Götuhjólahátíð, stórstjörnur og öryggismálin

Götuhjólagleði undanfarinna vikna heldur áfram núna á laugardaginn þegar KIA Gullhringurinn fer fram á Laugavatni. Eins og hefð er orðið fyrir er erlendur heiðursgestur með í keppninni og er hann heldur betur stórt nafn í hjólreiðaheiminum. Þá er ljóst að skipuleggjendur hafa sett gríðarlegt kapp í að bæta öll öryggismál og er örugglega hægt að fullyrða að aldrei hafi viðlíka púður verið sett af skipuleggjendum keppni hér á landi í að gaumgæfa þann málaflokk eins og gert hefur verið fyrir Gullhringinn í ár.

Eftir tvö Íslandsmót (götuhjólreiðar og TT) og cyclothonið er nú komið að Gullhringnum. Keppnin er hreinræktað almenningsmót og eitt stærsta mót ársins með um 500-800 keppendur undanfarin ár.

Hægt er að velja um að fara þrjár vegalengdir í nágrenni Laugavatns. Gullhringurinn er 106 km, silfurhringurinn er 60 km og bronshringurinn er 48 km. Þetta fyrirkomulag býður upp á að fjölskyldur og vinir komi saman til keppni og taki þátt í þeirri vegalengd sem passar getustigi viðkomandi.

KIA Gullhringurinn 2016Hjólreiðakepni á Laugarvatni Fólk, ráslína
Sannkölluð götuhjólahátíð verður á Laugavatni um helgina. Ljósmynd/Hari

Stórstjarna mætir til leiks

Í ár kemur Bandaríkjamaðurinn George Hincapie til landsins og verður heiðursgestur Gullhringsins. Hann hefur fimm sinnum keppt á Ólympíuleikunum fyrir hönd Bandaríkjanna og er ásamt þremur öðrum sá maður sem hefur oftast hjólað Tour de France hjólakeppnina (sem byrjar einmitt núna á laugardaginn). Áður kom Hincapie hingað til lands árið 2016 þegar hann tók þátt í fjögurra manna liði í cyclothoninu.

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem Gullhringurinn dregur að sér stórstjörnur úr hjólaheiminum. Í fyrra kom kanadíski hjólreiðamaðurinn Ryder Hesj­e­dal til að taka þátt, en hann sigraði meðal annars Giro d‘Italia keppnina árið 2012 og var í fimmta sæti í Tour de France árið 2010.

Fyrir okkur hjólreiðafólkið er þetta ekkert ósvipað því að stórstjörnur úr fótbolta komi hingað til lands til að taka þátt í knattspyrnumótum eða halda námskeið. Ótrúlegur fengur að staðið sé í að fá svona kappa hingað til lands. Ólíklega mun Hincapie reyna að sigra mótið í ár, enda kemur hann með ungum syni sínum og ætlar sérstaklega að hafa gaman af keppninni. Það breytir því ekki að þetta er hvalreki fyrir alla hjólaáhugamenn.

20615805_1475545875827067_653105860731127909238_o
George Hincapie ásamt syni sínum Enzo Hincapie, en þeir feðgar ætla báðir að hjóla í Gullhringnum.

Öryggismálin tekin föstum tökum

Í fyrra varð alvarlegt óhapp í keppninni þar sem hjólað var ofan í rauf á grindahliði. Slösuðust fimm og  einn keppandi nokkuð alvarlega. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og frá upphafi var ljóst að Einar Bárðason, eigandi og skipuleggjandi keppninnar ætlaði að leggja mikla áherslu á öryggismál í keppninni til framtíðar. Þetta hefur hjólreiðafólk meðal annars sé með reglulegum uppfærslum frá Einari á ýmsum Facebook-hópum hjólreiðafólks þar sem hann greinir frá framvindu mála þegar kemur að öryggi í keppninni og hverju sé unnið að. Virðingavert framtak.

Meðal annars var ráðinn sérstakur umferðaröryggissérfræðingur sem hefur gert öryggisúttektir á keppnisbrautunum. Er það Ólafur Kr. Guðmundsson, varaformaður FÍB og fulltrúi EuroRAP sem kortleggur ástand vega og öryggi þeirra.

aa21
Ryder Hesjedal mætti til leiks í fyrra og var heiðursgestur mótsins.

Fram hefur komið í tilkynningum frá Gullhringnum að Ólafur hafi þegar gert nokkrar athugasemdir við Vegagerðina og mun hann gera lokaúttekt sólarhringinn fyrir keppni. Til viðbótar er sérstakur öryggisstjóri keppninnar auk fjölda annarra starfsmanna.

Enn hægt að skrá sig til leiks

Skráningu á vefnum er lokið, en hægt er að kaupa sig inn í keppnina á keppnisdegi frá 12 til 18 þar sem keppnisgögn verða afhent við Fontana. Breyting er í ár á tímasetningu ræsingar, en hún verður klukkan 19 í staðin fyrir 18 áður.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar