Skoðar keppinauta vel á Strava fyrir cyclothonið

Verkfræðistofan Verkís hefur undanfarin fimm ár tekið þátt í WOW cyclothon og er árið í ár engin undantekning. Ragnar Haraldsson er liðstjóri og kunnur öllum hnútum þegar kemur að því að skipuleggja verkefni eins og þetta. Hann ræddi við Hjólafréttir um markmið liðsins í ár, nýjan fyrirtækjaflokk, samkeppnina og hvernig keppnin virkar sem hópefli innan fyrirtækisins.

Síðustu fjögur ár hefur Verkís sent tvö lið til keppni og í fyrra var lið frá þeim meðal annars fyrst í flokki blandaðra liða (5 konur og 5 karlar). Í ár hafi hins vegar undirbúningur fyrir keppnina hafist nokkuð síðar en venjulega vegna óvissunnar með WOW og hvort keppnin yrði haldin. Þegar það var ljóst hafi ekki jafn margir og áður gefið kost á sér, en engu að síður hafi vel gengið að manna eitt lið. Flestir hafa farið hringinn áður, en tveir nýir koma inn í hópinn að sögn Ragnars.

Segir hann jafnframt að í ár hafi menn ákveðið að tóna aðeins niður væntingarnar miðað við sigurinn í fyrra, en það helgast meðal annars af breyttum mannskap. Þannig sé liðið í raun án tveggja Íslandsmeistara í ár. Þannig hafi Rannveig Anna Guicharnaud verið með liðinu í fyrra, en hún er núverandi Íslandsmeistari í tímatöku og þá hafi Hrafkell Már Stefánsson orðið Íslandsmeistari í mastersflokki karla 30-39 ára í Skagafirði um síðustu helgi. Rannveig hefur síðan skipt um vinnustað, en Hrafnkell einbeitir sér að öðrum hjólakeppnum ársins.

Ragnar segir að enginn afsláttur sé hins vegar gefinn fyrir nýja liðsfélaga og þannig hafi þeir tveir sem komi nýir til leiks verið sendir í þjálfun hjá Kareni Axelsdóttur í Sólum, meðal annars með það fyrir augum að læra öryggisatriði og að fá öryggi að hjóla í pelotoni, auk þess að bæta hjólaformið.

Þrátt fyrir breytta samsetningu liðsins segir Ragnar að liðið sé enn með nokkur markmið. Fyrst og fremst ætli liðið að vera fyrst  verkfræðistofa og þá sé markmiðið líka að vera á undan liðum stórra viðskiptavina stofunnar og á hann þar við orkufyrirtæki eins og HS Orku og Landsvirkjun. „Það peppar fólk vel upp að setja upp slík markmið“ segir hann.

Í ár var kynntur til sögunnar nýr fyrirtækjaflokkur, en það er flokkur liða sem eru skipuð að fullu af starfsmönnum eins fyrirtækis. Eins og stendur eru 17 slík lið skráð til þátttöku í 10 manna keppninni. Ragnar segir að hann hafi undanfarin ár talað fyrir því að slíkur undirflokkur yrði stofnaður, enda séu fyrirtækjalið oft stór hluti keppnisliða, en þau séu ólíklega að keppa til sigurs við lið sem séu sett saman í kringum bestu hjólreiðamenn landsins. Ragnar segir annað markmið liðsins að vera fyrir ofan miðju í fyrirtækjaflokknum.

Að lokum ætli þau sér að vinna áheitasöfnunina, en í ár safna kepp­end­ur áheit­um til styrkt­ar sum­ar­búðunum í Reykja­dal fyr­ir börn og ungenni með lík­am­leg­ar og and­leg­ar fatlan­ir og er áætlað að styrk­ur­inn verði mik­il lyfti­stöng fyr­ir upp­bygg­ingu í Reykja­dal.

Til að ýta undir þá söfnun settu liðsmenn liðsins fram loforð á Facebook fyrr í dag. Ætlar einn keppendanna að hjóla í gegnum Akureyri í gimpabúning ef liðið verður búið að safna 200 þúsund krónum fyrir þann tíma. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem liðið fer álíka leið, því áður hefur liðið meðal annars hjólað í gegnum Egilsstaði í ballerínupilsum þegar áheitamarkmið gekk upp. Segir Ragnar að það þurfi alltaf einhverja gulrót fyrir þá sem heita á og þá sé ekki úr vegi að gera þetta skemmtilegt í leiðinni. Segir hann loforðið í ár litast af þátttöku Íslands í Eurovision og sé smá Hatara-þema í gangi.

Munið þið eftir gimpinu í búrinu hjá Verkís? Ef lið Verkís verður búið að safna 200 þúsund krónum í áheit fyrir…

Posted by Wow Cyclothon – Verkís on Miðvikudagur, 26. júní 2019

Eins og venjulega eru fyrstu kaflarnir meðal þeirra mikilvægustu í keppninni og getur skipt öllu máli hvar lið standa þegar komið er í Hvalfjörð upp á hvar lið enda í lokin. Venjulega gefa öll lið allt í fyrstu kaflana og segir Ragnar það ekkert öðruvísi hjá Verkís. Hefur liðinu verið getuskipt upp í tvö fimm manna teymi (ás, tvistur…fimma).

Fyrsta holl þarf að hjóla upp á Mosfellsheiði þar sem fyrsta skipting má eiga sér stað við Kjósaskarðsveg. Ragnar segir að þau muni þar senda bæði ás og þrist þar sem um langa vegalengd sé að ræða og til að vera með backup ef eitthvað kemur upp. Þar uppi taki svo við tvistur og þristur sem fari á malarhjólum niður Kjósaskarðið, en vegurinn er ekki að fullu malbikaður.

Aðrir fjórir keppendur liðsins fara svo með aukabílnum inn afleggjarann við Meðalfellsvatn og hjóla þaðan inn Hvalfjörðinn og koma sér fyrir á sínum skiptistöðvum. Í framhaldi af því, eftir Hvalfjörðinn verður svo rúllað á hefðbundnum skiptingum.

Veðrið mun líklega spila stóra rullu í ár, en bæði er spáð rigningu sem og talsverðum meðvindi norðurleiðina, en mótvindi á Suðurlandi. Ragnar segir að vegna þessa hafi skiptingar hollana verið stytt þannig að líklegra sé að meiri kraftur verði í liðsmönnum þegar komið er á Suðurlandið. Þá segir hann að nú hlægi sá best sem síðast hlær, en liðið hafði fjárfest í regnjökkum og skóhlífum fyrir keppnina í ár. Framan af sumri leit ekki mikið út fyrir að þörf væri á slíkum búnaði, en Ragnar segir að nú líti út fyrir að þetta hafi verið góð hugmynd.

Spurður út í samkeppnina og hvernig hann greini hana fyrir keppni segir Ragnar að hann sé þegar búinn að fara yfir liðsmenn þeirra liða sem hann óttist mest í samkeppninni. „Ég er búinn að fara yfir úrslit úr keppnum ársins og skoða liðsmenn þeirra á Strava,“ segir Ragnar. Spurður út í líklegasta liðið til árangurs í fyrirtækjakeppninni segir hann að lið Samhentra komi þar sterkir inn, en það er annað fyrirtækjalið sem hefur mörg undanfarin ár tekið þátt og oft verið í kringum topp 10 í heildarkeppni 10 manna liða.

Hjá Verkís segir Ragnar að horft sé á þátttöku í cyclothoninu sem hópefli og styrkir fyrirtækið liðið til þátttöku. Segir hann fyrirtækið hafa verið ótrúlega rausnarlegt, en fyrir nokkrum árum var hannaður liðsbúningur sem keppendur séu ávallt græjaðir upp í. Þá hafi í eitt skipti jafnvel verið skellt í sérmerkta aero-hjálma. Segir hann fyrirtækið bera stærstan hluta kostnaðarins og að slíkt hafi gert rosalega mikið fyrir liðið undanfarin ár.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar