Ágústa og Ingvar Íslandsmeistarar í TT

Ágústa Edda Björnsdóttir landaði sínu öðru gulli á Íslandsmóti í hjólreiðum á vikutíma nú um helgina þegar Íslandsmótið í tímatöku fór fram og Ingvar Ómarsson varð Íslandsmeistari í karlaflokki. Hafði hann áður verið í öðru sæti í Íslandsmótinu í götuhjólum helgina áður í Skagafirði.

Keppnin fór fram á Vatnsleysuströnd, en þetta er annað tímatökumót ársins sem fer þar fram. Áður hafði fyrsta bikarmót ársins verði haldið þar. Brautin hefst við Voga og er farið allan Vatnsleysustrandarveg að hringtorginu rétt við Reykjanesbrautina nær álverinu. Þar er snúið við og farið til baka. Mótið var bæði Íslandsmót sem og þriðja bikarmót ársins.

Ágústa fór brautina, sem er 22 km löng, á 00:31:53 og var hún 01:38 á undan Rannveigu Önnu Guicharnaud, sem var ríkjandi Íslandsmeistari frá keppninni við Kleifarvatn í fyrra. Tími Rannveigar var 00:33:31. Margrét Pálsdóttir var þriðja á 00:34:32, eða 02:39 á eftir Ágústu.

Ágústa á fullu í brautinni.

Í karlaflokki var Ingvar sem fyrr segir í fyrsta sæti. Hann skaut þar tveimur sleggjum ref fyrir rass, en í öðru sæti var Rúnar Örn Ágústsson og í þriðja sæti var Hákon Hrafn Sigurðsson. Báðir hafa þeir undanfarin ár verið með sterkustu tímaþrautarmönnum landsins, en báðir hafa þeir æft þríþraut undanfarin ár. Í fyrra voru. Tók Ingvar Íslandsmeistaratitilinn af Rúnari sem vann hann í fyrra, en þá hafði Hafsteinn Ægir Geirsson verið í þriðja og Hákon Hrafn í fjórða.

Ingvar var á tímanum 00:28:06, en Rúnar kom 15 sekúndum á eftir honum á tímanum 00:28:21. Til gamans má geta þess að þetta er nákvæmlega sami tíminn og skildi þá tvo að í fyrra, en þá var sætaröðin öfugt farið. Hákon Hraf var svo á tímanum 00:29:17, eða 01:11 á eftir Ingvari.

Ingvar Ómarsson.

Í junior flokki kk varð Eyþór Eiríksson Íslandsmeistari á tímanum 00:34:34 og í junior flokki kvk var Inga Birna Benediktsdóttir Íslandsmeistari á 00:39:02. Matthías Schou-Matthíasson varð Íslandsmeistari í U17 flokki á 00:38:41 og í kvk flokki U17 var Natalía Erla Cassata Íslandsmeistari á 00:40:31.

Í meistaraflokki karla var Davíð Freyr Albertsson fyrstur á tímanum 00:32:17, en Guðlaugur Egilsson var annar á 00:33:09. Bjarni Már Gylfason var þriðji á 00:33:30. Í meistaraflokki kvenna var Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir fyrst á 00:36:57, Guðrún Björk Geirsdóttir önnur á 00:39:50 og Sigríður Sigurðardóttir þriðja á 00:40:29.

Ljósmyndir/Halldór Snorrason

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar