Nóg að gera fyrir hjólafólk um helgina

Þrátt fyrir að ekkert sérstakt hjólamót sé í gangi um helgina er nóg um að vera fyrir hjólaáhugafólk. Hvort sem áhugi er fyrir því að byrja helgina snemma á laugardegi og taka langan túr, hjóla til styrktar góðu málefni eða bara slaka á í afmælispartíi og horfa á fyrstu dagleiðina í Giro d’Italia, þá er nóg á boðstólnum fyrir áhugasama um hjólreiðar.  Í þessum efnum er laugardagurinn sérstaklega pakkaður af áhugaverðum viðburðum og eiginlega nauðsynlegt að kíkja á einhvern þeirra. Þessu til viðbótar geta hjólarar svo gerst menningarlegir á mánudaginn og farið í listaverkahjólatúr.

Veðrið á suðvestur horninu ætti að vera hið fínasta báða dagana. Reyndar gæti orðið nokkuð kalt, eða bara rétt yfir frostmarki plús smá vindur, en ef fólk klæðir sig rétt er það ekkert sem stoppar venjulega hjólara og í raun bara tækifæri til að leggja inn í mental toughness bankann. Annars ætti sólin að skína sem hlýjar manni fljótt.

Byrjum á byrjuninni. Strax klukkan 9:00 á laugardagsmorgninum er Tindur með hjólaveislu í Hvalfirði. Hjólað verður frá félagsheimilinu Dreng í Kjós og skipt í tvo mishraða hópa. Liðsmenn Airport direct munu leiða hraðari hópinn 100km leið meðan hægari hópurinn fer að Hvalstöðinni, eða um 1,5 klst, áður en snúið er við. Í Kjós verður svo grill að loknu puðinu. Viðburðurinn á Facebook.

Það verða Airport direct menn sem munu leiða sneggri hópinn í Hvalfirðinumá laugardaginn.

Litlu seinna, eða klukkan 10:30 stendur Ion adventure hotel við Nesjavelli svo fyrir hjólatúr frá Norðlingaholti um Nesjavallaleið og að hótelinu. Er yfirskriftin „Kolefnisjöfnun með Ívari Guðmunds og Arnari Grant,“ en hótelið ætlar að styrkja við Skógræktarfélag Íslands með einu tré á hvern þátttakanda. Þá fá allir sem klára þrautina smjörhníf úr birki merkt skógræktarfélaginu. Allskonar tilboð og húllumhæ verður svo á Ion í lokin. Viðburðurinn á Facebook.

Þeir sem voru rólegir í bænum eða þeir sem ákveða að fara í annan hvorn af fyrrnefndu viðburðunum og bruna í bæinn geta svo náð 10 ára afmælisveislu hjólaverslunarinnar Kríu, sem flutti nýlega í Skeifuna.  Afmælið byrjar kl 15:00 og stendur í tvær klukkustundir. Þar getur fólk þegið veitingar og  verður leyst út með gjöfum. Viðburðurinn á Facebook.

Rúsínan í pylsuendanum er svo að fyrsta af þremur stórmótum ársins hjá World tour liðunum hefst á laugardaginn. Það er Ítalíukeppnin Giro d‘Italia, en í ár stefnir í svakalega keppni með miklu klifri og almennu sufferfesti. Fyrsta dagleiðin er þar engin undantekning,  því það verður ITT sem endar á nokkuð bröttu klifri. Leiðin sjálf er ekki löng, aðeins 8, kílómetrar, en síðustu 2,1 kílómetrarnir eru með 9,7% meðalhalla, þar sem brattasti kaflinn er 16%.  Kría ætlar að hafa viðburðinn í beinni, en fyrir þá sem heima sitja er best að græja sig fyrir framan Eurosport eða fá áskrift að Eurosport playernum. Fyrir áhugasama er sérstaklega mælt með Fantasy cycling á Velogames.

Comebackið hjá Chris Froome í Giro-inu er eitt það magnaðasta sem við höfum séð í hjólakeppnum hingað til. Hann mun ekki reyna að verja titilinn í ár, en það stefnir í svakalega keppni og leiðin verður í erfiðari kantinum.

Á sunnudaginn er svo reyndar keppni, bara ekki eintóm hjólakeppni, heldur Kópavogsþríþraut Breiðabliks. Bæði í boði að keppa í almennum flokki eða byrjendaflokki. Vegalengdir eru 400 m sund, 10,3 km hjól og 3,5 km hlaup. Í fjölskylduþrautinni eru vegalengdirnar 200 m sund, 5,2 km hjól og 1,4 km hlaup. Keppnin hefst klukkan 9 (gögn afhend frá 8). Nánari upplýsingar á vef Þríþrautasambandsins.

Að lokum er vert að minnast á skemmtilegan viðburð á mánudaginn, en þá munu Hjólafærni í samvinnu með Listasafni Reykjavíkur bjóða upp á hjólatúr með leiðsögn þar sem hjólað verður milli listaverka í Reykjavík. Er þetta fyrsti hjólatúrinn af nokkrum í sumar, en hjólað verður á mismunandi stöðum um borgina síðar meir. Á mánudaginn verður farið um Norðurströnd Reykjavíkur við Sæbraut. Stoppað verður við listaverk og staði og sagt frá því sem fyrir augu ber. Hjólatúrinn hefst við Hlemm og lýkur við Granda mathöll, en leiðsögnin er alveg að kostnaðarlausu. Nánari upplýsingar má finna hér.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar