Reiðhjólabændur orðnir hluti af LHM
Reiðhjólabændur eru formlega orðnir hluti af Landssamtökum hjólreiðamanna, en umsókn þeirra um aðild var samþykkt á aðalfundi samtakanna síðasta fimmtudag. Með þessu fjölgar félögum sem heyra undir LHM umtalsvert, enda félagar hópsins á sjöunda þúsund.
Á aðalfundinum var Árni Davíðsson endurkjörinn formaður. Auk hans voru þeir Páll Guðjónsson, Haukur Eggertsson, Erlendur S. Þorsteinsson og Fjölnir Björgvinsson kjörnir í stjórn, en fyrstu fjórir voru einnig áður í stjórn landsamtakanna. Sigurður Grétarsson og Morten Lange voru kjörnir í varastjórn, en þeir hafa báðir áður komið að starfi samtakanna.
Aðildarfélög LHM eru nú Íslenski fjallahjólaklúbburinn, Hjólreiðafélag Reykjavíkur, Hjólamenn, Hjólafærni á Íslandi, Hjólreiðafélag Akureyrar og Reiðhjólabændur.
Árni Davíðsson segir í samtali við Hjólafréttir að vegna inngöngunnar hafi Reiðhjólabændur formlega verið stofnað sem félag, en það er Birgir Birgisson sem fer fyrir félaginu. Árni segist líta svo á að félagar á Facebook-síðu Reiðhjólabænda verði félagar í hinu nýja félagi og þar með í LHM. Hins vegar séu þegar margir í Reiðhjólabændum þegar félagar í LHM í gegnum önnur félög og því sé fjölgunin ekki alveg eins mikil og félagafjöldi í Reiðhjólabændum gefi til kynna.
Félög sem heyra undir LHM eru af ýmsum toga, bæði íþróttafélög eins og HFR og svo félög sem frekar horfi til almenningssamganga eða hjólreiða sem ferðamáta. Árni segir að hlutverk LHM í gegnum tíðina hafi helst verið hagsmunabarátta fyrir hjólreiðar almennt. Félagið hafi ekki skipt sér mikið af keppnisíþróttum heldur hafi það verið á hendi HRÍ. Hinsvegar hafi verið rætt um aðild HRÍ að LHM nýlega og sé það allt til skoðunar.
Sem dæmi um verkefni félagsins nefnir hann umsagnir við lagafrumvörp, leiðbeiningar vegna hönnunar í tegnslum við hjólreiðar, umsagnir um deiliskipulög, yfirferð samgönguáætlunar og fleira slíkt. Ekki sé verra að hafa fleiri félaga á bak við sig í slíkri vinnu og komi Reiðhjólabændur þar sterkir inn.
Hann segir að stefnt sé að því að halda áfram á svipaðri braut og áður, en að hann vilji reyna að efla innra starf og auka sambandið við félögin. „Það þarf að hlusta eftir röddum hjólreiðamanna þannig að sjónarmið þeirra nái fram í umsögnum og tillögum,“ segir hann og bætir við að auðvelt ætti að vera að nýta m.a. samfélagsmiðla til þess.
Ljósmynd/Hari