Met féllu í Wow Cyclothoninu þetta árið

Wow Cyclothoninu lauk á föstudag eftir að hafa staðið yfir frá þriðjudegi þegar Hjólakraftur og fyrstu keppendur í einstaklingskeppni lögðu af stað. Þátttakendur fengu eflaust hnút í magann vikunni áður þegar langtímaveðurspá fór að birtast, en hún var vægast sagt afleit, rigning, hvassviðri og kuldi. Á keppnisdegi var ljóst að aðstæður yrðu hinsvegar með besta móti, meðvindur norður, bongó á Norðurlandi fram að Öxi og blússandi meðvindur á Suðurlandi. Forsendur voru því fyrir að tímamet myndu falla.

wowcyclothon_startMynd: Rut Sigurðardóttir

Þónokkrar breytingar voru gerðar á byrjun og endi keppninnar. Stærsta breytingin var að nú myndi keppnin ekki fara um Kjalarnes heldur var farið upp á Mosfellsheiði og þar beygt inn í Kjósarskarð. Einnig mátti ekki gera skiptingar fyrr en eftir að beygt var inn á Kjósarskarð og því ljóst að tækifæri var til að slíta hópinn fyrir fyrstu skiptingu.

EMagnusson-0127

Mynd: Erlendur Magnússon

Í Kjósarskarði tók við malarkafli til þess að gera undirbúning enn meira krefjandi. Liðin þurftu því að ákveða hver myndi byrja, hver eða hverjir ættu að fara yfir mölina, og ættu þeir að gera það á racer, cyclocross eða fjallahjóli ? Einnig voru gerðar breytingar á endakaflanum en núna mætti ekki gera neinar skiptingar eftir að komið var framhjá Seltúni.

Undanfarin ár hefur hópurinn haldist saman inn í Hvalfjörð þar sem erfitt er að gera skiptingar í mikilli umferð. Endaspretturinn hefur einnig verið kaótískur undanfarin ár þar sem lið hafa þurft að fara í erfiðar skiptingar. Þetta fyrirkomulag virðist því hafa lukkast afar vel, aukið öryggi keppenda og einnig keppnina meira spennandi.

Elín fyrst kvenna til að klára einstaklingskeppnina

wowcyclothon_singlestart
Eiríkur Ingi og Elín við upphaf keppninnar. Mynd: Rut Sigurðardóttir

Alls voru fimm keppendur skráðir í einstaklingskeppnina en einungis fjórir luku keppni. Eiríki Inga tókst að að bæta fyrra met um tæpar sex klukkustundir og tókst að klára hringinn á 56 klst og 12 mín. Eiríkur var einnig um 16 klst á undan næsta keppenda, hinum írska Declan Brassill sem kláraði hringinn á tæpum 72 klst. Halldór Snorrason kom þriðji í mark. Kvennaflokkinn sigraði Elín V. Magnúsdóttir sem er jafnframt fyrsta konan til að klára einstaklingsheppni í WOW Cyclothoninu.

Airport Direct sigraði A flokkinn

Tólf lið tóku þátt í A flokknum þetta árið og virtust fjögur þeirra skera sig úr hópnum hvað varðar styrkleika. Þegar á Mosfellsheiði var komið voru sigurvegarar síðasta árs, Cannondale GÁP í hópi með Airport Direct, Harðkjarna og Íslandsbanka Quattro. Samflot þessara liða varði framan af keppni eða allt að Akureyri þegar liðsmenn Íslandsbanka heltust úr lestinni. Við Höfn byrjuðu læti að nýju þegar Airport Direct ákváðu að fara í árás til þess að gera bil á Cannondale GÁP.

34307612_10216330583167084_1637626860521127936_n

Í samtali við Hjólafréttir segir Thomas Jensen, liðsmaður Airport Direct, að þeir hafi nokkrum sinnum reynt að búa til bil en að hin liðin hafi hvorugt viljað elta. Við Höfn var hinsvegar ákveðið að láta til skarar skríðar hvort sem einhver elti eða ekki. Þegar smá gat myndaðist var keyrt á fullu gasi þar til eftirför væri hætt, en sú keyrsla hafi verið erfið og Cannondale hafi haldið uppi eftirför í góða stund. Samvinna Harðkjarna og Airport Direct hélt áfram þar til í Krýsuvík þegar hinir síðarnefndu sóttu fyrsta sætið og enduðu fyrstir á tímanum 39 klst og 53 mín. Í öðru sæti komu liðsmenn Harðkjarna einungis um 4 mín síðar. Þriðja sætið féll í skaut Cannondale GÁP á tímanum 41 klst. Eitt lið var skráð í kvennaflokki, og sigurvegarnir Lókal Stelpur kláruðu hringinn á 45 klst og 18 mín.

Team Sensa sigrar B flokkinn á nýju tímameti

EMagnusson-04586Mynd: Erlendur Magnússon

73 lið lögðu af stað frá Egilshöll í B-flokki, 10 manna liða. Fyrirfram mátti greina að amk. þrjú lið ætluðu sér toppsætið þetta árið. Team Skoda mætti með firnasterkt lið til leiks með Íslandsmeistarann í götuhjólreiðum, Ingvar Ómarsson, fremstan í flokki. Team TRI mætti einnig með stjörnum prýtt lið til leiks þar sem finna mátti fyrri sigurvegara í A og B flokki Wow Cyclothon. Þegar nafnalistinn var birtur ráku þó margir augun í lið Team Sensa en þar voru skráðir til leiks fjórir hollenskir þátttakendur ásamt sterkum hóp innlendra hjólara.

Frá Egilshöll var hraðanum stýrt upp að beygjunni inn í Mosfellsdal þegar lögreglan sleppti keppninni lausri. Ef horft er á beinu útsendinguna frá keppninni má sjá vel hvernig þróunin var frá þeim tímapunkti. Það var stór hópur sem fór inn í beygjuna þar sem Rúnar Örn Ágústsson frá Kolibri stýrði hraðanum en með honum voru liðsmenn Sensa, Tri og Skoda fremstir ásamt um 20 öðrum hjólurum.

Í brekkunni eftir Gljúfrastein upphófst mikið sjónarspil þegar hollenskur liðsmaður Sensa fer fremst í hópinn og hendir standandi sprett og býr til 15 metra gat og lítur aftur fyrir sig og bíður eftir að fjórir fremstu brúa bilið. Fljótlega eru bara fjórir eftir og þá splæsir sá hollenski í aðra árás en hópurinn sameinast fljótt aftur.

Þessi fjögur lið, Sensa, Skoda, TRI og Kolibri komu fyrst inn á skiptisvæði og voru jafnframt fyrstu fjögur liðin í mark. Kolibri heltist hinsvegar úr lestinni í Hvalfirði og datt í hóp tvö með Decode XY og Into The Glacier.

wowcyclothon_fremstumenn_sudurlandMynd: Rut Sigurðardóttir

Þegar komið var í endamarkið var ekki mikill munur á fremstu liðum. Team Sensa kom í mark á glæsilegu tímameti 34 klst og 54 mín og Team Skoda einungis 12 mínútum síðar. Team TRI komu þriðjir í mark og tímanum 35 klst og 12 mín.

Í kvennaflokki sigraði XY Cycling  á tímanum 43 klst 59 mín og þar á eftir komu Akureyrardætur í mark á tímanum 45 klst og 7 mín.

Í flokki blandaðra liða kom lið Verkís fyrst í mark á tímanum 40 klst og 45 mín. Þar á eftir var lið Arion banka á 42 klst og 38 mín.

Við þökkum WOW Cyclothon fyrir að senda okkur myndir frá Rut og Erlendi.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar