„Ég set allt sem ég á í þetta“

Ingvar Ómarsson er eini atvinnumaður Íslands í hjólreiðum og honum hefur tekist undanfarin ár að keppa á erlendri grundu með aðstoð fjölmargra styrktaraðila. Það er þétt skipuð dagskráin hjá honum fram á haust, en þangað til mun hann taka þátt í 12 mótum sem hann skilgreinir sem stórmót í sínu dagatali, til viðbótar við íslensku mótin í bæði fjallahjólreiðum og götuhjólreiðum. Þá hefur hann þegar tekið þátt í tveimur stórmótum á erlendri grundu það sem af er ári. Ingvar segir stefnuna setta á að fjölga svokölluðum UCI stigum um ca 60% í sumar, en slíkt myndi hækka hann umtalsvert á heimslistanum og gefa honum stað framar í ræsingunni á heimsmeistaramótinu í haust.

Hjólafréttir ræddu við Ingvar um plönin í sumar og hvernig hann ætlar að byggja keppnistímabilið upp. Hann er núverandi Íslandsmeistari í bæði fjallahjólreiðum (bæði ólympískum og maraþon) og götuhjólreiðum. Þá varð hann í öðru sæti í Íslandsmótinu í tímatöku í fyrra.

Ingvar Ómarsson

Sem fyrr segir hefur Ingvar tekið þátt í tveimur stórmótum erlendis það sem af er árinu. Fyrst var um að ræða fjöldaga keppni í apríl í Andalúsíu á Spáni, þar sem hann krækti í 10 UCI stig, og svo ólympíska fjallahjólakeppni í Danmörk í lok apríl. Þá bættist við önnur fjöldaga keppni í Belgíu fyrir um einni og hálfri viku síðan. Þótt Ingvar hafi ekki flokkað hana sem stórkeppni á keppnisdagatalinu þá endaði hann með að hala þar inn 10 UCI stigum eftir að hafa lent í 25 sæti. Hægt er að lesa nánar um þátttöku Ingvar í þeirri keppni hér:

Íslandsmeistaratitlarnir gefa vel

Samtals er Ingvar með 139 UCI stig í fjallahjólreiðum eins og staðan er í dag. Flest stig fær hann fyrir Íslandsmeistaratitlana tvo, eða 100 stig fyrir ólympíska titilinn og 10 stig fyrir maraþon titilinn. Þá er hann með 10 stig úr bæði keppninni í Andalúsíu og í Belgíu og þrjú stig úr hverri af þremur ólympískum keppnum frá í fyrra.

Í raun er hægt að skipta keppnunum sem Ingvar tekur þátt í upp í þrjá eða fjóra flokka. Fyrst eru það heimsmeistara- og Evrópumeistarakeppnirnar. Ætlar hann að taka þátt í Evrópumeistaramótinu í maraþonfjallahjólreiðum í Noregi í júlí og heimsmeistaramótunum í bæði ólympískum og maraþon í september. Fer ólympíska keppnin fram í Kanada 1. september, en maraþon keppnin í Sviss 22. september.

Í öðru lagi eru það heimsbikarmótin. Samtals er um að ræða sjö mót yfir tímabilið, en stefnan hjá Ingvari er að taka þátt í tveimur af mótunum. Annars vegar í Nove Mesto í Tékklandi næstu helgi og svo í Les Gets í Frakklandi í júlí.

Í þriðja lagi eru aðrar fjallahjólakeppnir sem eru skráðar UCI keppnir. Þær gefa UCI stig eins og heimsbikarmótin, heimsmeistaramótin og Evrópumótin. Auk þeirra þriggja keppna sem hann hefur þegar tekið þátt í frá í apríl, þá eru sex svona mót á dagskrá, meðal annars eitt á Íslandi – Glacier 360 keppnin í kringum Langjökul. Aðrar slíkar keppnir eru Race days í Kolding í Danmörku, 3Nations cup í Zoetermeer í Hollandi, Skaidi Xtreme í Noregi, Shimano liga í Álaborg í Danmörku og Catalunya Bike Race á Spáni. Bæði Glacier 360 og Catalynya Bike Race eru fjöldaga keppnir, Skaidi er maraþonkeppni, en hinar eru ólympískar.

„Þetta verður 320 km gravel vitleysa“

Í fjórða lagi eru svo aðrar keppnir. Þar inni eru meðal annars allar íslensku keppnirnar og svo annars konar keppnir. Meðal annars ætlar Ingvar að fara með Lauf-mönnum til Bandaríkjanna og keppa í Dirty Kanza, en það er líklega þekktasta og ein stærsta malarhjólreiðakeppni heims. Síðar í sumar er svo stefnan sett á The Rift, sem Lauf stendur einmitt fyrir hér á Íslandi, nánar tiltekið að Fjallabaki. Þá verður hann einnig í Bláa lóns þrautinni og Rangárþingi ultra og öðrum slíkum íslenskum keppnum.

Malarhjólreiðarnar eru farnar að toga í Ingvar, en í The Rift er meðal annars hjólað um Fjallabak sem má sjá hér. Ljósmynd/Arnold Björnsson

„Ég ætla að prófa eitthvað nýtt í ár,“ segir hann um ákvörðunina að prófa malarhjólreiðarnar í sumar. „Þetta verður 320 km gravel vitleysa“ segir hann og hlær og segir nú ekki ætla að gera sig líklegan þar til að slá nein met. Hins vegar ætli hann að reyna að vera framarlega. Spurður út í hvernig honum lítist á að vera næstum hálfan sólarhring í hnakknum segir Ingvar að einhvers staðar sé lína þar sem honum hætti að þykja gaman að hjóla í svona langan tíma, þótt alltaf sé hægt að klára á þrjóskunni. Það muni koma í ljós í sumar hvort keppnir eins og Dirty Kanza komi honum yfir línuna eða ekki. „Ég fer í allt sem ég kemst í og er bara forvitinn. Ég er í fínu formi og fyrir langar keppnir og götuhjólaformið hjálpar þar mikið,“ segir Ingvar og bætir við að ekki hafi veirð hægt að segja nei þegar Lauf-menn buðu honum með sér.

Keppnistímabilið hálft ár

Í heild er keppnistímabilið hjá Ingvari rúmlega 6 mánuðir, frá mars fram í byrjun október. Segir hann að það krefjist ýmislegs af þeim sem ætli sér að taka þátt af fullu allt tímabilið. „Þú þarf að halda forminu, getur ekki bara keppt, heldur þarft líka að taka góðar æfingar,“ segir hann.

Þegar keppnisdagatalið er skoðað má sjá að gat er næstum allan júnímánuð. Ingvar segir að þarna fái hann rúmlega fjórar vikur í hvíld fyrir hausinn, eftir fyrstu mótin erlendis um vorið. Fæstir myndu reyndar kalla þetta neina hvíld, því við taka Íslandsmeistaramótin, Bláa lóns þrautin, Rangárþing ultra og fleiri keppnir. „Svo byrjar þetta í júlí með Evrópumóti í maraþoni og þriðju umferðinni í heimsbikarnum (XCO),“ segir Ingvar.

Frá Belgíu á dögunum.

Ingvar hefur áður verið búsettur erlendis meðan hann var við æfingar og keppnir. Hann er hins vegar búsettur á Íslandi í dag, en keppnirnar erlendis kalla á mikil ferðalög. Spurður hvort ekki væri ódýrara að vera úti yfir keppnistímabilið eða allavega á milli helstu keppna, segir hann svo ekki vera. Hann reyndar nái 2-3x á ári að samnýta ferð út og taka þátt í tveimur mótum, en þegar allt sé tekið með í reikninginn sé hagstæðara að fljúga út á hverja keppni. Ástæðan er sú að gistingin kostar mest.

Flestar keppnir eru um helgi og margar á sunnudegi. Ingvar segir að þá fari hann að jafnaði út á föstudegi og komi sér vel fyrir og skoði helst brautina daginn eftir. Svo sé keppni á sunnudaginn og farið heim á mánudegi. „Það er heimskulegt að reyna að spara með að taka styttri ferð og ná þá jafnvel verri áfrangri. Maður þarf oftast tíma til að kynnast aðstæðum,“ segir hann.

„ Engin leið að stunda þetta og að vera með sparnað í gangi“

Keppnislífstíll sem þessi kallar á heilmikil útgjöld í tengslum við ferðalög og keppnir. Hvernig gengur Ingvari að halda þessu gangandi og þarf hann að standa straum af miklum kostnaði sjálfur? „Ég er 100% sponsaður og næ að dekka allt sem tengist þessu með styrkjum sem ég fæ,“ segir Ingvar um ferðalögin og keppnirnar, en bætir við að þetta sé rándýrt og hafist með því að passa vel upp á útgjöldin.

Stærsti stuðningsaðili Ingvars er Novator sem styrkja hann fjárhagslega. Til viðbótar við það segir Ingvar að um 13 fyrirtæki styrki hann í dag. Það sé bland í poka af búnaði og fjárhagslegum styrk, en nýlega fór Ingvar yfir til Arnarins, sem nú styrkja hann með Trek-hjólum og búnaði.

Ingvar er nú kominn á Trek Madone SLR 9 götuhjól og Trek Top Fuel 9.9 fjallahjól.

Hins vegar er allskonar annar kostnaður sem fylgir líka „Það er engin leið að stunda þetta og að vera með sparnað í gangi,“ segir hann. „Ég set allt sem ég á í þetta.“ Ingvar segist hins vegar ekki sjá eftir þeirri ákvörðun. „Það er einstakt tækifæri að gera þetta á þennan hátt sem ég get gert. Þetta er ekki eitthvað sem ég sé eftir. Maður fær ekki svona tækifæri ef maður nýtir það ekki núna.“

Markmiðið að fara úr 293. sæti í ca 140. sæti

Við erum búin að fara yfir keppnirnar sem framundan eru í ár. En hvað með markmiðið? Ingvar er sem fyrr segir með 139 UCI stig og það kemur honum í sæti 293 á heimslista UCI, sem telur um 2000 atvinnumenn. Hann segist aftur stefna á Íslandsmeistaratitlana, en til viðbótar segist hann stefna á sigur í Glacier 360. Það veitir 80 UCI stig og með 20 stigunum sem hann hefur fengið það sem af er ári væri hann þá kominn upp í um 210 stig. Til viðbótar segist hann stefna á nokkur stig í öðrum erlendum keppnum og vera kominn um eða yfir 220 stig. Það ætti að skila honum upp í ca 160 sæti, eða stökk upp um tæplega 140 sæti. „Þá væri ég kominn á mjög góðan stað fyrir keppnirnar í september á heimsmeistaramótunum,“ segir Ingvar.

Í erlendum stórmótunum sem hann tekur þátt í í ár segir hann að stefnan sé að vera í efri helming keppenda og vera þar með yfir meðaltalinu. „Það er markmiðið fyrir öll stóru mótin í ár. Ef það tekst væri ég mjög sáttur,“ segir Ingvar, en tekur fram að það gæti alveg verið nokkuð óraunhæft.

Listi yfir stórmótin hjá Ingvari á árinu, en ekki eru talin með götuhjólakeppnir og fjallahjólakeppnir á Íslandi, t.d. bikarmót, Íslandsmót og önnur almenn mót:

  • 8-13.apríl – XCS UCI S1 – Andalucia Bike Race – XCS
  • 28.apríl – XCO UCI C2 – Shimano Liga #1 – XCO
  • 26.maí – UCI World Cup – Nove Mesto, Tékkland – XCO
  • 1.júní – Dirty Kanza 200, Kansas, USA – Gravel
  • 6.júlí – Evrópumeistaramót í maraþon XC – Kvam, Noregur – XCM
  • 14.júlí – UCI World Cup – Les Gets, Frakkland – XCO
  • 8.ágúst – Glacier 360 – Ísland – XCS
  • 18.ágúst – UCI C1 Race Days Kolding – Kolding, Danmörk – XCO
  • 25.ágúst – UCI C2 3Nations Cup – Zoetermeer, Holland – XCO
  • 1.september – Heimsmeistaramót í ólympísku XC – Mont Saint-Anne, Kanada – XCO
  • 7.september – Skaidi Xtreme – Skaidi, Noregur – XCM
  • 15.september – UCI C2 Shimanoliga – Aalborg, Danmörk – XCO
  • 22.september – Heimsmeistaramót í maraþon XC – Grachen, Sviss – XCM
  • 28.september – UCI S2 Catalunya Bike Race – Catalunya, Spánn – XCS

XCS = fjöldægra fjallahjólakeppni
XCO = ólympískar fjallahjólreiðar
XCM = maraþon fjallahjólreiðar

Previous Article
Next Article

One Reply to “„Ég set allt sem ég á í þetta“”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar