Mikil aðsókn í RIG brekkuspretti sem verða í beinni á RÚV

Brekkusprettakeppnin sem haldin hefur verið árlega undanfarin ár sem hluti af RIG leikunum í Reykjavík fer fram núna á föstudagskvöldið á Skólavörðustígnum. Gatan er upphituð og því lítið mál að fara þar á götuhjólum þrátt fyrir frost, eins og spáð er.

Arnór Barkarson mótastjóri segir í samtali við Hjólafréttir að mikill áhugi hafi verið á keppninni í ár og skráning sé þegar komin langt umfram það sem var í fyrra og varð uppselt í karlaflokki strax í síðustu viku. Hann segir að áhersla á smá keppni milli hjólafélaga hafa skilað sér í miklum áhuga og nú sé einnig bryddað upp á þeirri nýbreytni að keppnin verði sýnd á RÚV 2.

Keppnin er byggð upp með útsláttarfyrirkomulagi þar sem tveir taka þátt í hvert skipti og hjóla upp hluta Skólavörðustígsins og fer sá sem vinnur sprettinn áfram í næstu umferð. Samtals eru 32 karlar skráðir til leiks og 22 konur, en enn er hægt að bæta við í kvennaflokk. Til samanburðar voru aðeins 27 karlar í fyrra og 9 konur.

Margir af helstu hjólurum landsins eru mættir til leiks, en í karlaflokki eru þrír af þeim fjórum sem enduðu í efstu sætunum í fyrra skráðir. Það eru þeir Agnar Örn Sigurðsson, sem er tvöfaldur meistari, Kristinn Jónsson, sem varð í þriðja sæti og Helgi Berg Friðþjófsson sem varð fjórði. Auk þeirra eru t.d. Ingvar Ómarsson, Eyjólfur Guðgeirsson, Guðmundur Sveinsson og Dennis van Eijk skráðir til leiks.

Sigurvegarar í kk flokki í fyrra. (f.v) Óskar Ómarsson (2. sæti), Agn­ar Örn Sig­urðar­son (1. sæti) og Kristinn Jónsson (3. sæti).

Í kvennaflokki er ríkjandi meistari Natalía Erla Cassata og mætir hún aftur til leiks. Bríet Kristý Gunnarsdóttir á harma að hefna frá í fyrra, en í úrslitaslagnum lenti hún í tæknilegum vandræðum í byrjun og átti aldrei séns á móti Natalíu. Þá er Hrönn Ólína Jörundsdóttir, sem varð í þriðja sæti í fyrra mætt til leiks líka. Meðal annarra nafna má nefna Margréti Pálsdóttur sem er fyrrverandi brekkusprettsmeistari.

„Samkeppnin hefur sjaldan verið meiri,“ segir Arnór og bætir við að það stefni í smá baráttu hjá hjólreiðafélögunum um að landa efstu sætunum. Segir hann að HFR hafi sent nokkuð ungt lið til keppni og þá hafi Breiðablik haldið innanfélagskeppni til að skera úr um hverjir væru öflugustu brekkusprettararnir.

Eins og venjulega má búast við miklu húllumhæ á Skólavörðustígnum, en undanfarin ár hafa verið sett upp tjöld og tónlist spiluð fyrir gesti og gangandi. Arnór segir að kveikt verði á græjunum og brautin opnuð fyrir upphitun klukkan 18:00, en hálftíma síðar verður haldinn keppnisfundur. Áformað er að fyrsta start verði svo um klukkan 18:45 og að bein útsending á RÚV 2 hefjist klukkan 19:30 með 16 manna úrslitum. Hjólreiðakonan Ása Guðný Ásgeirsdóttir mun lýsa keppninni ásamt starfsmanni íþróttadeildar RÚV, en gert er ráð fyrir að keppninni ljúki um 20:15.

Allir eru velkomnir á Skólavörðustíginn til að fylgjast með og mæla hjólafréttir með því að fólk láti vel í sér heyra og mæti jafnvel með einhverja skemmtilega hávaðagjafa til að búa til alvöru stemningu.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar