WOW Cyclothon – Hvað þarf að hafa í huga?
Árshátíð hjólreiðafólks, sjálft WOW Cyclothon fór af stað í gærkvöldi, en stóra startið er í kvöld þegar fjöldi liða leggur af stað frá Egilshöll þar sem markmiðið er að hjóla umhverfis Ísland á sem stystum tíma. Cyclothonið er magnað fyrirbæri og einstök reynsla þar sem ekki dugar að geta eingöngu hjólað. Einnig þarf að sigra erfitt veður og svefnleysi ásamt því að nærast vel og stunda pólítíska refskák gagnvart öðrum liðum. Í cyclothoninu geta litlir hlutir og skipulag breytt öllu. Hvaða bíll var leigður, hvernig er kerran, hvernig eru vaktirnar skipulagðar o.s.frv. Hér eru nokkur atriði sem Hjólafréttir hafa kortlagt sem gætu skipt sköpum í keppninni. Vonandi eru sem flestir með þetta á hreinu nú þegar.
- Kerra – Gott setup af bílum eða kerrum getur sparað liðum tíma og effort. Lítinn tíma í hvert skipti, en uppsafnað getur þetta skipt máli. Léleg kerra eða hjólageymsla getur kallað á að tveir þurfi að ganga frá hjóli í hvert skipti sem skipting er gerð og þar með fái hjólarar á vakt verri hvíld sökum þess að þurfa að hlaupa sífellt út. Liðið getur einnig verið lengur að skipta um hjólara en hin liðin og þar með fengið verri stöðu fyrir aftan hópinn og ekki séð hvað sé í gangi, t.d. Ef dekk springur eða árás er gerð.
- Bílamál – Misjafnt er hvernig lið kjósa að hafa bílamál. Hvort sem er einn eða tveir bílar. Að vera með einn bíll er vissulega skemmtilegt upp á liðsheild, en þá verður ávallt erfiðara fyrir liðið að hvílast. Þeir sem eru ekki að hjóla verða því fyrir miklu áreiti frá þeim sem eru á vakt. Það getur því verið skynsamlegt að vera með tvo bíla, sérstaklega ef þörf er á því að bregðast við óvæntum uppákomum.
- Mörg lið hafa notað tveggja bíla fyrirkomulag þar sem oft er einn húsbíll og einn minni bíll sem oft dregur hjólakerru. Húsbíll er þannig góður hvíldarbíll á meðan keyrslubíll er með hjólakerru. Lykilatriðið er að hvíldarbíll geti tryggt hjólurum góða hvíld en þá skipta staðsetningar hvíldar miklu máli.
- Skipulagðar vaktir – Mikilvægt er að hafa vel skipulagðar vaktir, og geta sett hvíldarbíl niður á góðan stað þannig að hann geti verið stopp sem lengst, en gæta samt að því hvíldarbíllinn dragist ekki of langt aftur úr ef ske kynni að hann þurfi að komast hratt að keyrslubílnum. T.d. getur verið gott að komast í sjoppuna á Egilsstöðum í hvíld, en að komast yfir Öxi í vaktaskipti á skömmum tíma er mjög krefjandi þar sem þar myndast oft flöskuháls.
- Hvíldin – WOW Cyclothon er spennandi keppni og það getur verið erfitt að tjúna sig niður þegar adrenalínið er á fullu. En hlustaðu vandlega; þetta er ekki síst keppni í þreytuúthaldi og góðir hjólarar hafa endað í ruglástandi á Suðurlandinu og ekkert getað hjólað vegna lítils svefns. Þess vegna skiptir miklu máli að hvíldirnar séu nýttar eins vel og hægt er. Reynið að tjúna ykkur frá keppninni í hvíldunum og ná eins miklum svefn og þið getið – hann verður af skornum skammti og kemur stundum í litlum skömmtum. Hér getur verið gott að taka með sér noise cancelling heyrnartól, eyrnatappa, góðan kodda, augnhvílur eða uppáhalds bangsann sinn – allt sem virkar fyrir þig að ná betri hvíld.
- Pólítíkin – Ef enginn úr liðunum í samflotinu er búinn að vera í sambandi við ykkur. Þá gæti verið að þið séuð liðið sem gæti orðið skilið eftir. Pólítíkin er mikilvæg í Wowinu og gæti skilað nokkruð sætum ef rétt er haldið á spöðunum. Þið gætuð amk verið liðið sem fær að vita af árásum á hina í hópnum.
- Matur, næring – Það getur farið mikið eftir einstaklingum hvernig þeir vilja haga sinni næringu yfir keppnina.Oft getur þó reynst vel að pakka sig ekki of mikið af mat heldur borða jafnt og þétt yfir alla keppnina. Af reynslu má skipta keppninni í þrjár hluta hvað mat varðar.
- Fyrsti hluti – Nær frá starti fram á morgun / hádegi á degi tvö. Mörg lið eru með myndarlega kokka innan sinna raða sem elda og pakka niður mat fyrir restina af liðinu. Reynslan sýnir að þessi matur er borðaður fyrsta keppnisdaginn og svo ekki meir. Þannig að ekki er þörf að taka of mikið á tilbúnum mat.
- Annar hluti – Morgun og hádegi á degi tvö fram á fram á síðustu nótt. Á öðrum hluta keppninnar fara hamborgarar, samlokur og franskar, kjötsúpur, pizzur að detta inn á matseðilinn og það er bara ekkert að því. Vinsæl stopp eru morgunborgari á Akureyri og svo Egilsstaða stopp síðdegis. Vanmetið stopp eru hamborgarar frá Höfn í Hornarfirði, hér er góður tímapunktur til að fylla á fyrir nóttina.
- Þriðji hluti – Nótt að lokum. Á þessum tímapunkti fer keppnin meira að snúast um hvíld, orkustjórnun og þreytuúthald. Hér þarf að tryggja að til sé allt sem hugurinn gæti girnst. Nú er ekki rétti tíminn til að vera í aðhaldi. Hér þarf að vera til nammi, snickers, orkubars, snakk og nóg af bönunum. Ef hvíldin hefur gengið illa þá þurfa að vera til koffíngel.
- Varahlutir og verkfæri – Hér þarf einfaldlega að búa sig undir hið ófyrirséða. Allt getur gerst. Hafa þarf með helstu verkfæri, sexkanta, skrúflykil fyrir pedala, keðjutól, kasettutól og keðjusvipu. Ekki gleyma varahlutum fyrir fjallahjól ef það er notað niður Öxi. Í varahlutum ættirðu að vera með keðju, slöngur, dekk. Sumar hjólabúðir gætu leigt kassa með þessum hlutum.