Út að hjóla með Airport Direct
Mánudagskvöld og fréttaritarar Hjólafrétta eiga stefnumót með liðsmönnum Airport Direct. Það er þurrt, sólin gægjist milli skýja og hressandi norðvestanátt. Það er hist fyrir utan bus hostel Reykjavik í Skógahlíðinni og fljótlega streyma að hjólarar í appelsínugulum Rapha treyjum merktum Airport Direct.
Fyrst mæta Thomas Skov Jensen og Óskar Ómarsson til leiks og fljótlega bætast við Eyjólfur Guðgeirsson, Birkir Snær Ingvason og Finnur Þór Erlingsson. Meðvitaðir um hverjir væru að koma í hjólatúrinn ákveða fréttaritarar Hjólafrétta að mæta ágætlega nærðir og til í mátulegan hamagang. Blessunarlega höfðu strákarnir tekið gran fondo um Reykjanesið deginum áður og dagskipunin því hvíld og rólegur Reykjavíkurhringur verður því fyrir valinu.
Liðið er nýtt á sjónarsviðinu en liðsmenn þess eru vel þekktir í íslenskum hjólreiðum og hafa blandað sé í toppbaráttu í sterkustu keppnum landsins undanfarin ár. Þannig var hluti þeirra meðal annars í liði Whale safari í fyrra í Wow cyclothon. Þeir hafa líka komið sterkir inn í þessu tímabili. Þeirra fyrsta mót undir merkjum Airport Direct var í Tour of Reykjavík, en þá enduðu fjórir þeirra meðal efstu 16 og þar af meðal sjö efstu Íslendinganna.
Liðsmenn eru á ólíkum aldri, sá yngsti fæddur 1992 og sá elsti árið 1961. Til viðbótar við framangreinda segir Thomas okkur að liðið skipi einnig þeir Viktor Guðnason, Hörður Ragnarsson, Birkir Jóhannsson, Kristjan Jakobsson, Sigurður Stefánsson, Jón Bjórnsson, Róbert Lee Tómasson og Thibault Guégan.
Það var spennandi vika framundan þegar hjólafréttir hittu Airport Direct liðið. Nokkrir voru skráðir í Canon Criterium sem fara átti fram kvöldið eftir og aðrir skráðir í Íslandsmótið í tímatöku sem átti að fara fram á miðvikudagskvöldinu. Birkir Snær tryggði sér annað sætið í Canon Criterium og kom næstur í mark á eftir Ingvari Ómarssyni og Eyjólfur lenti í 6. Sæti í Íslandsmótinu í Tímatöku. Fjórir úr liðinu munu keppa í A flokki WOW Cyclothon þann 25. júní þar sem stefnan er sett hátt, en stóra stundin er þó á sunnudag þegar Íslandsmótið í götuhjólreiðum fer fram. Markmiðin eru skýr, að hafa gaman að þessu í góðum félagsskap og það fer ekki framhjá Hjólafréttum að hér á að vera fjör.
En hvað kom til að þeir stofnuðu liðið? Óskar segir að í raun megi rekja upphafið rúmlega tvö ár aftur í tímann. Þeir hafi fyrst komið saman og kallað sig í gríni Wolfpack. Í fyrra hafi þeir verið nálægt því að landa styrktarsamningi og það hafi svo tekist í ár með Airport Direct. Óskar segir að hann hafi upphaflega viljað hafa sjálfstætt lið en hefð er fyrir því að lið hafi myndast með stuðningi hjólreiðaverslana. Þeir hafi nokkrir hjólafélagar stofnað hópinn og fljótlega hafi bæst við hann. Þeir hafi fundið menn hér og þar, en stór hluti þeirra hefur verið í eða er í hjólreiðafélaginu Tindi. Allir í liðinu eru með sín eigin æfingarplön, en til viðbótar mæta þeir reglulega á liðsæfingar sem Óskar og Thomas hafa oftar en ekki yfirumsjón með.
Þeir eru sammála því að miklu máli skipti að fá inn fleiri lið í hjólreiðar á Íslandi. „Þetta er liðsíþrótt þó að einungis einn komi fyrstur í mark“. Á síðasta ári vöktu liðsmenn Topcon mikla athygli í keppnum sumarsins, Team X kom á sjónarsviðið í sumar og liðsmenn Airport Direct eru vongóðir um að geta sett sitt mark á þetta keppnissumar og áfram á því næsta.
Segja þeir að með því að keppa saman sem lið bætist við ný vídd í hjólakeppnirnar. Ekki sé aðeins um að ræða að einstaklingar mæti með mögulegt plan, heldur geta lið sett keppnir upp sem stuðning fyrir einn eða fleiri í liðinu, líkt og við þekkjum frá erlendum hjólakeppnum.
Ekki þarf að ímynda sér lengi möguleikana sem þetta hefur, meðal annars hvernig þetta gæti t.d. lyft bikarkeppnum upp á hærra plan með því að lið styðji við þá einstaklinga sem eiga möguleika á að vinna heildarbikarkeppni ársins.
Spurðir um markmiðin segja þeir að það sé að vera ofarlega í götuhjólakeppnum og svo fyrst og fremst að hafa gaman. „Ég hef sagt það áður, meðan þetta er gaman held ég þessu áfram, en strax og þetta verður leiðinlegt hætti ég,“ segir Óskar og það er ljóst á honum að hann hefur enn hellings gaman af götuhjólreiðum sem hann segir sjálfur að hann hafi lagt mesta áherslu á síðasta árið.
Hjólafréttir stefna að því að taka reglulega hjólatúra með einstaklingum, liðum, verslunum og hverjum sem hefur áhuga og birta myndir og sögur hér á vefnum. Airport Direct menn komu í fyrsta hjólatúrinn og fyrir áhugasama sem vilja fylgjast nánar með þeim er tilvalið að kíkja á facebook síðu liðsins