TT tímabilið hafið – Hákon og Ágústa byrja með sigri
Það er stutt á milli stórra viðburða nú þegar vorið er komið og aðeins þremur dögum eftir fyrsta götuhjólamótið var komið að fyrsta móti ársins í tímatöku, sem jafnframt var fyrsta bikarmót ársins. Hákon Hrafn Sigurðsson kom sá og sigraði í úrvalsflokki karla, en Ágústa Edda Björnsdóttir sigraði í úrvalsflokki kvenna. Mótið var haldið á Vatnsleysustrandarvegi við fyrirtaksaðstæður, hægur vindur, örlítil sól á köflum og 5-8°C.
Hjólað var frá Vogum og eftir Vatnsleysustrandarvegi að hringtorginu við Reykjanesbrautina (vestan megin á Vatnsleysuströnd) þar sem snúið var við og haldið til baka. Samtals var vegalengdin 22 kílómetrar og ræst var með mínútu millibili.
Í kvennaflokki fór Ágústa vel af stað og var við snúninginn 51 sekúndu á undan Rannveigu Önnu Guicharnaud sem kom næst á eftir henni. Hörð keppni hefur verið á milli þeirra síðustu ár og var Rannveig t.d. Íslandsmeistari í fyrra en Ágústa árið þar á undan. Ágústa bætti jafnt og þétt við forskotið og þegar upp var staðið var hún 1:36 á undan Rannveigu á tímanum 31:37. Margrét Pálsdóttir kom svo þriðja 2:35 á eftir Ágústu.
Í karlaflokki var Hákon Hrafn sem fyrr segir fyrstur og munaði 10 sekúndum á honum og Rúnari Erni Ágústssyni. Eins og í kvennaflokki hefur verið talsvert hörð barátta milli tveggja efstu og var Rúnar til að mynda Íslandsmeistari í fyrra, en Hákon árið áður. Þá náði Hákon ekki fullu tímabili í fyrra vegna meiðsla, en kom inn á seinni hluta sumarsins.
Í snúningnum var Hákon kominn með 7 sekúndna forystu á Rúnar og bætti svo þremur sekúndum við á bakaleiðinni, en á fyrri hluta bakaleiðarinnar var nokkur meðvindur í bakið. Eyjólfur Guðgeirsson kom í mark í þriðja sæti, en hann var 17 sekúndum á eftir Hákoni, en hann hafði verið 11 sekúndum á eftir honum í snúningnum.
Natalía Erla Cassata var fyrst í U17 flokki kvenna og Bergdís Eva Sveinsdóttir í öðru. Eyþór Eiríksson var fyrstur í junior flokki karla og Inga Birna Benediksdóttir fyrst í junior flokki kvenna.
Í meistaraflokk karla (master) var Guðlaugur Egilsson fyrstur á tímanum 34:01, 19 sekúndum á undan Guðmundi Þorleifssyni og 1:45 á undan Jóni Inga Sveinbjörnssyni. Í meistaraflokki kvenna var Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir hlutskörpust á 38:09, en önnur var Elsa María Davíðsdóttir 3:35 á eftir Kolbrúnu og þriðja var Guðrún Björk Geirsdóttir, 4:45 á eftir Kolbrúnu.
Keppnin núna var haldin af Breiðabliki, en venjan hefur verið að félagið heldur fyrsta mót ársins á Krýsuvíkurvegi. Hins vegar þóttu aðstæður þar ekki boðlegar fyrir mót sem þetta, enda er farið að sjá gríðarlega á veginum eftir mikla umferð þar undanfarin ár, bæði mikinn fjölda vörubíla sem og annarra ökutækja. Þrátt fyrir að leiðin núna hafi verið frábær og skemmtileg nýbreytni væri óskandi að yfirvöld myndu bæta úr Krýsuvíkurveginum, sem löngum hefur verið einn besti staðurinn til æfinga fyrir keppnisfólk í hjólreiðum. Sérstaklega væri gaman að sjá þetta nú samhliða því sem fara á í að malbika malarkaflann efst á veginum.
Næsta tímatökukeppni fer fram 28. maí, þremur dögum eftir Suðurstrandarmótið í götuhjólreiðum og verður hún haldin af Grindavík. Farið verður frá Golfvelli Grindavíkur að Reykjanesvita og til baka. Verður brautin lokuð annarri umferð.
One Reply to “TT tímabilið hafið – Hákon og Ágústa byrja með sigri”