Jafnar á toppnum í kvennaflokki og dregst saman með körlunum – úrslit úr áskorun #6

Vífilstaðabrekkan er segment #6.

Spennan er heldur betur að magnast í segment áskoruninni. Eftir sjöttu umferð er staðan jöfn á toppinum í kvennaflokki og í karlaflokki hefur dregið saman meðal efstu keppenda. Þrátt fyrir góða þátttöku og slatta af flottum tímum náðist ekki að setja KOM, en vindáttin þessa daga var ekki líkleg til að hjálpa við það.

Heildarstöðuna má finna hér

Í kvennaflokki náði Erla Sigurlaug Sigurðardóttir besta tímanum, en hún fór Vífilstaðabrekkuna á 3:57 og setti tímann á sunnudagskvöldið. Áður hafði hún reyndar náð 4:01 á föstudaginn. Bríet Kristý Gunnarsdóttir, sem hefur leitt keppnina hingað til, skilaði tíma seint á sunnudaginn, líkt og Erla og náði hún öðru sætinu. Með þessu standa þær nú jafnar í efsta sæti heildarkeppninnar.

Í þriðja sæti í þessari viku var Margrét Indíana Guðmundsdóttir og í fjórða sæti Margrét Pálsdóttir, en það er jafnframt sæti þeirra í heildarkeppninni. Hins vegar munar ekki nema tveimur stigum á milli þeirra og því heilmikil keppni enn til staðar.

Í karlaflokki kom Dennis Van Eljk og skellti í besta tímann strax á föstudaginn á 3:04, aðeins fjórum sekúndum á eftir KOM tímanum. Þrátt fyrir nokkrar góðar tilraunir var enginn annar sem hafði árangur sem erfiði, en Jón Arnar Óskarsson náði næst besta tímanum á 3:30 á sunnudaginn. Finnur Ragnarsson var í þriðja sæti á 3:34 og Guðni Ásbjörnsson í fjórða sæti á 3:43.

Í heildarkeppninni er Ingvar Ómarsson enn efstur, en hann var í 14. sæti þessa vikuna. Þeir Jón Arnar, Guðni og Björgvin Pálsson og Jón Arnar Sigurjónsson nálguðust hann því allir í þetta skiptið, en nú munar 9 stigum á Ingvari og Jóni Arnari Óskarssyni. Guðni er svo einu stigi á eftir Jóni.

Heildarstöðuna má finna hér.

Við munum tilkynna um vinningshafa í útdráttarleiknum á morgun, en eins og áður hefur verið greint frá fær viðkomandi Jabra Elite Active 65t bluetooth “tappa” að verðmæti 34.990kr frá Opnum Kerfum.

Á miðvikudaginn er svo áformað að afhjúpa næsta segment, en það fer að styttast í annan endann á þessum áskorunum hjá okkur og aðeins þrjár eftir.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar