Reykjanesmótið handan við hornið

 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan 20 keppendur tóku þátt í fyrsta Reykjanesmótinu árið 2011. Fljótlega fjölgaði þeim upp í rúmlega 100 og á síðustu þremur árum rúmlega tvöfaldaðist keppendafjöldi  og voru 370 sem tóku þátt í fyrra. Kostir keppninnar eru meðal annars þeir að flestir geta þar fundið eitthvað við sitt hæfi, þó að brautin sé reyndar ekki með mestu klifur sem fyrir finnast.

Hjólafréttir renna hér yfir helstu atriðin varðandi keppnina, hvernig eigi að haga sér og hvað þurfi að hafa í huga áður en mætt er í fyrsta götuhjólamót ársins.

Keppt er í þremur vegalengdum í mótinu og nokkrum flokkum, bæði karla og kvenna, þess fyrir utan. Í fyrsta lagi er það 106 kílómetra vegalengd, en þar er keppt í Junior-flokki (U18), U23 og í Elite-flokki (meistaraflokki). Þar sem Reykjanesmótið er hluti af Íslandsbikarmóti Hjólreiðasambands Íslands telur árangur í 106 km vegalengdinni til stiga í bikarkeppni ársins.

63 og 32 km keppnirnar eru svokallaðar almenningskeppnir sem ekki gilda til stiga í bikarkeppninni. Fjölmargir sterkir keppendur sem eru að safna reynslu og vilja hjóla í fjölmennari hóp en í meistaraflokkinum velja að taka þátt í 63 km keppninni, enda mun fleiri sem skrá sig þar en í meistaraflokkinum. Fyrir þá sem vilja enn styttri vegalengd, fyrir byrjendur og jafnvel fjölskyldur er vinsælt að skrá sig í 32 km vegalengdina. Brautin er nokkuð flöt og því er hún gott upphaf fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í götuhjólreiðakeppnum.

Almenn atriði:

  • Í öllum flokkum er byrjað í Sandgerði og haldið mislangt suður og suðaustur. Síðan er snúið við og endað aftur í Sandgerði.
  • Fyrstu km brautarinnar og sömuleiðis þeir síðustu eru á einbreiðum vegi. Nota má allan veginn, en þegar komið er út á veg með vegmerkingum (tvöfaldur vegur) er með öllu bannað að hjóla á vinstri akreininni.
  • Sækja þarf tímatökuflögu, keppnisnúmer og önnur keppnisgögn í sundlaugina í Sandgerði fyrir mót. Gott er að mæta tímanlega.
  • Ræsing allra vegalengda er frá Stafnesvegi sunnan megin við bæinn.
  • Bannað er að fara aftur út á brautina þegar keppendur hafa lokið keppni.

32 km: Almenningsflokkur þar sem karlar og konur mega hjóla saman og „drafta.“ Hjólað suður frá Sandgerði og að Hafnarvegi þar sem snúið er við. Nauðsynlegt að gæta öryggis þar sem snúið er við og hægja vel á sér. Strava feril má finna hér.

32
Leiðin í 32km keppninni.

63 km: Byrjað eins og í 32 km keppninni. Við Hafnarveg er hins vegar tekin hægri beygja og haldið áfram suður með sjó og alla leið að Reykjanesvirkjun. Þar er beygt til hægri að virkjuninni og snúið við á planinu við virkjunina og haldið sömu leið til baka. Gott er að hafa varann á þegar snúið er við við virkjunina, sérstaklega ef margir eru saman í hópi. Er um að ræða nokkrar krappar beygjur sem gæta þarf varúðar í. Í bæði 63 km og 106 km vegalengdunum mega karlar og konur ekki vinna saman. Þ.e. konur mega ekki „drafta“ karla og karlar mega ekki „drafta“ konur. Strava feril má finna hér.

63km
Í 63km keppninni er farið fram og til baka að Reykjanesvirkjun.

106 km: Byrjað eins og í 63 km keppninni. Farið að og beygt inn hjá Reykjanesvirkjun. Þegar komið er til baka út á Nesveginn er hins vegar tekin hægri beygja í átt að Grindavík. Farið er í gegnum bæinn (sjá nánari leiðarlýsingu frá keppnisstjórn) og á Suðurstrandarveg. Þar er hjólað upp á Festarfjall og svo snúið við og hjólað í gegnum Grindavík og beina leið til Sandgerðis. Ekki er beygt inn að virkjuninni á leiðinni til baka. Í bæði 63 km og 106 km vegalengdunum mega karlar og konur ekki vinna saman. Þ.e. konur mega ekki „drafta“ karla og karlar mega ekki „drafta“ konur. Strava feril má finna hér.  

106km
103km keppnin fer austur fyrir Grindavík og til baka.

Vilja sjá 400 manns

Svanur Már Scheving hefur verið mótsstjóri keppninnar undanfarin ár. Hann segir að helstu kostir hennar séu lítil umferð og að leiðin sé skemmtilegt. Ekki er óalgengt að loftið hreyfist aðeins á Suðurnesjunum og getur vindurinn spilað stóra rullu í keppninni. Svanur segir rokið vera nokkuð heillandi og vinni bæði með og á móti fólki. „Sumum finnst rokið spennandi. Ef þú ert með rokið í fangið aðra áttina færðu meðvind hina leiðina,“ segir hann kíkinn við Hjólafréttir.

Í fyrra bættist 106 kílómetra vegalengdin við og segir Svanur að það hafi verið eftir að Hjólreiðasambandið vildi koma mótinu inn í Íslandsbikarinn. „Það heppnaðist rosalega vel og þeir sem keppa mikið voru ánægðir,“ segir Svanur. Hafi menn ákveðið að fara gegnum Grindavík og upp Ísólfsskálabrekkuna.

Síðustu tvö ár hafa 360-370 manns keppt í mótinu og segir Svanur að þátttaka fari nokkuð eftir veðri. Hann segist þó vilja sjá 400 manns í ár, enda hafi hjólreiðar sótt í sig veðrið undanfarin ár og sé nú nokkuð fjölmennur hópur sem taki þátt í keppnum.

hprofill
Eins og sjá má á hæðarprófíl frá Óskari Ómarssyni sem vann keppnina í fyrra er ekki um miklar brekkur að ræða.

Fyrsta árið sem keppnin fór fram, árið 2011, voru þátttakendur 20 talsins. Það voru þeir Ingi Þór Einarsson og Haraldur Hreggviðsson sem stóðu að baki fyrstu tveggja keppnanna áður en Þríþrautarfélag Njarðvíkur tók við henni árið 2013. Annað árið hafði keppendafjöldinn tvöfaldast og hélt áfram að vaxa þegar 3N tók við. Árið 2014 var fjöldinn kominn í 160 manns og sprakk svo út og varð 270 árið 2015. Síðustu tvö ár hafa sem fyrr segir á bilinu 360 og 370 manns tekið þátt.

Verðlaun eru í öllum flokkum í 106 og 63 km keppnunum, en það er Nettó sem gefur verðlaun. Þá eru útdráttarverðlaun í 32 kílómetra vegalengdinni að sögn Svans.

Eftir keppnina er eins og áður opið í sund fyrir keppendur og veitingar í boði.

Hægt er að skrá sig til leiks á vef Hjólreiðasambandsins.

Previous Article
Next Article

2 Replies to “Reykjanesmótið handan við hornið”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar