, og þræðir leiðin þónokkra hóla og hæðir og hellulagða kafla í Flæmingjalandi. Alls eru 9 hellulagðir kaflar skráðir og 13 hæðir. Belgísku keppnirnar bjóða ekki upp á fjöll og klifur en hæðirnar eru lúmskar, stuttar og brattar og eru teknar á miklu afli. Í keppni sem er löng og á háu tempói eru hellurnar og hæðirnar mikil áskorun. Veðurspáin, þ.e. fyrir keppendur er hreint ekki góð. Það verður rigning og hvasst. Fyrir áhorfendur eru þetta góð tíðindi, veðrið gæti aukið á spennuna. Nú er bara að endurnýja áskriftina hjá Eurosport !