Staðan á cyclothoninu og spáin fyrir árið í ár

Fjöldi keppenda í WOW cyclothon í ár er 609 samkvæmt skráningu á heimasíðu keppninnar. Er það talsvert færra en í fyrra þegar um 1.000 keppendur tóku þátt og um 1.200 keppendur árið áður. Þá er líka talsvert lítið um súperlið, en fyrirtækjaliðin eru áfram grunnstoðin í þátttakendafjöldanum. Í ár verður í síðasta skiptið haldið WOW cyclothon, en fyrir næsta ár verður nýr styrktaraðili kynntur eftir fall WOW fyrr á árinu. Hjólafréttir taka stöðuna á keppninni í ár, líklegum sigurvegurum og framtíðarmálum.

Keppnin er nú haldin í áttunda skiptið, en það voru þeir Skúli Mogensen, kenndur við WOW air og Magnús Ragnarsson, sem nú er framkvæmdastjóri hjá Símanum, sem settu keppnina af stað. Hún varð fljótt mjög vinsæl og komu þátttakendur úr öllum áttum. Þannig er og var vinsælt hjá fyrirtækjum að skella saman innanhússliði sem einskonar hópefli. Slíkt hefur alla tíð lukkast vel og hefur þessi hluti verið stór þáttur í vinsældum cyclothonsins og örugglega ekki síður í uppgangi hjólreiða hér á landi, bæði sem keppnisíþrótt og sem samgöngum.

Þá hafa einnig verið sett saman ýmiss afrekslið sem eru oftar en ekki með styrktaraðila á bak við sig. Þetta hafa verið lið tengd hjólreiðafélögum, hjólreiðabúðum eða beint fyrirtækjum. Þessi lið hafa oftast verið þau lið sem keppa um sigurinn í cyclothoninu ár hvert.

Einnig hafa vinahópar, æfingahópar eða jafnvel samtíningslið verið nokkuð algeng í keppninni í gegnum árin. Að lokum ber að nefna erlenda keppendur, en ef frá er talið lið Zwift, sem fékk góða aðstoð við skipulag frá CCP, þá hafa erlendu liðin sjaldnast raðað sér í efstu sætin.

Þegar liðin í keppninni í ár eru skoðuð kemur í ljós að færri afrekslið eru skráð til leiks. Oft hafa verið skráð 3-6 lið sem stefna að því að keppa um efstu sætin, oft efstu 2-4 liðin í einu holli og svo næstu 2-4 lið í holli tvö. Óneitanlega hefur gjaldþrot stærsta styrktaraðilans, Wow air, hefur sett strik í reikninginn í ár með skráningu þetta árið. Umtalið í kringum cyclothonið hefur oft verið meira.

Magnús, sem er nú einn eigandi keppninnar, hefur sagt við fjölmiðla að hann muni áfram halda með keppnina og að nýr styrktaraðili komi til liðs við hana á næsta ári. Ljóst er að of skammur tími var til að fá nýjan styrktaraðila í ár, bæði hvað varðar merkingar og kynningu á keppninni og var því farin sú leið að notast áfram við WOW merkið þrátt fyrir að fyrirtækið sé ekki lengur til. Verður nýr styrktaraðili líklega kynntur fljótlega eftir að keppni lýkur í ár.Undirbúningur fyrir cyclothonið er gríðarlega langt ferðalag, hvort sem það er skipulag í kringum bíla og kerrur eða þjálfun keppenda. Því má telja líklegt að óvissan hafi haft áhrif á skráningar enda þarf að hefja skipulag fyrir keppnina með miklum fyrirvara.

Hjólafréttir telja að erfitt geti reynst að skáka firnasterku liði Airport direct og þeir kunni að standa uppi sem sigurvegarar þetta árið.Þar er meðal annars að finna þá Birki Snæ Ingvason, nýlegan Íslandsmeistara í götuhjólreiðum, Kristófer Gunnlaugsson, Thomas Skov Jensen og Hörð Ragnarsson auk fjölda annarra hjólara sem eru mjög sterkir. 

Þeirra helsti keppinautur verður líklega lið World Class sem keppir í blönduðum flokki, en þar er meðal annars um borð Ingvar Ómarsson, fyrrverandi Íslandsmeistari í götuhjólreiðum. Auk hans eru þar Eyjólfur Guðgeirsson, Bríet Kristý Gunnarsdóttir, Halla Jónsdóttir, Daði Hendricusson o.fl. Vel er skipað í allar stöður í liðsins sem er líklegast til sigurs í flokki blandaðra liða. Stóra spurningin er hvort liðið geti skákað Airport Direct í heildarkeppninni. Munu liðin reyna að vera samferða leiðina eða slitnar upp úr í byrjun ?

Mesta spennan í ár verður þó líklegast um hvaða lið endar í þriðja sæti. Fjölmörg fyrirtækjalið og hálf-fyrirtækjalið koma þar til greina. Til að nefna nokkur sem hafa verið sterk undanfarin ár er t.d. rétt að horfa til Samvarar, Securitas, Samskipa og Jáverks.

Í 4 manna keppninni koma lið deCode sterk inn, en undanfarin ár hefur deCode sent tvö lið til keppni í 10 manna keppninni. Hefur sterkara liðið nú verið skipt upp í tvö fjögurra manna lið. Þarna eru sterkir hjólarar um borð eins og Arnaldur Gylfason, Viðar Bragi Þorsteinsson og Ólafur Þór Magnússon svo einhverjir séu taldir upp. Þó skal aldrei afskrifa erlendu liðin, en eins og segir að ofan hafa þau sjaldnast gert miklar rósir.   

Solo keppnin fór af stað með miklum látum í gær, en þar eru þrjú skráð til leiks. Eiríkur Ingi Jóhannsson, tvöfaldur meistari í þessum flokki og handhafi besta tímans frá upphafi í einstaklingsflokki, er aftur mættur til leiks. Á móti honum eru þau Terri Huebler og Chris Burkard. Chris fór af stað af svaka krafti og var kominn að Mývatni á hádegi í dag. Jafngildir það 30 km/klst meðalhraða sem er svakalegt fyrir einstaklingskeppnina. Enn á þó eftir að koma í ljós hvað gerist þegar mótvindurinn á Suðurlandi kemur inn og þegar kemur að hvíld manna. Eiríkur hefur löngum verið þekktur fyrir að hafa gríðarlegt úthald þegar kemur að því að hvílast lítið, en bilið milli hans og Chris er þó þegar orðið talsvert.

Að lokum, hvernig er staða cyclothonsins núna þegar horft er til framtíðar? Ljóst er að aðeins 60% þátttaka er miðað við síðasta ár og helmingsþátttaka miðað við árið 2017. Í fyrra hafði EM í knattspyrnu einhver áhrif á þátttökuna og ljóst er að staða WOW air í ár hafði mikil áhrif. Við hjá Hjólafréttum teljum að ef nýr styrktaraðili muni keyra keppnina af stað á komandi ári með tilheyrandi auglýsingum sé alls ekki ólíklegt að keppnin muni stækka í fyrri stærð fljótt á ný og jafnvel umfram það sem hún var þegar mest lét. Margir fyrrum þátttakendur sitja fastir við skjáinn að fylgjast með stöðunni, áhuginn er gríðarlegur og ljóst að um einn stærsta íþróttaviðburð landsins sé að ræða. Þar sem allir tala um að „taka þátt í WOW-inu“ er ljóst að keppni sem þessi, sem nær að rebranda sig vel getur orðið sterk auglýsingavara þar sem fólk talar um keppnina næstum allt árið. Það er því til mikils að vinna fyrir rétta styrktaraðila.

Hins vegar er spurning hvort gera þurfi eitthvað meira eða eitthvað nýtt fyrir helstu afrekshjólarana sem allir hafa tekið þátt í keppninni í fjölda skipta. Þyrfti að skella inn nýjum áskorunum sem ýtir við þeim og helstu styrktaraðilum liðanna? Þetta er allavega eitthvað sem mætti hafa í huga.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar