Rannveig og Rúnar Íslandsmeistarar

Breiðablik tók tvöfaldan sigur á Íslandsmótinu í tímaþraut sem haldið var við Kleifarvatn í dag, en það voru þau Rúnar Örn Ágústsson og Rannveig Anna Guicharnaud sem lönduðu sigri.

Veðrið lék við keppendur á þessum besta sumardegi ársins sunnan heiða og nutu þeir þess að veginum var lokað í stutta stund meðan á keppni stóð og var öryggi því í fyrirrúmi. Keppt var bæði í Íslandsmóti og í almenningsmóti á götuhjólum.

Í karlaflokki sigraði sem fyrr segir Rúnar Örn á tímanum 25:28, en í öðru sæti var Ingvar Ómarsson, einnig úr Breiðabliki, á tímanum 25:43. Hafsteinn Ægri Geirsson úr HFR var í þriðja sæti á 26:19 og Hákon Hrafn Sigurðsson úr Breiðabliki, sem var Íslandsmeistari árið áður, endaði í fjórða sæti á 26:49.

Rúnar hefur haft yfirburði í karlaflokki það sem af er árinu og sigrað fyrstu tvö bikarmót ársins sem og Íslandsmótið núna. Var hann í öðru sæti í Íslandsmótinu í fyrra og kemur því sterkari til leiks í ár.

20180620_210237
f.v. Ingvar Ómarsson, Breiðablik, Rúnar Örn Ágústsson, Breiðablik og Hafsteinn Ægri Geirsson úr HFR

Rannveig kom fyrst í mark í kvennaflokki á tímanum 30:54. Önnur var Ágústa Edda Björnsdóttir úr Tindi á 31:00. Hún hafði unnið fyrstu tvö bikarmót ársins, en Rannveig náði að skjótast sex sekúndum fram úr henni í dag. Margrét Pálsdóttir úr Breiðabliki var í þriðja sæti á 33:00.

20180620_210354
F.v. Margrét Pálsdóttir, Breiðabliki, Rannveig Anna, Breiðabliki og Ágústa Edda Björnsdóttir úr Tindi,

Í flokki karla yngri en 23 ára á Íslandsmótinu var Gústaf Darrason úr Tindi í fyrsta sæti á tímanum 29:04 og Guðni Freyr Arnarsson úr HFR í öðru sæti á 31:09. Í kvennaflokki U23 var Kristín Edda Sveinsdóttir úr HFR fyrst á 32:33.

Í U18 flokki karla var Kristinn Jónsson úr HFR í fyrsta sæti á 28:42 og Sæmundur Guðmundsson úr HFR í öðru á 29:41. Í U17 var Matthías Schou Matthíasson úr HFR fyrstur á 35:40 og Jóhann Dagur Bjarnason úr UMFG annar á 37:51. Í U17 flokki kvenna var Natalía Erla Cassata úr HFR fyrst á tímanum 38:25 og Inga Birna Benediktsdóttir úr HFR önnur á 39:16.

Í U15 flokki karla var Fannar Freyr Atlason úr Tindi fyrstur á 35:51 og Davíð Jónsson úr HFR annar á 38:16. Í U15 flokki kvenna var Lilja Eiríksdóttir úr HFR fyrst á 44:16.

Í almenningsflokki karla kom Haraldur Sigurðsson úr Víkingi fyrstur í mark á 33:07, en Róbert Farestveit úr Breiðabliki var annar á 33:29. Gunnlaugur Þráinsson úr víkingi kom þriðji á 33:40.

Bríet Kristý Gunnarsdóttir úr Tindi kom fyrst í mark í flokki kvenna á 35:38, en til gamans má geta að tími hennar er í raun um einni mínútu betri þar sem hún byrjaði ekki á réttum tíma. Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir úr Breiðabliki var önnur á tímanum 36:45 og Guðrún Björk Geirsdóttir úr Ægi var þriðja á 38:44.

Brautin var sérstök fyrir þær sakir að ekki var um flata eða aflíðandi braut að ræða, heldur er nokkuð um stuttar brattar brekkur á leiðinni. Farið var frá hverasvæðinu við Seltún, meðfram Kleifarvatni til norðurs og yfir þrjá höfða sem þar skaga út í vatnið og að malarkaflanum við enda vatnsins. Þar var snúið við á keilu og sama leið farin til baka, samtals um 19 km.

Það var því ekki aðeins heildarwött og loftmótsstaða sem skipti öllu máli í dag, heldur gátu wött/kg skipt nokkru máli. Ingvar Ómarsson, sem lengi hefur verið meðal sterkustu manna í bæði götuhjólreiðum og fjallahjólreiðum hér á landi, en ekki jafn mikið í tímaþraut, var t.d. fyrir mótið talinn eiga meiri möguleika í þessari keppni en oft áður þegar heildarwöttin skipta mestu máli. Endaði hann enda í öðru sæti og náði meðal annars fyrrum Íslandsmeistara í mestu brekkunum. Þess skal þó getið að Hákon Hrafn hefur verið að koma úr meiðslum sem geta hafa sett strik í reikninginn.

Allt í allt, flottur dagur og flott Íslandsmót og óska Hjólafréttir sigurvegurunum öllum til hamingju.

Previous Article
Next Article

One Reply to “Rannveig og Rúnar Íslandsmeistarar”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar