Ingvar í góðri stöðu eftir annan keppnisdag í Belgíu

Um þessar mundir fer fram Belgian Mountainbike Challenge, sem er fjögurra daga fjallahjólakeppni sem haldin er í suðurhluta Belgíu, ekki langt frá Lúxemborg og landamærunum yfir í Frakkland. Keppnin er því á svipuðum slóðum og Liege – Bastogne – Liege götuhjólakeppnin sem fór fram í apríl. Þátttakendur í keppninni eru gríðarlega sterkir fjallahjólarar en þar þarf Ingvar Ómarsson að etja kappi við fyrrum Evrópumeistara í U23 Cyclocross, Quinten Hermans frá Belgíu og Rússlandsmeistarann í fjallahjólreiðum Ivan Seledkov. Þekktasta nafnið er þó Mathieu Van Der Poel frá Hollandi sem hjólar fyrir Corendon – Circus og margfaldur meistari í flestum greinum keppnishjólreiða (ríkjandi heimsmeistari í CX). Hans þekktustu afrek komu þó líklega þetta vorið í götuhjólreiðum þar sem hann sigraði Dwars door Vlaanderen og Amstel Gold Race og sýndi einnig frábæra takta í Tour of Flanders.

Ingvar er nýkominn á Trek hjól og er það Trek Top Fuel 9.9.

Ingvar var ánægður með fyrstu tvær dagleiðirnar og var að slaka á fyrir komandi átök þegar Hjólafréttir heyrðu í honum. Þetta er í fyrsta sinn sem Ingvar tekur þátt í BeMC keppninni en hann haft augun á henni um nokkurt skeið. Keppnin þykir með erfiðari „stage raceum“ í fjallahjólreiðum. Ólíkt eins dags keppnum þarf Ingvar því að tryggja að hann eigi orku í fjórar erfiðar dagleiðir sem fara yfir ár, drullusvöð og brekkur sem margir keppendur þurfa að labba upp.

Van Der Poel

Van Der Poel fyrstur eftir tímatökuna

Keppnin hófst í gær á 18 km tímatöku þar sem keppenda beið krefjandi braut með blöndu af malbiki, möl, stígum og moldarstígum og 600m klifri á ekki lengri leið. Á leiðinni mátti m.a. finna brekku sem bauð upp á yfir 40% halla. Sigurvegari dagleiðarinnar var Van der Poel á tímanum 42:04 og næstur kom Hans Becking á 42:44. Ingvar sýndi glæsilega frammistöðu í tímatökunni og kom í mark á tímanum 46:52, í 17. Sæti. Til þess þurfti Ingvar að skila 387 wöttum í 46:52 mínútur og ljóst að hann er í feiknaformi.

Ingvar í 16. Sæti á öðrum keppnisdegi

Annar keppnisdagur (1. dagleið) bauð upp 80 km og 2300 m. hækkun og voru keppendur ræstir saman. Aðspurður hvernig hópnum hafi gengið að elta Van der Poel vísar Ingvar í strava fileinn sinn, þar sem sjá má um 6 mínútna kafla í upphafi þar sem Ingvar heldur 442w meðalwöttum (490w np) en fljótlega hafi þó slitnað upp úr hópnum.

Ég var með einfalt plan, að reyna mitt besta til að hanga í fremsta hóp, þar til hann myndi byrja að slitna upp, en þá væri best fyrir mig að vera það vel staðsettur að ég gæti frekar látið mig detta aftur í næsta hóp fyrir aftan, frekar en að vera of seinn að bregðast við og þurfa að loka bilinu í næsta hóp fyrir framan. Það var engin leið fyrir mig að hjóla á mínum hraða því fyrstu mínúturnar voru í hrikalega brattri brekku og allir alveg í botni. Fyrstu 5 mínúturnar voru hjólaðar á 490w Normalized. Svo kom að því að VDP fór í þyngri gír en allir aðrir áttu, og hjólaði bara í burtu, en þá slitnaði allt og ég komst í fínan hóp.

Van Der Poel sigraði dagleiðina á 3 klst og 29 mín og næstur á eftir honum var Hans Becking einungis 52 sek fyrir aftan. Ingvar átti þó mjög góðan dag, kom 16. í mark á 3 klst og 50 mínútum.

Erfiðar dagleiðir framundan

Heildarhækkunin í dag var um 2.300m yfir 80km leið.

Þegar þetta er skrifað hefur staðan í heildarkeppninni ekki verið birt ennþá. Ingvar er þó í góðri stöðu hafandi verið 17. í tímatöku og 16. á fyrstu dagleið. Framundan eru tvær erfiðar dagleiðir, 95 km og 2950 m klifur á morgun og svo 62 km og 2200 m klifur á sunnudag. Ólíkt götuhjólreiðum eru fjallahjólreiðar samfelld átök þar sem lítill ábati er af drafti eða skjóli í hóp. Orkunotkunin er því mikil en Ingvar áætlar að 5000 kalóríur hafi verið nýttar í dag og líklega 6000 á morgun. Markmiðið núna sé því að hvílast og næra sig. Ingvar er tilbúinn fyrir komandi átök og segir að honum hafi sjaldan tekist að hjóla af slíku afli og líða vel. Hjólafréttir benda áhugasömum á vef BeMC en þar má finna meira um keppnina, Live niðurstöður og tracking á keppendur.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar