„Hefði sennilega staðið mig betur á árabát en hjóli“

Eftir fjögurra daga fjallahjólakeppni með miklum hækkunum og á tíma gríðarlega erfiðum aðstæðum út af veðri í baráttu við marga af sterkari maraþon fjallahjólreiðamönnum heims kom Ingvar Ómarsson í mark í 25 sæti í Belgian Mountainbike Challenge og nældi sér í 10 UCI stig. Keppnin sem segja má að sé erfiðasta fjallahjólakeppni Benelux landanna stóð sannarlega undir nafni í ár, en veðuraðstæður, sérstaklega á þriðja degi, gerðu það að verkum að fjöldinn allur af öflugum hjólurum hættu keppni. Hjólafréttir ræddu við Ingvar nú í vikunni um keppnina og plönin framundan í sumar, en seinni hluti viðtalsins verður birtur síðar í vikunni.

Ingvar, sem er eini atvinnumaður Íslands í hjólreiðum, segir að hann hafi í nokkur ár vitað af þessari keppni og langað að taka þátt síðustu tvö ár. „Ég er að prófa mig áfram í að taka ekki bara þátt í ólympískum keppnum sem eru dagskeppnir,“ segir hann. Þá segir hann að tímasetningin hafi verið góð, í raun sé um að ræða rosalega góða æfingu með miklum tíma á hjólinu, sem sé gott líka fyrir styttri keppnirnar sem hann muni taka þátt í á þessu ári.

262 km og yfir 8þ m hækkun

Mótið er sem fyrr segir fyrnasterkt og er meðal annars skráð í næst hæsta flokk UCI í fjöldaga fjallahjólkeppnum. Meðal keppenda var undrabarnið og líklega mesta efni hjólreiðanna í heild í dag, Hollendingurinn Mathieu van der Poel, en hann er í heimsklassa í cyclocross og fjallahjólreiðum (bæði ólympískum og maraþon) og fór nýlega líka yfir í götuhjólreiðar þar sem hann kom sterkur inn í vor og vann þrjár „classics“ keppnir á heimstúrnum (world tour) og lenti í fjórða sæti í Tour de Flanders.

Ingvar með Christian De Graaff sem einnig tók þátt í keppninni.

Samtals fara keppendur 262 km á dögunum fjórum með 8.100 m hækkun. Fyrsti dagurinn er hins vegar stuttur, aðeins 18km með 650 m hækkun, en það er TT dagur. Hinir dagarnir eru frá 62 upp í 95km með allt upp í 2950 m hækkun á einum degi. Lengsti dagurinn var hins vegar styttur eins og komið verður inn á.

Ofarlega á erfiðleikaskalanum

Ingvar segir að þessi keppni hafi lengi togað í hann, þó hún sé í raun ekki beint markmið í hans plönum. „En þetta er UCI keppni og rosalega stór pakki að fara í og taka þátt og ég tek þessari keppni því alvarlega,“ segir hann um undirbúninginn. Samtals ætlar Ingvar að taka þátt í 14 keppnum á erlendri grundu þetta árið, eins og farið verður betur yfir í síðari fréttinni,  og segir hann þetta mót vera í b-flokki varðandi mikilvægustu mótin, þar sem heimsmeistaramót, Evrópumót og heimsbikarmótin komi í a-flokk.

Keppnin þessa helgina var hins vegar ofarlega á erfiðleikaskalanum. „Þessi keppni er á topp þremur listanum. Veðuraðstæðurnar voru skelfilegar á þriðja keppnisdegi,“ segir hann og bætir við „Það voru fjórar og hálf klst í 2-3 gráðum og rigning allan daginn. Það rigndi svo rosalega nóttina áður að ég hefði sennilega staðið mig betur á árabát en hjóli,“ segir Ingvar.

40% brekka, úrhelli og skítakuldi

Ingvar hefur sjálfur gert keppninni ágæt skil í frásögn á Facebook-síðu sinni, en strax í upphitun fyrir fyrsta dag var hellirigning. Dagurinn gekk þó mjög vel og endaði hann í 17 sæti af 74 keppendum, en meðal annars var farið upp brekku sem var yfir 40%. Stuttur dagur, en mikið action og upphitun fyrir það sem koma skyldi.

Næsta dag var komið að rúmlega 80km dagleið og 2.200 m hækkun. Fínasta veður með mikilli keyrslu (490w normalized á fyrstu 5min) upp og niður brekkur allan daginn í tæplega 4klst. Ingvar segist hafa verið mjög sáttur með þennan dag og var áfram í 17. sæti eftir þennan dag númer tvö.

38% hættu keppni

Þriðji dagurinn var svo stærsti dagurinn. Hjóla átti 95km og 2.950m hækkun, en vegna veðuraðstæðna var keppnin stytt í 80km. Ástæðan sem gefin var upp var að á lokakafla keppninnar væri á sem almennt væri hægt að hjóla yfir eða reiða hjólið, en núna væri ekki mögulegt að vaða hana. Sköpuðust þessar aðstæður eftir hellirigningu alla nóttina. Hitastigið var einnig að gera lítið fyrir hjólara, en það var aðeins um 2-4°C, en til viðmiðunar er á heimasíðu keppninar sagt að búast megi við um 20°C á þessum árstíma.

Ingvar fór ágætlega af stað á þessum þriðja degi og var kominn í 11-15. sæti. Nokkrir af stóru nöfnunum duttu þarna úr leik vegna ofkælingar, en Ingvar var staðráðinn í að halda áfram. Hann sprengdi hins vegar eftir um 90 min og 35km á niðurleið eina brekkuna. Aðstæður gerðu það að verkum að slönguskipti tóku samtals 17 mín og „skaðinn skeður,“ eins og Ingvar orðar það. Hann endaði í 32. sæti á þessari dagleið og datt niður í 27. sæti í heildarkeppninni.

Þess má geta að 38% keppenda sem hófu leik kláruðu ekki keppnina, þar af flestir á þessum degi.

Góður endir á erfiðri keppni

Fjórði dagurinn endaði svo sem besti dagurinn eftir vonbrigði þriðja dagsins. 60km og 2.300 m hækkun. Var hann í öðrum hópi að gera góða hluti og endaði daginn á góðum endaspretti við fyrrverandi Bretlandsmeistara í maraþonfjallahjólreiðum sem Ingvar endaði með að sigra. Endaði hann daginn í 11. sæti og fór í 25. sæti í heildarkeppninni. Skilaði það honum sem fyrr segir 10 UCI stigum, en slík stig bæta stöðu hans á heimslistanum og gefa honum kost á að byrja framar í stærri mótum síðar í sumar.

Allt í allt segir Ingvar að keppnin hafi gengið nokkuð vel. Það hafi verið þriðja dagleiðin sem hafi reynst honum erfiðust með sprungnu dekki og veðuraðstæðum. Nefnir hann að enginn keppandi hafi mætt í verðlaunaafhendinguna þann daginn. „Það var bara ekkert líf í mönnum, ég hef aldrei upplifað annað eins. Það var frussað á okkur allan daginn og það ætlaði bara ekkert að hætta.“

MVDP alveg einstakur í hjólreiðum í dag

Van der Poel endaði uppi sem sigurvegari í keppninni í ár, en Ingvar segir að hún hafi í raun bara verið eins og upphitun fyrir hann fyrir heimsbikarmótin, en fyrsta slíka mótið er einmitt núna um helgina í Þýskalandi.

Margir hafa velt fyrir sér hvað MVDP muni gera á komandi misserum, en eins og fyrr segir er hann í heimsklassa í cyclocross og fjallahjólreiðum, en hellti sér einnig nýlega út í götuhjólreiðar með mjög góðum árangri. Í raun þýðir þetta að keppnistímabilið hans er orðið allt árið. Ingvar segir yfirlýsta stefnu hans vera að fara á ólympíuleikana á næsta ári í fjallahjólreiðar, en óljóst er hvað taki svo við. „Ef ég á að giska á planið, þá er það að vinna gull á ólympíuleikunum og svissa svo yfir í götuhjólreiðar. Hann getur það.“ Stærsta spurningin varðandi MVDP sé hvort hann muni láta „classics“ tímabilið í vor duga í götuhjólreiðunum, eða hvort hann komi þangað aftur þegar fjallahjólatímabilið klárast í haust.

Ingvar segir þetta í raun einsdæmi og að ekki sé hægt að bera hann saman við neinn annan í sportinu í dag. „Hann er bara einstakur.“

Hér að neðan má sjá brot úr keppninni 2017 og sjást aðstæður þar ágætlega.

Previous Article
Next Article

One Reply to “„Hefði sennilega staðið mig betur á árabát en hjóli“”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar