Birkir og Ágústa bæði með tvennu í vikunni

Þriðja bikarmót ársins í götuhjólreiðum fór fram í Hvalfirði í gær þar sem hjólað var frá Hlöðum (rétt norðan við Ferstiklu) og svo suðurleiðina tæplega 24 km, milli Fossár og Hvammsvíkur, þar sem snúningspunktur var. Teknir voru tveir hringir og var bikarvegalengdin um 95 km samtals. Einnig var keppt í styttri vegalengdum, 48 km og 27km.

Fæðing keppninnar var ekki alveg sú einfaldasta, en upphaflega var hugmyndin að hjóla bara einn hring þar sem snúið yrði við með að fara inn í Eyrarfjallsveg og um nokkra km af malarkafla. Í vikunni fyrir keppni kom þó upp umræða um hvort slíkt væri skynsamlegt og í samræmi við reglur um bikarkeppnir í götuhjólaflokki. Tindur, sem sá um skipulag keppninnar, ákvað svo að breyta fyrirkomulaginu og var hugmyndin að fara frá Hlöðum að Tíðaskarði og til baka. Hins vegar var því breytt aftur og varð fyrirkomulagið sem lýst er hér í byrjun ofan á.

Það mætti eiginlega segja að það hafi verið gluggaveður í gær í Hvalfirðinum. Gríðarlega fallegt, en vindurinn bæði kældi og gerði hjólurum erfitt fyrir.

Talsverður vindur með leiðinlegum vindhviðum setti smá strik í reikninginn, en 136 hófu leika. Það verður hins vegar að segja að sú keppnisleið sem valin var er mjög skemmtileg og býður upp á mjög mikla möguleika og er vonandi að þetta mót festi sig í sessi sem árlegur viðburður. Bæði er mikið um styttri brekkur sem bjóða upp á endalausa möguleika á breiki og kallar á að keppendur séu alltaf á tánum og gefi allt í allan tímann. Þá er einnig um mjög áhorfendavæna vegalengd að ræða, þar sem vel staðsettir áhorfendur geta séð pelotonið fara fram hjá fjórum sinnum. Þá eru sjö tímatökusvæði fyrir 95 km vegalengdina + lokapunkturinn þannig að gaman er að fylgjast með á Tímatöku.net líka.

En að keppninni sjálfri. Í Elite flokki karla breikaði sjö manna hópur nokkuð snemma og var með tæplega hálfrar mínútu forskot strax í Botni (eftir um 13km). Þar voru meðal annars bæði Birkir Snær Ingvason og Óskar Ómarsson sem eru í Airport direct liðinu. Var þessi hópur saman á leiðinni til baka og svo út að Botni á öðrum hring. Fljótlega þar á eftir fór Birki Snær hins vegar í solo breik og var hann með um 20 sek forskot í snúningnum og bætti hann við á leiðinni til baka og var kominn í 40 sek í Botni á bakaleiðinni. Endaði hann með að koma einn í mark um 20 sek á undan næsta manni, en það var Óskar eftir endasprett við Stefán Orra Ragnarsson. Bjarni Garðar Nicolaisson kom svo fjórði, Kristófer Gunnlaugsson fimmti, Kristinn Jónsson sjötti og Eyjólfur Guðgeirsson sjöundi. Næstu tveir komu svo um ellefu mínútum á eftir fyrstu mönnum.

Það sem gerði solo breikið ekki síður öflugra voru fyrrnefndar veðuraðstæður, en vindurinn skall vel á keppenum. Hviðurnar gerðu það reyndar að verkum að erfitt gat verið að vera of nálægt næsta manni þar sem oft kom til þess að hjólin kipptust aðeins til. Átti þetta sérstaklega við á hröðum köflum niður brekkur. Hins vegar var ekki verið að gefa mikið í pelotoninu sem kom á eftir, sem líklegast skrifast á blöndu af stuðningi frá liðsfélagnum Óskari og klassískri störukeppni í hjólakeppnum þar sem enginn vill nota sína orku í að koma öðrum framar. Allavega komst Birkir einn til baka í fyrsta sæti.

Í elite flokki kvenna og masterflokki karla, sem ræsa á sama tíma, var farið af stað með ágætu trukki. Eins og hjá öðrum hafði vindurinn talsvert að segja og tognaði vel á hópnum upp brekkuna áður en hjólað er niður að Hvalstöð. Í botni voru þrjár konur og þrettán úr masterflokki karla í breiki. Á bakaleiðinni slitnuðu þrír úr mastersflokknum frá hópnum auk Bríetar Kristýar Gunnarsdóttur í Elite flokki kvenna, en hún missti keðjuna. Karen Axelsdóttir hætti þátttöku eftir fyrsta hring, en þá var hún í fremsta hóp, en Ágústa Edda Björnsdóttir, sem var þar einnig hélt áfram og var meðal fremstu manna. Kom hún fyrst í mark í kvennaflokki eftir endasprett við Orra Einarsson í masterflokki karla. Frá Botni og að endamarkinu höfðu fjórir slitið sig frá og komu þeir fyrstir í mark í mastersflokki karla. Þar var fyrstur Sæþór Ólafsson, annar var Bjarki Sigurjónsson, Bjarni Birgisson í þriðja og Atli Jakobsson í fjórða sæti.

Þetta er í annað skiptið á innan við viku sem bæði Ágústa og Birkir taka sigurinn í hjólakeppni. Þannig var Birkir fyrstur í Suðurstrandarveginum síðustu helgi og Ágústa tók sigur í Cervelo TT í Grindavík á þriðjudaginn. Þá var hún einnig í öðru sæti í Suðurstrandarveginum, þannig að vikan hefur verið gjöful fyrir þau bæði.

Í U17 kvenna var Bergdís Eva Sveinsdóttir fyrst, en önnur var Natalía Erla Cassata. Í U17 drengja var Matthías Schou-Matthíasson fyrstur eftir endasprett við Fannar Frey Atlason sem var annar aðeins sekúndu á eftir Matthíasi. Davíð Jónsson var svo þriðji. Inga Birna Benediktsdóttir var fyrst í junior-flokki kvenna og Jóhann Dagur Bjarnason fyrstur í junior-flokki karla. Í mastersflokki kvenna var Björg Hákonardsóttir fyrst með ágætt forskot á þær Örnu Ösp Herdísardóttur, sem varð í öðru sæti og Kristrúnu Lilju Daðadóttur sem var í þriðja sæti.Voru þær Arna og Kristrún á sama tíma, en Arna sjónarmun á undan.

Það er ljóst að Hvalfjörðurinn býður upp á mjög góðar götuhjólakeppnisaðstæður og gæti leið eins og valin var í gær gert keppnina talsvert áhorfendavænni en margar aðrar keppnir. Vonandi mun veðrið í ár ekki koma í veg fyrir að þessi keppni fái að blómstra og haldið verði áfram að þróa hana. Félagsheimilið að Hlöðum er einnig einstaklega skemmtilegur staður til að koma saman eftir keppnina og afhenda verðlaun og ekki skemmir að sundlaug og sturta sé í boði.

Framundan er nokkuð rólegt tímabil hjá götuhjólafólki, en næstu keppnir eru þó stórar kanónur. Þannig er Íslandsmótið í götuhjólreiðum í Skagafirði 23. júní og beint í kjölfarið hefst Cyclothonið. Helgina eftir (30. júní) er svo Íslandsmeistaramótið í tímatöku.

Björn Ármann fær rokkstig fyrir að mæta á stálhjóli með skiptum upp á gamla mátann á stönginni.

Fyrir þá sem vilja horfa aðeins út fyrir götuhjólaboxið er þó nóg í gangi. Næstu helgi fer fram Bláa lóns þrautin og samkvæmt póstum á keppnisspjalli hjólreiðafólks á Facebook hefur eftirspurn eftir miðum sjaldan verið meiri. Helgina eftir er svo bæði Rangárþing ultra og annað bikarmót ársins í downhill sem fram fer í Vífilstaðahlíð.

Sveinbjörn J. Tryggvason fær þakkir fyrir myndirnar.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar