Smíðar gjarðirnar í höndunum
Eflaust kannast margir við Jenna Erluson, en hann hefur undanfarin ár bæði gert við, sinnt viðhaldi og smíðað gjarðir undir nafninu Þriðja Hjólið. Jenni er menntaður í vélvirkjun, rennismíði og vélfræði og hefur starfað í málm- og vélaiðnaði allan sinn starfsaldur. Áhugi hans á reiðhjólum kviknaði hins vegar á barnsaldri og hefur hann verið að fikta í hjólum frá því fyrir 1990 og starfaði m.a. á verkstæðinu hjá GÁP nokkur sumur.
Jenni segir að áhugi hans hafi alltaf verið mestur á gjörðunum, „ég veit í raun ekki af hverju, kannski vegna þess að ég var alltaf í vandræðum með mínar og þurfti að bjarga mér sjálfur.“ Jenni segir að fyrir tíma netverslana hafi verið áskorun að verða sér úti um varahluti, hann hafi þurft að faxa til útlanda handútfyllt pöntunareyðublöð sem hann þurfti að rífa úr fjallahjólablöðum.
Lengi blundað í honum að smíða eigin gjarðir
Alveg síðan Jenni yfirgaf hjólaverkstæðið hefur blundað í honum að smíða stand til að rétta og smíða gjarðir. Sá hugmynd hefur þó verið lengi í fæðingu, en fyrir tuttugu árum byrjaði Jenni að á slíkri smíði. Hann byrjaði á að kaupa álklump en markmiðið var að fræsa til og nota sem botnplötu í svona stand. „Þetta var gæluverkefni en ég greip í þessa smíði af og til í mörg ár. Það var svo ekki fyrr en fyrir um fjórum árum sem ég fór að sjá fyrir endann á þessari smíði“
Þá tók við næsta skref, að smíða gjarðir til að prófa græjuna. Erfitt reyndist þó að finna efni í gjarðir á Íslandi og úr varð að panta mest allt að utan.
„Ég vissi svo sem að það væri enginn sérhæfður „wheelbuilder“ hér á landi og þetta er eitthvað sem verkstæðin hér eru ekki að einbeita sér að þannig að þá lá beinast við að sérhæfa sig í þessu, bæði sérmíði og viðgerðum. Ég ákvað að einbeita mér að því að bjóða uppá professional gæði og þjónustu frekar en einhverja færibanda pakka þjónustu og númer eitt, tvö og þrjú að hafa gaman að þessu, og ekki taka mig of hátíðlega. Þetta er ógeðslega skemmtileg vinna og ekkert verkefni eins. Svo er líka virkilega svalt að búa til flott og gott sett af gjörðum sem vekur athygli, virkar og endist.“
Sérsmíðaðar gjarðir eru alltaf betri
Jenni segir að sérsmíðaðar gjarðir séu alltaf betri en OEM/Stock gjarðir (smíðaðar af framleiðenda) og að nýjar gjarðir séu alltaf besta uppfærslan fyrir hvaða hjól sem er. Ástæðan er einföld. Á sérsmíðuðum gjörðum fær hver einasti íhlutur fullkomna athygli, þ.e. hver nippill, hver teinn og frágangur eins og best verður kosið. Þannig verður teinaherslan jafnari og yfirleitt eru valdir íhlutir sem hægt er að skipta út ef eitthvað kemur upp á. Gallinn við OEM gjarðir eru að þær eru gjarnan með sérstaka teina sem ekki er hægt kaupa ef eitthvað kemur fyrir. Jenni segir að gjarðasmiðir noti ekki öðruvísi teina en original í gjörð, því ólíkir teinar geta myndað ójafnvægi. Þetta verði að vera nákvæmnisvinna.
Sérsmíðaðar gjarðir séu þannig ekki ólíkar sérsniðnum jakkafötum. Jenni segir að þær séu gerðar fyrir ákveðna hjólara og ákveðið hjól þar sem leitað er eftir sérstökum eiginleikum. Íhlutir taki þannig mið af þyngd hjólreiðamannsins og hans kröfum, hvort sem eru aero, downhill, touring, cyclocross. Slíkt sé ekki í boði á hjólum sem keypt eru út úr búð.
Sérsmíðun gefur notendum líka val um hvernig legur eru í gjörðunum og segir Jenni algengt að OEM gjarðir séu með ódýrari legum og ekki stöðluðum.”Þegar ég set nýjar legur í nöf reyni ég að nota eingöngu SKF legur, aðallega vegna þess að ég hef góða reynslu af þeim og það er tiltölulega auðvelt að fá þær”. Hann bendir á að gott geti verið að taka nöf í sundur og þrífa stöku sinnum og smyrja uppá nýtt. Þetta eigi sérstaklega við um Shimano nöf þar sem það er hægt. Vatnið er gjarnan mesti óvinurinn.
Lærði gjarðasmíði í USA
Líkt og með smíðina á gjarðastandinum hafði Jenni lengi horft til þess að læra þessa vinnu enn frekar. Fyrir 17 árum sá hann námskeið á vegum vegum UBI (United bicycle institute) og hafði horft til þess með löngunaraugum. „Á síðasta ári lét ég svo vaða og skellti mér til Ashland, Oregon á wheelbuilding námskeið, þetta var nokkurra daga námskeið og er nú vottaður sem viðurkenndur DT Swiss gjarðasmiður. Þetta var virkilega áhugavert og skemmtilegt námskeið og lærði ég mikið þar, mismunandi handbrögð, frekara val á búnaði og mismunandi aðferðir að búa til gjarðir svo eitthvað sé nefnt.“
„Allar gjarðir sem ég smíða eru með raðnúmeri og fylgir vottorð þar sem fram koma allar upplýsingar um íhluti, tegundir og lengdir og svo herslutölur teina þannig að auðvelt er að finna varahluti komi eitthvað fyrir. Ég bý til hvernig gjarðir sem er, fyrir götuhjól, fjallahjól, ferðahjól, malarhjól, hvað sem er,“ segir hann.
Ekki alltaf sparnaður að kaupa ódýrar gjarðir
Jenni segir að carbon gjarðir geti verið jafn mismunandi og þær eru margar. „Það þarf að vanda sig við val á svoleiðis gjörðum, átta sig á hvað á að nota þær í og hvernig þær eru uppsettar, hvaða teinar eru og hversu margir, hvaða nöf og hvaða þyngd af notanda þær eru ætlaðar.“
Algengt vandamál við ódýrari gjarðir er að þær endist gjarnan ekki jafn vel og þegar kemur að viðhaldi sé erfitt að nálgast varahluti. „Það getur verið fúlt að eiga gjarðasett með slitinn tein sem ekki fæst og jafnvel ódýrara að kaupa nýtt sett frekar en að skipta um alla teinana, sem er orðin gríðarleg sóun að mínu mati, bæði á peningum og auðlindum jarðar.“
Mikilvægt að velja gjarðir fyrir íslenskar aðstæður
Jenni segir að það sé mikilvægt að velja gjarðir með íslenskar aðstæður í huga og að álnipplar henti Íslandi ekki vel. Þeir tærist of auðveldlega og festist. Þegar það gerist verður erfitt að lagfæra jafnvel smávægilega hluti. Af þeim sökum notar Jenni eingöngur kopar nippla í sínar gjarðir. Þegar kemur að viðhaldi leggur mælir hann með því að gjörðum sé haldið hreinum, þær séu þrifnar með ekki of sterkum efnum og reynt að þurrka vel á eftir. Jenni mælir einnig með því að tékka reglulega á herslunni á teinunum, „Ágætis trikk er að hljóðprófa hersluna á teinunum, slá létt á þá með einhverju, sexkannt, skrúfjárn eða eitthvað og hlusta eftir hljóðinu, þeir eiga allir að hljóma eins, í það minnsta svipað.“
Eini viðurkenndi dempara tæknirinn á Íslandi
Þegar Jenni var á námskeiði í Ashland sá hann að mögulegt yrði að slá tvær flugur í einu höggi og ná demparanáskeiði samhliða gjarðanámskeiðinu. Hann er því bæði vottaður gjarðasmiður og demparatæknir.
„Þegar ég kom heim ákvað ég að bjóða upp á þetta líka þar sem enginn sérhæfir sig í þessu heldur og býð ég upp á þjónustu fyrir bæði fram og aftur dempara, þó aðallega FOX og Rockshox. Mikið af sérverkfærum þarf í þessa vinnu, t.d. eru margir FOX aftur demparar með háum þrýsting af köfnunarefni sem einungis er hægt að setja í með sérstökum búnaði. Hef ég annaðhvort smíðað verkfærin sjálfur eða keypt þegar svoleiðis verkefni hafa komið.“
Jenni hefur viljað bæta við sig þekkingu um dempara viðhald og nú í byrjun mars sótti hans yfirgripsmesta námskeið sem völ er á um FOX dempara.
„Demparar þurfa þjónustu eins og annað og mæla framleiðendur með ákveðinni þjónustu með reglubundnu millibili, fer eftir framleiðanda, tegund dempara, fram eða aftur dempari o.s.frv. og er þetta til þess að auka endingu og virkni. Hver dempari sem fer í gegn hjá mér er afhentur með skýrslu sem segir hvað var gert og hvaða viðgerðar sett voru notuð til að auðvelda síðari tíma þjónustur.“