Hvað þarf til að vinna Íslandsmeistaratitilinn?

Í 25 og hálfa mínútu kreysti Rúnar Örn Ágústsson út um 400 wött til að landa Íslandsmeistaratitli í tímatöku karla nú í gær. Hann segir þetta vera sína öflugustu keppni á árinu, en einnig nákvæmlega eins og lagt var upp með. Rúnar deildi tölum úr keppninni á Strava eftir keppni og heyrðu Hjólafréttir í honum og rýndu aðeins í tölurnar.

Meðalwött alla keppnina voru 399, en vigtuð meðal wött (weighted avg. power) var 401 w. Meðalhraði hans var 44,3 km/klst, en hraðast fór hann 71,6 km/klst. Til að ná þessum wöttum var cadencið að meðaltali 95 snúningar og fór hæst í 115 snúninga.

Planið að halda 400 wöttum

Rúnar segir að planið hafi verið að halda 400w á flötum köflum og svo fara eins hratt upp brekkurnar og hann gæti, án þess að spretta upp þær standandi. Á niðurleiðinni var svo hugsunin að reyna að hvíla smá. Brautin sem um ræðir er frá Seltúni á Krýsvuvíkurvegi og upp meðfram Kleifarvatni að malbiksendanum þar sem snúið var við á keilu og farið aftur til baka að Seltúni. Á leiðinni eru þrír höfðar sem skaga út í vatnið sem eru með ágætum bratta, en frekar stuttar brekkur. Samtals 243m hækkun.

„Þetta var í raun nákvæmlega eins og lagt var upp með,“ segir Rúnar og bætir við að hann hafi þó lært það í gegnum tíðina að horfa ekki á mælinn öllum stundum, heldur fara aðeins hraðar ef hann sé þannig upplagður. „Ég tékka mælinn við og við til að sjá að ég sé yfir því sem ég vil vera, en ég bremsa mig ekki af.“

35819560_10157474417759622_279406447446458368_o
Rúnar á fullri ferð við Kleifarvatn. Ljósmynd/Iðunn Jónasardóttir

Rúnar hefur nú unnið öll þrjú TT mót ársins; tvö bikarmót og Íslandsmótið. Hann segir að í fyrstu keppninni á Krýsuvíkurvegi hafi hann verið á um 385w að meðaltali og í Grindavík rétt yfir 390w. Núna sé hann í 400w og því séu wöttin alltaf að hækka eftir því sem á líður keppnistímabilið.

Iron man framundan

Ingvar Ómarsson varð í öðru sæti í gær og segir Rúnar að hann hafi vitað að hann þyrfti að eiga góðan dag til að vinna Ingvar í þessari braut. Segir hann hinar brautirnar passa sér betur þegar ekki sé um jafn brattar brekkur að ræða. Vegna brekkanna hafi einnig skipt minna máli fyrir Ingvar að vera ekki á sérhönnuðu TT hjóli heldur á aero götuhjóli. Sjálfur keppir Rúnar á Trek Speed Concept hjóli með 90mm Bontrager gjörð að framan og Zipp Super 9 plötugjörð að aftan.

En miðað við þessar tölur, telur Rúnar að hann eigi eitthvað inni? „Mögulega,“ segir Rúnar, en það þyrfti þó að vera með annars konar æfingum sem myndu miðast meira að 30min TT. Í dag miðast æfingar hans við Ironman þríþrautar keppni í ágúst í Köben, en Rúnar stefnir á að komast þaðan á heimsmeistaramótið í Kona á Hawaii í október.

Forsíðuljósmynd/Agnes Linnet

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar