Möguleiki á Tour de France sigurvegara í Gullhringinn
Ekki nóg með að stórstjarnan George Hincapie sé á leið til landsins til að taka þátt í KIA Gullhringnum núna eftir hálfan mánuð, þá stefnir mögulega í að Cadel Evans, sigurvegari Tour de France árið 2011, mæti til keppni í ár.
Evans var liðsfélagið Hincapie árið 2011 og hafa þeir haldið vináttunni síðan þá og hjólað undir merkjum BMC þó þeir séu tæknilega hættir keppni í hæðsta styrkleika.
Einar Bárðarson, eigandi KIA Gullhringsins segir að skipuleggjendur keppninnar hafi vitað að Hincapie væri félagsvera og því hafi verið pantað stórt hús fyrir hann með mörgum herbergjum upp á Laugavatni. „Við vissum ekkert hverja hann myndi ákveða að draga með sér hingað. Við vildum bara vera við öllu viðbúin,” segir Einar.

Þá segir Einar að Peloton verslunin, sem er með umboðið fyrir BMC, sé að fá sent hjól fyrir Hincapie vegna keppninnar og að þeir hafi frétt af því að Hincapie hafi boðið Evans og sé verið að setja saman hjólasendingu sem geri ráð fyrir fleiru en einu hjóli og eitt þeirra sé meðal annars í stærð fyrir Evans.Segist Einar ekki geta staðfest annað eins og stendur.
Líklega hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með hjólreiðaspjalli á Facebook að mikið er unnið að öryggismálum í kringum keppnina í ár, en meðal annars hefur vegaöryggissérfræðingurinn Ólafur Guðmundssonr farið hringina þrjá nokkrum sinnum og sent Vegagerðinni athugasemdir um ástand veganna. Síðast fór hann um svæðið í vikunni og myndaði leiðina með vegamyndavél sem meðal annars er horft til að geti virkað sem eins konar brautaskoðun fyrir keppendur sem ekki komist sjálfir til að skoða leiðina.