Ingvar og Björk tóku gullið í Reykjanesmótinu

Sumarið er komið. Allavega fyrir okkur götuhjólafólkið sem fengum frábæra keppni í dag með Reykjanesmóti 3N og GÁP. Keppnin bauð upp á skemmtilega baráttu og fengum við endaspretti í öllum meginflokkunum, ef frá er talinn elite-flokkur karla, en þar var þó spenna þangað til tæplega 10 kílómetrar voru eftir.

Það er kannski ágætt að byrja á að hrósa 3N, Svani og öllum öðrum sem koma að skipulagi keppninnar, fyrir stórskemmtilegt sem hefur nú verið fastur liður í byrjun götuhjólatímabilsins undanfarin ár. Þó að tímasetningin hafi oft á tíðum orsakað erfiða samningaviðræður við veðurguðina þá kemur það ekki að sök og 3N-menn og –konur skella upp mótinu ár eftir ár. Samningaviðræðurnar tókust líka einstaklega vel í ár og fengu keppendur að upplifa hið fágæta, en jafnframt góða Suðurnesjasólskin og veðurblíðu. Þá má geta þess að mótsstjóri staðfesti við Hjólafréttir að engin slys af neinu viti hefðu komið upp og ber að fagna því.

Í ár hefur verið gerð breyting á götuhjólamótunum (allavega bikarmótunum) og er nú kominn sérstakur mastersflokkur. Hjá körlunum var farin sama vegalengd og í elite-flokki kvenna og karla (106km), en í mastersflokki kvenna voru farnir 63km. Hugmyndin er að ýta þeim sem hafa keppt í almenningskeppnum og oft farið styttri vegalengdir en elite-flokkarnir yfir í að fara lengri vegalengdina. Með þessu fyrirkomulagi ættu fleiri af svipuðu getustigi því að geta farið lengri leiðina, án þess að eiga hættu og á að vera skilinn eftir í reyknum af þeim bestu í elite-flokknum og þurfa að hjóla einn meirihluta leiðarinnar.

Ég held að segja megi fullum hálsi að þetta hafi komið ótrúlega vel út í Reykjanesmótinu. Í heild skráðu sig 58 í mastersflokk karla og 6 í mastersflokk kvenna. Elite-flokkur karla ræsti fyrstur (45 skráðir) og þar á eftir elite-flokkur kvenna ásamt öðrum sem fóru 106km leiðina (mastersflokkur karla og junior flokkur karla).

Í elite-flokki karla varð fljótlega brake frá þremur hjólurum og héldu þeir þeirri stöðu vel rúmlega hálfa keppni. Hópurinn þar á eftir taldi um 30 hjólarar við Reykjanesvirkjun eftir um 32km. Þegar komið var upp Festarfjall hafði aðeins dregið í sundur. Stóri hópurinn var þá kominn niður í 12 hjólara, en Ingvar hafði reyndar gert árás og var með smá forskot. Hann hélt því niður brekkuna og aðeins lengur, en fljótlega náði hópurinn saman aftur og héldust þessir 12 saman í hóp og eltu uppi brake-ið. Þegar tæplega 10km voru eftir gerði Kristinn Jónsson árás og elti Ingvar hann án þess að neinn fylgdi. Hélt Ingvar lengur út og kom hann svo í mark 42 sekúndum á undan næstu mönnum, þeim Óskari Ómarssyni og Eyjólfi Guðgeirssyni, báðum í Tindi.

Ingvar Ómarsson kom fyrstur í mark í Elite-flokki karla.

Það verður forvitnilegt að sjá í komandi mótum hvort sama verði upp á teningnum og Ingvar hafi svona yfirburði í sumar, eða hvort pelotonið geti keyrt í gang samvinnu til að vinna Ingvar uppi þegar gerðar eru árásir. Þá verður einnig áhugavert að sjá stöðuna á Hafsteini Ægi Geirssyni, sem undanfarin ár hefur verið einn helsti keppinautur Ingvars. Hann elti Ingvar ekki í seinna brakeið og hvort það sé dagsformið eða nýtilkomin samvinna þeirra, eftir að þeir urðu báðir að Team Trek-liðum, verður fróðlegt að sjá. Ingvar skipti sem frægt er orðið frá Kríu (Specialized) yfir til Arnarins (Trek) fyrr á þessu ári.

Keppendur í elite-flokki karla.

Í elite-flokki kvenna (15 skráðar) þurfti þriggja kvenna endasprett til að skera úr um það hver færi með sigur af hólmi. Sem fyrr segir höfðu þær ræst samhliða mastersflokki karla og junior karla. Við Reykjanesvirkjun voru fimm þeirra í fyrsta hópi þessarar ræsingar, ásamt um 20 manns úr mastersflokki karla. Þegar kom að Ísólfsskálabrekkunni gerðu nokkrir úr mastersflokki karla árás sem þó var skammlíf. Aðrir hjólarar og fjórar af konunum skutust fram úr þeim. Ágústa Edda Björnsdóttir, núverandi Íslandsmeistari í götuhjólreiðum gerði gagnárás í brekkunni og kom fyrst upp ásmt Björk Kristjánsdóttur.Karen Axelsdóttir kom svo þriðja upp ásamt nokkrum úr mastersflokknum.

Á leiðinni niður gaf Ágústa allt í botn og kom fyrst niður með smá forskot. Hópurinn þjappaðist hins vegar saman og voru sjö karlar og þrjár konur sem komu inn í endasprett. Þar Björk fyrst í mark af konunum, en Ágústa Edda var sekúndu á eftir og Karen tveimur sekúndum. Það er ljóst að Björk kemur gríðarlega öflug aftur til leiks eftir barneignarleyfi og verður fróðlegt að fylgjast með henni í sumar.

Keppendur í mastersflokki karla og elite-flokki kvenna snúa við á snúningskeilu á toppi Festarfjalls.

Í masterflokki karla kom Orri Einarsson fyrstur á sama skráða tíma og Björk. Guðgeir Sturluson var annar og Guðmundur B. Friðriksson í þriðja sæti, báðir sekúndu á eftir Orra.

Í mastersflokki kvenna var Kristrún Lilja Daðadóttir í fyrsta sæti, sex sekúndum á undan Elsu Maríu Davíðsdóttur og átta sekúndum á undan Brynju Birgisdóttir.

Jóhann Dagur Bjarnason var fyrstur í junior flokki karla og Inga Birna Benediktsdóttir í junior flokki kvenna.

Þar sem undirritaður tók sjálfur þátt í 106km keppninni náði ég ekki að fylgjast með því sem var í gangi í 63km (69 skráðir) og 32 km (56 skráðir) keppnunum. Þar var þó ekki minni spenna, en í 63km kom 17 manna hópur í mark á aðeins 16 sekúndum. Bjarki Sigurjónsson var hlutskarpastur karla, en þar á eftir kom Elli Cassata þremur sekúndum síðar og Ólafur Friðrik Sigvaldason fjórum sekúndum síðar. Fyrst kvenna í þessari vegalengd var Margrét Pálsdóttir með nokkrum yfirburðum. Næstar komu þær Tanja Rut Ásgeirsdóttir og Ólöf Pétursdóttir.

Í 32km vegalendinni voru þeir Gunnlaugur Sigurðsson og Jón Arnar Sigurjónsson fremstir og komu inn í lokasprett. Fór svo að Gunnlaugur kom sekúndu á undan Jóni, en Daníel Fannar Guðbjartsson kom þriðji. Guðlaug Sveinsdóttir var fyrst kvenna í þessari vegalengd og jafnframt fimmta í heildarkeppninni. Hrönn Jónsdóttir var önnur og Þuríður Árnadóttir í þriðja.

Hjólafréttir þakka Bjarna Má Svavarssyni fyrir myndirnar.

Að lokum eru hérna nokkrar verðlaunamyndir.

Leiðin sem farin er í 106km vegalengdinni. Frá Sandgerði, framhjá Reykjanesvirkjun, í gegnum Grindavík og upp Festarfjall þar sem snúið er við og farin sama leið til baka.
Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar