Staðan eftir áskorun #1
Fyrstu umferð segment áskorunarinnar er lokið og fór þátttaka og áhugi á þessu framtaki fram úr okkar björtustu vonum. Við viljum þakka öllum sem lögðu leið sína í Áslandið fyrir að kýla á þetta og gera sitt besta. Samhliða því að þetta er auðvitað í grunninn keppni, þá er tilgangurinn ekki síður að ýta við fólki til að skella sér út núna þegar veðrið fer að verða skaplegra, sveitarfélögin eru farin að sópa götur og veðrið farið að minna okkur á vorið. Munum svo alltaf að gæta vel að örygginu, þótt keppnisskapið sé hollt og skemmtilegt.
Praktísk atriði
Þá tilkynnist það jafnfram að næsta áskorun verður kynnt á morgun og mun standa frá fimmtudegi til sunnudags. . Við höfum jafnframt fengið til liðs við okkur nokkra styrktaraðila sem ætla að styrkja áskorunina með nokkrum skemmtilegum vinningum, bæði í lokakeppninni sem og útdráttarverðlaunum sem verða handahófskennt fyrir þátttakendur hverju sinni í gegnum keppnina. Það borgar sig því að taka alltaf þátt. Verður þetta allt kynnt betur á komandi dögum og vikum.
Við úrvinnslu á úrslitum, þá skoðum við vikulega tíma í Hjólafrétta hópnum á Strava. Keppendur verða því að hafa ride-in sýnileg fyrir öllum þannig að skor birtist á topplistum. Einnig sýnir Strava eingöngu skor eftir dögum og vikum og þá bara bestu tímana þá vikuna. Ef keppendur eiga betri tíma, sömu viku og áður en Hjólafrétta áskorunin tekur gildi, þá mun tíminn þeirra ekki sjást nema þeir feli eldra ride-ið. Keppendum er frjálst að senda okkur screenshot / skor fram að næsta roundi ef okkur yfirsést eitthvað. Þá uppfærum við stigin ef eitthvað vantaði. Þegar lota 2 hefst, þá verða ekki breytingar á stigum úr lotu 1.
Það hafa komið fram beiðnir um að skipta stigatöflunni enn frekar upp eftir aldurshópum. Strava gefur illa kost á því að flokka aldursflokka innan klúbba og myndi það því kalla á umtalsvert meiri handavinnu. Slík framkvæmd er því ekki á borðinu að svo stöddu.
Við rákum okkur einnig á að framsetning gagna á Strava er þannig að á miðnætti núllast „this week“ eða „today“ flokkunin. Í næstu keppnum verður því miðað við að áskorunum ljúki kl 22:00 lokadaginn, en ekki á miðnætti. Minniháttarbreyting, en skiptir talsverðu upp á utanumhaldið.
Bríet með QOM í fyrstu áskorun
Fyrsta áskorunin fór heldur betur vel af stað. Þrátt fyrir að það hafi reglulega gengið yfir með skúrum og vindáttin hafi ekki endilega verið sú hagstæðasta fyrir KOM/QOM, þá fengum við eitt met strax á fyrsta degi og stóð það alveg þangað til tímarammanum lauk. Það var Bríet Kristý Gunnarsdóttir sem sló sex ára gamalt met Ásu Guðnýjar um fjórar sekúndur, en Bríet náði tímanum 2:11.
Litlu munaði á toppsætinu í kvennaflokki, því María Ögn Guðmundsdóttir var ekki langt á eftir. Kláraði hún brekkuna á 2:14, eða þremur sekúndum á eftir Bríeti. Erla Sigurlaug Sigurðardóttir var svo þriðja á 2:30.
Ingvar fyrstur í karlaflokki
Í karlaflokki var Ingvar Ómarsson fyrstur á tímanum 1:41. Ekki dugði það til að slá met Hafsteins Geirssonar frá því í maí 2013, en hann var engu að síður 12 sekúndum á undan næsta manni í þessari áskorun. Reyndar var talsverð spenna um annað sætið, þar sem aðeins 9 sekúndum munaði á sæti tvö og sex. Birkir Snær Ingvason varð annar á 1:53 og Brynjar Örn Borgþórsson þriðji á 1:56.
Heildarlista má svo sjá í meðfylgjandi google docs skjali og verður þar haldið utan um bæði allar áskoranirnar og heildarstigafjöldann.
2 Replies to “Staðan eftir áskorun #1”
Leave a Reply
You must be logged in to post a comment.
Skemmtilegt framtak. Ef sami tími er hjá keppendum er þá stigin gefin eftir hver er fyrstur í stafrófinu?
Frábært að taka þátt og nú bíð ég spennt eftir næstu áskorun, takk fyrir þetta Hjólafréttir. Þetta er sko ljós í keppnislaust tímabil 🙂