Komið að því – Túrinn byrjar um helgina

Þá er komið að því, um helgina byrjar Le Tour, Tour De France. Um leið og götuhjólaveislunni lýkur hér innanlands tekur önnur við og það í Frakklandi. Þó að sá sem þetta skrifar sé mun meiri Giro maður, og í raun Vuelta maður líka, er Túrinn samt Túrinn og þangað mæta þeir allra sterkustu, hvort sem þeir stefna á að keppa um gula, græna eða doppótta treyju.

Það er óhætt að segja að þeir sem fylgdust með Giroinu séu orðnir góðu vanir, en þar var boðið upp á eina mestu hjólaveislu í seinni tíð, þar sem Chris Froome mætti til leiks á síðustu dögunum og tróð sokki ofan í flesta sem skrifa um hjólreiðar (Hjólafréttir þar með talið). Simon Yates hafði haft gríðarlega yfirburði fyrstu tvær vikurnar og Froome hafði einungis verið skugginn af sjálfum sér. Þegar Yates fór að sýna veikleika var það ekki Tom Dumoulin sem sótti sigurinn heldur varð klikkuð árás Chris Froome á Colle Delle Finestre þegar 80 km voru eftir til þess að hann tók bleiku treyjuna á síðustu dögunum. Nú mætir hann aftur til leiks og er ekki bara fjórfaldur TDF sigurvegari, heldur er hann ríkjandi meistari í öllum grand túrum og reynir við hina erfiðu Giro-Tour tvennu. Því til viðbótar hefur UCI hreinsað hann af ásökunum um ólöglega lyfjanotkun.

Leiðin

2

Hver grand-túr hefur sín sérkenni. Ólíkt landslag, misgóðir vegir, ólík vegakerfi og menning gera hvern grand-túr góðan á sinn hátt. Túrinn byrjar í vesturhluta Frakklands á flötum dagleiðum, og má segja að mesta spennan fyrstu dagana verði baráttan um grænu treyjuna (sprett treyjuna) og vonin um að góður hliðarvindur verði. Keppendalistinn er vel mannaður og þar má finna alla hina spretthörðustu í bransanum til að tryggja spennu á flötu dagleiðunum.

Ólíkt því sem við sáum í Giroinu, munum við þurfa að bíða eftir dagleiðum í fjöllunum en sú fyrsta verður þann 17. júlí þegar keppnin fer í Alpana. Það verður því líklega lítið um flugeldasýningar í heildarkeppninni (GC) fyrstu daganna að liðstímatökunni (TTT) á þriðju dagleið undanskilinni. Þar er líklegt að GC keppendur með sterkt TTT lið á bakvið sig geti strax sótt mikilvægar sekúndur (t.d. Sky og BMC).

Keppnin færist norður með vesturhluta Frakklands áður en hún tekur stefnuna til Parísar og svo í átt að Belgíu þar sem við fáum að fara yfir hellulagða vegi við Roubaix (Meira um það síðar).

Fyrsti hvíldardagur verður þann 16. júlí áður en keppnin fer í Alpana þar sem þrjár dagleiðir verða í fjöllunum, meðal annars upp Alpe d’huez (Áhugasamir geta nú hjólað þá leið á Zwift, Alpe du Zwift). Frá Ölpunum færist keppnin að Pýreneafjöllum þar sem síðasta vikan er hjóluð áður en keppnin endar að vanda í París.

Við ætlum ekki að missa af þessum fimm dagleiðum

9. Dagleið – Farið yfir hellurnar (Pavé) til Roubaix

3

Aðdáendur hinna klassísku vorkeppna hljóta að bíða í ofvæni eftir 9. dagleið þegar túrinn mun fara yfir hellulagða vegi. Það merkir að úrslitaleikurinn á HM er ekki það merkilegasta þennan daginn, heldur 9. dagleið í túrnum, sérstaklega ef við fáum rigningu. Hellurnar geta mögulega haft mikil áhrif á heildarkeppnina. Veðrið getur haft mikið að segja, keppendur misgóðir á hellulögðum vegum og ávallt meiri hætta á óvæntum uppákomum. Einhverjir munu detta. Alls eru fimmtán hellulagðir blettir sem farið verður yfir eða 21,7 km alls að lengd. Flestir sem munu reyna við sigur í heildarkeppninni hafa unnið sína heimavinnu og mættu á vorkeppnirnar til að prófa sig á hellulögðum vegum í Belgíu og Frakklandi.

11. Dagleið – Einungis 108 km í fjöllunum

4

108 km dagleið, og þrjú stór klifur. Dagleiðin er stutt og með gott sem engu flatlendi og því er  líklegt að hún ýti undir meiri hasar sem byrjar strax á fyrsta klifri, Montée Di Bisanne. Bisanne er 12,4 km klifur með 8,2% meðalhalla. Næsta klifur á listanum er Col Du Pré, 12,6 km af 7,7% meðalhalla og dagleiðin endar svo með ferð upp á La Rosiere, 17,6 km af 5,8% meðalhalla.

12. Dagleið – Endar upp Alpe d’Huez

5huez

Zwiftarar hljóta að fylgjast með tólftu dagleið og þeir sem hafa ekki prófað að hjóla upp Alpe d’Huez í raunheimum geta prófað að hjóla upp Alpe du Zwift sem bættist við Watopia í apríl. Alpe d’Huez er líklega frægasta klifur Tour De France, liggur við skíðabæinn Huez í um 50 km fjarlægð frá Grenoble. Klifrið er 13,8 km af 8,1% meðalhalla. Það byrjar bratt og það endar bratt í yfir 10% meðalhalla. Hjólararnir þurfa að þræða 21 beygju á leið sinni upp í skíðabæinn og þarna verður fjör, mikill fjöldi áhorfenda og mikið um suffer svipi. Það er ágætt að hafa í huga að dagleiðin er 175 km löng og þegar komið er í Alpe d’Huez verða keppendur búnir að klifra um 60 km og fara tvisvar yfir 2000 metra yfir sjávarmál, þetta verður því eitthvað fyrir augað.

17. Dagleið – Stysta dagleiðin, einungis 65 km.

6stage-17-profile

65 km dagleið sem byrjar strax á 14,9 km klifri upp Montée du Peyragudes er líkleg til að vera algjör flugeldasýning. Horfið á þessa strax frá byrjun. Ekki nóg með að hún sé stutt heldur verður ræst út eftir stöðunni í heildarkeppninni og engin hlutlaus svæði í byrjun (Sjá nánar http://www.cyclingweekly.com/news/racing/tour-de-france/tour-de-france-organisers-introduce-grid-style-start-short-stage-17-381929). Fyrsta klifrið líkt og fyrr segir er 14,9 km með 6,7% meðalhalla en hið næsta er brattara, 8,3% meðalhalli yfir 7,4 km þar sem 3 km eru á bilinu 9-10%. Þriðja klifrið verður svo 16 km klifur með 8,7% meðalhalla þar sem síðasti kílómeterinn í mark verður yfir 10% halli. Meira en helmingur af dagleiðinni verður því upp í móti og búast má við árásum frá fyrstu metrum.

20. Dagleið – Tímataka með tvisti

7ITT

Eina einstaklingstímatakan í Tour De France þetta árið verður á 20. Dagleið þar sem hjólaðir verða um 31 km. Tímatökur eru ekki alltaf eitthvað fyrir augað, en brautin verður nokkuð spennandi að þessu sinni og líkleg til að hafa áhrif á lokastöðuna. Brautin er semsagt hæðótt og endar á 900 metra klifri í 10,2% meðalhalla. Til viðbótar er hún tæknilega erfið, á henni eru hólar, hæðir og beygjur, margar beygjur og mun hún því síður gagnast hefðbundnu tímatökusérfræðingunum.

Hverjir munu slást um treyjurnar?

Líkt og við fórum yfir í umfjöllun fyrir Giroið, snýst keppnin í grandtúrum ekki bara um heildarkeppnina, heldur er líka barist um grænu treyjuna (fyrir spretti), doppóttu treyjuna (fjallatreyjan) og um sigur í dagleiðum. Liðin og keppendur eru því ekki öll með sömu markmið. Það mættu fáir sprettarar til leiks í Giroið, en brautin var bæði erfið og með fáum flötum dagleiðum og því bara tveir hjólarar sem sýndu yfirburði í baráttunni um fjólubláu treyjuna.

8

Ólíkt Giro, verða mun fleiri sprettarar Í Túrnum  sem vert er að fylgjast með og líkt og sást í fyrra getur margt gerst. Keppnin um grænu treyjuna var áhugaverð á síðasta ári. Mark Cavendish meiddist í árekstri við Peter Sagan á 4. dagleið og var sá síðarnefndi í kjölfarið dæmdur úr leik. Marcel Kittel var hinsvegar í feiknaformi og sigraði alls fimm dagleiðir. Hann þurfti þó einnig að hætta keppni vegna meiðsla sem varð til þess að Michael Matthews frá Sunweb endaði sem sigurvegari grænu treyjunnar. Allir framangreindir eru aftur mættir til leiks og til viðbótar mætti nefna André Greipel, Alexander Kristoff og Arnaud Demare sem líklega til að blanda sér í sprettina. Hjólafréttir telja þó að Fernando Gaviria hjá Quick Step verði maðurinn til að fylgjast með en hann hefur átt frábært tímabil.

9

Heildarkeppnin er hinsvegar stærsta markmiðið en þar er það sá sem hefur besta heildartímann sem fær að vera í Meilleur Jeune, gulu treyjunni. Veðbankar spá þar Chris Froome sigri en þó ber að hafa í huga að Froome er einn af þeim þátttakendum sem tók þátt í Giroinu fyrir rúmum mánuði síðan sem án vafa mun hafa áhrif á frammistöðu hans. Hans helstu keppinautar í TDF gerðu það hinsvegar ekki og segja má að nú hljóti Richie Porte (BMC), Nairo Quintana (Movistar) og Vincenzo Nibali (Bahrain-Merida) að vera í dauðafæri. Það eru þó fleiri sterkir keppendur sem eru líklegir að blanda sér í toppslaginn en þar má nefna Ilnur Zakarin frá Katusha og Dan Martin frá UAE en einnig tekur Tom Dumoulin þátt sem hafnaði í öðru sæti í Giroinu. Þó nöfnin hér að ofan séu efst meðal veðbanka, gætu úrslitin vel verið óvænt. Hellurnar, stuttar fjallaleiðir og stutt og hæðótt tímataka gæti boðið upp á óvænt úrslit.

Hjólafréttir munu fylgjast spennt með nokkrum liðum í heildarkeppninni en horfa sérstaklega á þessa hér.

10froome

Hversu sterkur Froome mætir til leiks ? Túrinn byrjar viku síðar en vanalega vegna HM í fótbolta og Froome mun þurfa á þeirri auka viku í hvíld að halda. Ef planið hjá Sky var að nota Giroið til að hjóla upp formið hjá Froome þá virðist það hafa virkað, hann toppaði algjörlega á síðustu vikunni og virtist ströggla á fyrstu vikunum. Hópurinn hjá Sky er gríðarlega sterkur og Froome til halds og trausts verða meðal annars Michal Kviatkowski, Geraint Thomas, Wout Poels, Gianni Moscon, Luke Rowe og ungstirnið Egan Bernal. Styrkur Sky lestarinnar mun sjást strax á þriðju dagleið í liðstímatökunni.

11movistar

Hvað mun Movistar þríeykið gera ? Það má ekki gleyma að Quintana er ekki eini leiðtogi Movistar í keppninni, heldur eru Mikel Landa og Alejandro Valverde einnig skráðir til leiks og allir líklegir til árangurs. Með þeim í hóp eru einnig sterkir menn til aðstoðar t.d. Marc Solér og Andrey Amador. Movistar er að leggja allt undir í Túrinn þetta árið en á síðasta ári mætti Quintana þreyttur til leiks eftir Girorið og Valverde meiddist á opnunardeginum. Brautin í ár gæti einnig unnið með Movistar, stuttar fjallaleiðir og hellusteinar þar sem Valverde mun skína.

Milano Sanremo 2018
Milano Sanremo 2018 – 109th Edition – Milano – Sanremo 291 km – 17/03/2018 – Vincenzo Nibali (ITA – Bahrain – Merida) – photo Roberto Bettini/BettiniPhoto©2018

Verður Hákarlinn á sveimi? Bahrain Merida mætir með hörku lið til leiks til að styðja Vincenzo Nibali til sigurs. Pozzovivo mætir úr Giroinu þar sem hann barðist um toppsætin en þeim til stuðnings eru einnig Gorka og Ion Izagirre mættir. Nibali hefur unnið alla grand túranna og sýndi einnig styrk á vormótunum, sigraði m.a. annars Milan-Sanremo með glæsilegum endaspretti. Hann er fjölhæfur hjólari, getur klifrað og er tæknilega góður á niðurleið og mun geta farið hratt yfir hellurnar.

Aðrir sem vert verður að fylgjast með: Richie Porte (BMC),  Primoz Roglic (LottoNL-Jumbo) og Geraint Thomas (Sky)

Spá Hjólafrétta, eða óskhyggja, er að Vincenzo Nibali vinni Túrinn þetta árið og Fernando Gaviria tekur grænu treyjuna. Það er erfiðara að segja með doppóttu treyjuna en við skjótum á að Mikel Landa taki hana. Egan Bernal mun hinsvegar standa uppi sem sigurvegara meðal ungra, og landa hvítu treyjunni.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar