Spennan magnast í áskorun Hjólafrétta
Fimmta umferð í áskorun Hjólafrétta olli heldur betur ekki vonbrigðum. Ákveðið var að hrista aðeins upp í keppninni og fara út fyrir malbikið og frábært var hversu margir mættu í Heiðmörkina til að taka keyrslu á mölinni. Fimmta umferð var í samstarfi við Lauf Cycling og voru Laufarar mættir í Heiðmörkina á Laugardag kl 11 þar sem öllum bauðst að prófa Lauf hjól til að nota í laufléttri áskoruninni.

Strax á föstudag voru sterkir tímir settir bæði í karla- og kvennaflokki. Ingvar Ómarsson setti KOM þegar hann fór leiðina á 10 mín og 55 sek og átti Ingvar eftir að vera sá eini sem fór vegbútinn á undir 11 mínútum. Einnig mætti María Ögn á föstudag og skilaði inn öflugum tíma, 13 mín og 8 sek en það QOM átti ekki eftir að lifa helgina því Erla Sigurlaug bætti í betur og hjólaði vegbútinn á 12 mín og 31 sek. Í karlaflokki komu Kristján Jakobsson og Birkir Snær Ingvason í öðru og þriðja sæti en í kvennaflokki varð María Ögn í öðru sæti en Bríet Kristý endaði í því þriðja.
Spennan er heldur betur að magnast í heildarkeppninni en úrslitin má sjá hér. Bríet Kristý heldur toppsætinu í kvennaflokki með alls 91 stig en munurinn er orðinn afar naumur því Erla Sigurlaug er með 89 stig í öðru sæti. Baráttan um þriðja sætið er einnig mikil um þessar mundir en Margrét Arna Arnardóttir situr þar um þessar mundir með 66 stig en Margrét Indíana Guðmundsdóttir er í því fjórða með 65 stig. Skammt undan eru Hrefna Jóhannsdóttir og María Ögn báðar með 54 stig. Ljóst er að mikil keppni er framundan á næstu vikum.
Í Karlaflokki er spennan einnig mikil þó Ingvar Ómarsson sé með góða forystu í fyrsta sætinu. Hörð keppni er um sætin á verðlaunapallinum. Guðni Ásbjörnsson er í öðru með 56 stig og Jón Arnar Sigurjónsson í þriðja með 55. Stutt er í Jón Arnar Óskarsson og Björgvin Pálsson sem eru í fjórða og fimmta sæti.

Athugið að áskorunin verður alls 9 umferðir, og mun sú síðasta fara fram helgina 12-14. Júní. Næsta áskorun verður tilkynnt á miðvikudag en við höfum boðað að vegbútarnir komi til með að þyngjast á næstu vikum. Stay Tuned.