Í sérstöku hjólanámi í Noregi

Matthías Schou Matthíasson er einn af efnilegri hjólreiðamönnum Íslands og var hann 17 ára núna fyrir um viku síðan. Hann á að baki Íslandsmeistaratitil í U17 í bæði götuhjólreiðum og tímatöku. Síðasta haust hélt hann út til Noregs þar sem hann hóf nám í íþróttaskóla á hjólreiðabraut. Fyrir utan hefðbundið nám fylgja þessu stífar æfingar, meðal annars æfingabúðir á Spáni og svo er  gert ráð fyrir að hann taki þátt í yfir 50 keppnum á þessu ári. Hjólafréttir heyrðu í Matthíasi seinni partinn í febrúar varðandi þetta nám og markmið með náminu.

Missti af hópnum á fyrsta móti en hefur svo tekið miklum framförum

Skólinn sem um ræðir heitir NTG (Norges Topidrettgumnas), en þar er hægt að velja mismunandi íþróttirbrautir eins og handbolta, fótbolta, dans, skotfimi og svo hjólreiðar. Matthías segir að hjólreiðarnar skiptist svo upp í fjalla- og götuhjólreiðar. „Ég valdi götuhjólreiðarnar.“ Hann segir námið svipað og að klára menntaskóla á Íslandi, en svo bætist íþróttirnar við.

Hjólreiðar eru talsvert lengra komnar sem keppnisíþrótt í Noregi en á Íslandi, enda enn ungt sport hér. Matthías segir að þetta sé ótrúlega skemmtileg reynsla og nám, en viðurkennir þó að í fyrstu hafi hann átt í erfiðleikum á æfingum. „Það er hærra level hérna úti,“ útskýrir hann.

Matthías hefur keppt fyrir Íslands hönd í yngri flokkum.

Þannig hafi hann í fyrstu keppninni síðasta haust misst alveg af hópnum. Hann segir þjálfarann hafa sýnt sér mikinn skilning og hann hafi leiðbeint honum með bæði hvíld og svo miklar æfingar í kjölfarið.Um mánaðarmótin september/október hafi síðasta keppni haustsins verið og í framhaldinu hafi „off-seasonið“ byrjað og æfingar samhliða því. Matthías segir að magn æfinga hafa verið mikið þá og svo eftir áramót hafi strúktúeraðri æfingar byrjað, til dæmis með interval æfingum. Þegar Hjólafréttir náðu tali af honum var hann svo staddur í næsta bæ við Benidorm á Spáni þar sem skólinn var með æfingabúðir. Segir Matthías að á þessu æfingatímabili hafi hann náð að komast á svipað level og aðrir í hópnum.

Miklar kröfur og sumarið fullskipað

Spurður út í mun á æfingum úti og svo heima á Íslandi segir hann að æfingarnar úti séu mun strúktúeraðri. „Interval-ið á Íslandi var bara 1 klst æfing, en hér eru þetta 2 klst og tekið þrisvar í viku. Svo eru tvisvar þriggja tíma æfingar í viku líka,“ segir hann. Engar lyftingaæfingar eru hjá norska skólanum en á móti segir Matthías að mikil áhersla sé lögð á core-æfingar.  Hann segir veturinn hafa skilað umtalsverðum framförum hjá sér. „Ég finn talsverðan mun og get í dag hjólað á miklu hærri wöttum en áður.“

Eins og áður sagði gerir skólinn kröfu um að hann keppi í 50 keppnum eða meira á þessu ári. Það þýðir í raun um ein keppni á viku, en þegar vetrarmánuðirnir eru teknir með í jöfnuna er það jafnvel ein og hálf keppni að meðaltali á viku frá vori yfir á haust. Segir hann að nú þegar sé hann búinn að plana allt sumarið, en hann mun meðal annars keppa í Assen í Hollandi í júlí sem og fjölmörgum keppnum í Noregi og öðrum Norðurlöndum. Þá ætlar Matthías að koma til Íslands í júní til að taka þátt á Íslandsmótunum í götuhjólreiðum og tímatöku. „Planið að ná Íslandsmeistaratitli í junior í bæði götuhjólreiðum og tímatöku,“ segir hann og bætir við að honum langi einnig að ná góðu sæti í Bláa lóns þrautinni. „Svo keppi ég í Postnord í Svíþjóð sem ég keppti líka í í fyrra en mun svo flakka á milli Norðurlandanna og keppa í sem flestum keppnum,“ segir hann.

Þéttur hópur sem vinnur saman

Matthías mun fara á flest mótin ásamt hópi frá skólanum sem einnig taka þátt. Segir hann að mikil áhersla sé lögð upp úr samvinnu hjá hópnum og að skipt sé upp eftir getustigi og styrkleika til að ná sem mestu út úr hópnum. Segir hann að meðal þess sem lagt sé upp með sé að ákveða hver sé í aðalhlutverki í hverri keppni og svo hjálpa honum að reyna að vinna keppnina eða ná sem bestum árangri.

Samtals eru 27 á fyrsta ári með honum í þessu námi, en námið tekur í heild þrjú ár. Segir Matthías að allir reyni að hjálpa hver öðrum og hann hafi notið rosalega góðs af því. En Matthías og skólafélagar hans munu ekki bara keppa undir merkjum skólans, því einn þjálfarinn í skólanum er yfirmaður í norsku continental keppnisliði og munu Matthías og fleiri úr skólanum keppa undir merkjum þess í sumar í keppnum utan Noregs.

Spurður út í framtíðarplön segir Matthías að markmiðið sé að reyna að komast í U23 lið í Noregi, en þar eru nokkur mjög öflug continental lið, meðal annars Coop og Joker fuel. Viljinn standi til þess að ná að keppa á Evrópubikarröð með slíku liði, en svo verði annað að ráðast. Segir hann nám við skóla eins og þennan, þar sem mikil áhersla sé lögð á hjólreiðar og þekking og tengsl við hjólageirann séu fyrir hendi séu gríðarlega mikilvæg til að bæði þróast og svo vonandi ná að koma sér á framfæri. Nefnir hann að frá skólanum hafi meðal annars komið hjólreiðamenn sem fóru í Team Sunweb og Ineos í World tour, en Kristoffer Halvorsen fór árið 2018 til Team Sky/Ineos og þaðan til Team EF fyrir árið í ár. Þá fór Vegard Stokke til unglingaliðs Sunweb í fyrra.

Assen Hollandi – þrír keppendur frá HFR taka þátt ?Síðustu vikuna í júlí fer fram ein stærsta og sterkasta…

Posted by HFR – Hjólreiðafélag Reykjavíkur on Miðvikudagur, 5. febrúar 2020
Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar