Óvænt stefnumót við Elg – Hjólakeppni við öfgaaðstæður í Alaska
Fyrsti dagurinn fór að mestu í að ýta hjólinu í gegnum snjóinn. Síðar tók við hvassviðri í meira en -20°C, eltingarleikur með ref og enn síðar allt að -44°C þar sem heyrðist braka í trjánum og marra sérstaklega í snjónum og hjólatölvan datt út vegna kulda. Rétt fyrir lokin var svo komið að nokkurra klukkustunda nábýli við risastóran elg sem tafði öll ferðaplön.
Þetta er meðal þess sem Bergur Benediktsson upplifði á 350 mílna (563 km) leið sinni um óbyggðir Alaska í keppninni Iditarod Trail Invitational. Keppnin hefst við Knik vatn, rétt hjá Anchorage og er þaðan haldið hina fornu leið sem kallast Iditarod yfir nærliggjandi fjallgarð og að smábænum McGrath.
Þrekraun framundan í óbyggðum Alaska
Bergur ræddi við Hjólafréttir í vikunni þegar hann var loksins búinn að ná góðri hvíld eftir ævintýrið mikla sem tók hann í það heila 5 daga og 20 klukkustundir að ljúka.
„Þetta var algjör snilld“
„Líkaminn er að skána og andlega heilsan er góð. En þetta var algjör snilld og bara geggjað,“ segir Bergur hress þegar hann er spurður hvernig staðan sé.
Bergur ákvað að fara yfir keppnina með Hjólafréttum, hvernig aðstæður voru hverju sinni og hvernig hann tæklaði hvern kafla. Ágætt er að hafa myndina af leiðinni til hliðsjónar við lesturinn. Leiðin er ekki venjulegur vegur heldur er hægt að fara hann þegar snjór er yfir öllu á vélsleðum eða hundasleðum og svo auðvitað á hjólum, gönguskíðum eða labbandi, eins og boðið er upp á í þessari keppni.
Kláraði drykkjarvatnið fyrir fyrsta áningastað
Eins og hafði komið fram í fyrri frétt Hjólafrétta um þessa ferð Bergs hafði snjóað mikið dagana fyrir keppni og það leit út fyrir að allavega fyrri hlutinn yrði mjög þungfær. Í stuttu máli rættist þessi spá alveg. „Það var erfitt færi alveg frá byrjun,“ segir Bergur. „Fyrsti dagurinn fór bara í að ýta hjólinu.“ Til viðbótar var nokkuð „heitt“ að hans sögn, en það þýddi -5°C niður í -10°C. Bergur segir að þennan fyrsta dag hafi hann svitnað rosalega mikið, en slíkt er ekkert endilega ákjósanlegt þegar kuldinn er mikill.
Að fyrsta „checkpoint“ voru um 60 mílur, en Bergur segir að hann hafi klárað vatnið sitt, um 3 lítra, á fyrstu 25 mílunum. Eftir það átti hann um hálfan lítra í hitabrúsa, en náði að bæta snjó í brúsann og búa þannig til aðeins aukalega af drykkjarvatni.
Varði fyrstu nóttinni úti undir tré
Eftir 15 klst streð var komið fram á nótt og Bergur segir að þreyta hafi verið farin að gera vart um sig. Hafi það meðal annars verið vegna þess að hann hafi ekki náð að sofa almennilega dagana áður vegna flugþreytu. „Komst ekki í fyrsta checkpoint og svaf undir tré þegar 10 mílur voru eftir í það.“
Þessa nótt var snjókoma en þurr snjór. Bergur segir að tréð hafi gripið mikið af snjónum, en hann hafi örugglega náð að sofa í góðar tvær klukkustundir. Hitastigið var um -10°C og segir Bergur að þetta hafi verið þægileg nótt og líka sú eina sem hann þurfti að sofa úti. Hinar hafi verið í skálum eða upphituðum tjöldum.
„Bilað rok og beint í andlitið“
Á degi tvö segist Bergur hafa komist í gírinn og farið að læra á aðstæður og hitastigið. Hann fór fram hjá checkpoint 1 sem heitir Yentna og áfram að checkpoint 2 sem kallast Skwentna. Á þeim kafla hafi verið hægt ða hjóla slatta, en einnig að ýta hjólinu. Þessir fyrstu tveir dagar voru nokkuð flatir að hans sögn, en með miklum og nýföllnum snjó sem erfitt hafi verið að hjóla í.
Frá Skwentna hafi hann svo lagt af stað á þriðja degi í áttina að Finger lake. Áfram var nokkuð svipað og fyrri dagana, kalt og flatt auk þess sem lítill vindur var. „En við Finger lake kom bilað rok og beint í andlitið,“ segir Bergur. „Ég heyrði að það hafi verið um 80 km/klst þar.“ Til fróðleiks má geta að það eru á milli 20 og 25 m/s.
Rétt við Finger lake er tekin 90° beygja og stefnan tekin yfir vatnið. Bergur segir að þá fyrst hafi þetta orðið virkilega erfitt, en þá skall vindurinn á hliðina og hann hafi alltaf verið við það að fjúka með hjólið, sem samt sem áður var hlaðið dóti og var þungt eftir því. Til viðbótar hafi hitastigið verið komið niður í um -22°C á þessum tíma og því vel kalt.
Vissi að hann ætti talsvert inni
Hann kom svo loks í Finger lake eftir þriggja daga ferð og hvíldi þar í fjórar klukkustundir, en það var hvíldin fyrir erfiðasta kafla leiðarinnar, allavega þegar horft er til hæðametra.
„Ég hvíldi mig vel í Finger lake og var kominn með sjálfstraustið. Var farinn að læra á kuldann og aldrei búinn að fara í hlýjasta fatnaðinn þó það væri jafnvel langleiðina í -30°C. Ég vissi því að ég ætti talsvert inni,“ segir Bergur.
Ráðleggingar frá pólfara komu að góðum notum
Hins vegar lenti hann á þessum kafla í smá klúðri sem þurfti að bregðast skjótt við. Hann fann nefnilega fyrir einhverju skrýtnu á nefinu og komst að því að um kalsár á nefi væri að ræða. Fyrir ferðina hafði hann fengið ráð frá Leifi Svavarssyni, pólfara, Everest-fara og fjallagarpi, á þá leið að hafa áttavita hangandi um hálsinn, jafnvel þótt hann þyrfti ekkert að pæla í áttum. „Málið var að nota spegilinntil að tékka á kalsárum í andlitinu og það nýttist líka svona vel. Fann eitthvað skrýtið og sá svo hvítan blett og gerði strax ráðstafanir,“ segir Bergur.
Fjórði dagurinn hófst snemma, eða um sex um morguninn og lá leiðin upp í Puntilla lake. Bergur segir að það hafi gengið nokkuð vel. „Ég var frekar snöggur upp og frekar ferskur.“ Hann hafi getað hjólað slatta af leiðinni og náð að draga á nokkra keppendur.
Ákvað að leggja af stað í ógðelegar aðstæður
Þegar upp í Puntilla lake var komið var þar mjög hvasst, en miðað við hversu ferskur hann var taldi hann tímasóun að halda ekki áfram. Hann stoppaði þó í um þrjár klukkustundir í Puntilla lake til að borða og hvíla sig smá, en þó án þess að sofa.
„Ég heyrði af ógeðslegum aðstæðum fram á við, eða -25°C og hvassviðri,“ segir Bergur. Hann hafi hins vegar ákveðið að leggja af stað áfram í Rohn eftir að hafa teypað nefið, kinnbeinin og viðkvæmustu staðina fyrir kali. Þannig hafi hann verið að leggja af stað þegar flestir aðrir keppendur ákváðu að bíða. „Þarna var ég því orðinn næstur á eftir fyrstu mönnum,“ segir hann.
Gerði mistök og var eltur af ref
Ferðalagið byrjaði rólega, en hann gat hjólað jafnt og þétt og var kominn inn í nóttina. Eins og í ekta ævintýri sem gerist um nótt var stjörnubjart og tunglskin. Til að halda áfram með minni úr ævintýrum lenti Bergur í því að refur fór að elta hann. „Ég asnaðist til að gefa honum chorizo pylsu. Að sjálfsögðu hélt hann áfram að elta mig og gerði það heillengi,“ segir Bergur, en hann náði svo að stinga refinn af niður eina brekkuna.
Leiðir Bergs og refsins skyldu áður en hann fór lokaklifrið fyrir skarðið á fjallgarðinum. Eftir það yrði leiðin að mestu niður á við. „Þarna var gríðarlega hvasst. Ég var 10 klukkustundir að fara upp í skarðið, en það var um 300 metra hækkun,“ segir hann og bætir við að hann hafi þurft að ýta hjólinu stærstan hluta leiðarinnar.
Þegar þarna er komið við sögu var hitastigið komið nokkuð lágt og vindkælingin hafi aukið á kælinguna og segist Bergur hafa verið kominn í allan fatnaðinn. Það eigi til dæmis við um dúnúlpu og fleiri lög.
Datt í dúnalogn og -44°C
„Ég komst svo upp í skarðið og þegar ég byrjaði að fara niður þá datt allt í dúnalogn,“ segir hann. Bergur var bæði með hjólatölvu og gamlan göngu-gps sér til halds og trausts. Þá var hann einnig með gamlan analog frystimæli úr frysti sem náði lægst niður í -30°C. Hjólatölvan slökkti á sér í þessum kulda og frystimælirinn var löngu búinn að maxa sig. Bergur segir að hann hafi heyrt frá öðrum keppendum að hitastigið þarna hafi farið niður í um -44°C.
Bergur segir að meðan hann hafi getað klætt af sér kuldann hafi honum liðið vel og það hafi átt við þarna. „Mér leið vel þarna, fann ekki fyrir neinu slæmu.“ Umhverfið hafi hins vegar orðið allt öðruvísi. „Fólk hafði talað um að allt breytist í minna en -40°C. Það verði frostþoka, braki sérkennilega í trjánum og maður heyri sérstakt hljóð í snjónum,“ segir hann. Það hafi reynst rétt. „Það var alveg magnað að upplifa þetta, eitthvað allt annað.“
Vandamál með hjólið í mesta kuldanum
En Adam var ekki lengi einn í Paradís. Bergur þurfti að stoppa einu sinni á þessum kafla þegar hann tók eftir því að það var farið að leka úr öðru dekkinu. Hann segir að þegar hann stoppaði hafi hann áttað sig á því að í svona kulda mætti ekki gera mistök. „Þá fer maður að missa einhverja putta.“ Því hafi verið mikilvægt að pæla í öllu sem hann gerði og passa að vera ekki of lengi með bera húð í kuldanum. Hann hafi bætt aðeins í dekkið, en haldið áfram til Rohn og komist þangað á um sólarhring samtals frá Finger lake.
Stoppið í Rohn var því í lengri kantinum fyrir keppni eins og þessa, eða í níu klukkustundir. Þar af hafi um fimm klukkustundir verið í svefn, en restin í að borða og gera við lekann. Þar hafi hann þurft að festa betur ventil á tubeless kerfinu.
Á minni hvíldarstöðvunum eins og Rohn gildir reglan fyrstur inn – fyrstur út og voru svefnpláss aðeins sjö talsins. Það þýðir í raun að ef sjö keppendur hefðu komið stuttu eftir að Bergur kom þangað hefðu þeir sjálfkrafa ýtt honum út. Það kom hins vegar ekki til þess, enda hafði Bergur einn fárra ákveðið að halda áfram til Rohn eftir Puntilla lake.
Fyrstu mílurnar hraðar, en svo ótrúlega þungt færi
Þegar hann var orðinn vel nærður og hvíldur tók við lengsti staki leggur ferðarinnar, eða yfir til Nikolai, sem er um 75 mílur. Lagði hann af stað um klukkan fimm síðdegis og nú var loksins komið að flottu færi. „Þetta var geggjaður kafli,“ segir Bergur. Fyrstu 30 mílurnar hafi verið mest niður í móti, þéttur og góður slóði og hann hafi getað hjólað á 12-15 m/klst hraða.
„Ég var búinn að sjá fyrir mér að þetta yrði auðvelt að Nikolai, en svo þegar 25 mílur eru eftir þá kemur aftur alveg ótrúlega þungt færi. Þungur snjór og þurfti að ýta á fullu,“ segir hann. Þetta tafði ferðina nokkuð og Bergur var kominn í Nikolai klukkan um hálf eitt um hádegi daginn eftir.
„Þurfti alltaf að vera að pedala“
Þar var hugmyndin fyrst að sofa vel og leggja af stað um miðnætti, en hann hafði heyrt að spáð væri hellings snjókomu um nóttina. Þá hafði hann einnig heyrt af því að þeir sem væru á undan hefðu náð að hjóla að markinu og vildi Bergur nýta aðstæðurnar og lagði því af stað klukkan sex síðdegis.
Samkvæmt sömu upplýsingum hafði hann heyrt að fremstu menn væru að hjóla áfram á um 6-7 m/klst hraða og tókst Bergi að halda þeim hraða líka. „Það var samt engin hvíld í 9 klst, maður þurfti alltaf að vera að pedala,“ segir hann.
Elgurinn sem setti öll plön í uppnám
Þegar aðeins 11 mílur voru eftir, eða innan við 20 kílómetrar, sá Bergur fersk spor á leiðinni sem voru eftir elg. Hann gat ekki hjólað í sporunum og því þurfti hann að ýta hjólinu og í stað þess að vera á 6 km/klst hraða datt hraðinn niður í 2 m/klst. „Tíminn þrefaldaðist því þarna.“ Af þessum 11 mílum vissi Bergur að síðustu 5 væru á plægðum vegi, en öll leiðin fram að því hafði verið á snjólagi sem stundum var þjappað en ofar en ekki ótroðið. Hefði hann því haldið 6 m/klst hraðanum hefði hann átt að komast á plægða veginn á einni klukkustund, en það endaði á þremur klst að ýta hjólinu.
Þarna um miðja nótt í óbyggðum Alaska, rétt áður en hann átti að klára keppnina, fór Bergur hins vegar að sjá eitthvað fyrir framan sig. Hafði hann greint á sporinu að elgurinn hefði verið að labba í öfuga átt við sig og því væri óhugsandi að hann myndi rekast á dýrið. Þetta sem hann sá því við og við taldi hann vera stikur.
Svo sá hann eitthvað aftur. „Mér fannst ég sjá elg, en trúði því ekki. Hélt að þetta væri ofsýn,“ segir Bergur. Hann stoppaði samt í þrjú skipti til að vera alveg viss. Í fjórða skiptið sem hann stoppaði kom svo elgurinn fullkomlega í ljós. Þar voru tvö augu sem horfðu á hann í á að giska 40-50 metra fjarlægð. Þá segir Bergur að hann hafi einnig heyrt í elgnum og því hafi þetta ekki verið nein spurning.
Elgurinn var þannig á sömu leið og Bergur, en fór hins vegar yfir á mjög litlum hraða. „Elgurinn hélt áfram að labba mjög rólega, kannski á 1,5 mílna hraða sem var hægar en ég. Mér varð því kalt,“ segir Bergur. Ómögulegt hafi verið að fara út fyrir sporið til að reyna að komast fram úr elgnum, enda hafi þar verið mittisdjúpur snjór.
Bergur skellti sér í úlpu og stoppaði í skamma stund, en strax og hann lagði aftur af stað hafði hann náð elgnum. Það varð því úr að hann elti elginn hægt í um fjórar klukkustundir.
„Svo þegar svona hálf míla er eftir að veginum leggst elgurinn niður og hreyfir sig ekkert,“ segir Bergur og ljóst er að honum er nokkuð niðri og enn frekar ósáttur með þessa ákvörðun elgsins.
Efinn um hvort þetta hafi í raun verið elgur
Eftir nokkrar tilraunir til að fá elginn til að halda áfram án árangurs taldi Bergur einu leiðina vera að koma sér fyrir og bíða, en hann hafði verið varaður við fyrir keppnina að elgir gætu verið hættulegir yfir vetrartímann. Þá væru þeir svangir og pirraðir og algengast að þeir myndu ráðast á fólk.
Hann þjappaði því för út fyrir sporið í átt að næsta tré og hélt sig fyrir aftan tréð. Áformaði hann þar hina fullkomnu leið úr aðstæðunum. Sá hann fyrir sér að ef elgurinn myndi koma til sín væri hann búinn að þjappa niður nóg af snjó til að geta farið í kringum tréð og inn á stíginn aftur og af stað áður en elgurinn næði til hans. Ekkert varð hins vegar af þessu því elgurinn hreyfði sig ekki. Tíminn leið og klukkan var orðin átta um morgun eftir um tveggja tíma bið og Bergur segir að hann hafi verið farinn að gera ráð fyrir að vélsleðamenn úr þorpinu myndu fara þarna fram hjá og mögulega fæla elginn. Það gerðist ekki heldur.
Á endanum kom hins vegar keppandi sem hafði verið fyrir aftan Berg og rétt áður en hann var kominn í almennilegt sjónfæri stökk elgurinn á fætur og af stað. Þegar keppandinn kom var því engan elg að sjá og Bergur segir að á tímabili hafi hann verið farinn að efast hvort elgurinn hafi í alvöru verið þarna. Nokkru síðar hafi þeir hins vegar rekið augun í elginn og því ljóst að ekki var um ofsjónir vegna svefnleysis að ræða.
„Þetta var eiginlega eini punkturinn sem ég varð pirraður á aðstæðum í keppninni,“ segir Bergur.
Spurður hvort hann hafi ákveðið að hjóla samferða hinum keppandanum í mark segir Bergur að strax og hann hafi getað farið að hjóla hraðar hafi hann byrjað að gera það. Hann hafi ekki ætlað að láta þennan gaur taka af sér sæti og vera á undan í mark út af asnalegu „standoff“ við elg.
„Það er enginn auðveldur kafli“
Eins og áður sagði kom Bergur í mark á 5 dögum og rúmlega 20 klst.
„Þetta var miklu erfiðara en ég hafði gert mér grein fyrir,“ segir Bergur spurður út í hvað standi upp úr eftir keppnina. „Maður er að allan tímann. Þetta er erfitt allan tímann, það er enginn auðveldur kafli.“ Hann viðurkennir þó að fyrsti dagurinn hafi verið erfiðastur. Þá hafi verið „heitt“, hann hafi svitnað, fengið krampa og klárað vatnið.
Hann segist þó spenntur fyrir keppnum sem þessari og að hann sé frekari til í svona hark en ef hann hefði lent í toppaðstæðum og hægt hefði verið að hjóla samfleytt í tvo daga.
Heitur fyrir að reyna við þetta aftur með keppnishugarfari
En hvað tekur við eftir svona keppni? Nú hefur Bergur tekið þátt í fjölmörgum löngum malarkeppnum eins og Dirty Kanza og Dirty Kanza XL. Er eitthvað sem tekur við núna? „Tja, ég er ansi smeykur um að ég eigi eftir að gera þetta aftur einhvern tímann,“ segir Bergur og skellir upp úr. „Ég er nokkuð sáttur við allt sem ég gerði, en gæti skafið tíma af ef maður vildi. Ég fór þetta núna svolítið á mínu pace-i.“ Þá segist hann hafa spjallað við fólk á stöðvunum. „Það væri alveg gaman að taka þetta aftur með race hugarfari.“
Spurður út í hvað hafi reynst honum lykilatriði á ferðinni segir hann að númer eitt tvö og þrjú sé að stoppa alltaf og laga ef eitthvað virkar eins og það sé bilað eða að fatnaðurinn sé ekki að gera sig. „Það á aldrei að bíða með neitt.“ Þá segir hann að hausinn þurfi að vera í mjög góðu lagi allan tímann. Honum hafi sjálfum tekist það ef frá er talinn efasemdatíminn vegna elgsins í lokin. Þá hafi hann reynt að stilla því þannig upp að hann myndi frekar vera meira á ferðinni á nóttinni, en með því væri svigrúm fyrir mistök þegar hann væri orðinn þreyttari og sólin væri komin upp og þar af leiðandi meiri hiti.
Eftir að keppni lauk flaug Bergur frá McGrath til Ancorage aftur þar sem við tóku nokkrir dagar í hvíld áður en haldið var áleiðis heim á leið.
Bergur hjólaði til styrktar Krafti – stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Hægt er að styrkja málefnið á Karolina Fund.