Íslandsmótið í tímatöku fer fram á morgun
Það er skammt stórra högga á milli í hjólreiðum þessa dagana. Síðustu helgi fór fram Íslandsmótið í götuhjólreiðum og nú viku síðar er Íslandsmótið í tímatöku haldið. Á milli þessara móta mátti einnig finna sér eitthvað að gera en í vikunni fór fram WOW cyclothonið sem kláraðist í gær. Íslandsmótið í timatöku mun fara fram á Vatnsleysuströnd og er hún þriðja tímatökukeppni sumarsins en áður hafa verið haldnar Vortímataka Breiðabliks og Cervelo TT. Vortímatakan fór einnig fram á Vatnleysustrandavegi en Cervelo TT fór fram skammt frá Grindavík.
Núverandi Íslandsmeistarar eru Rúnar Örn Ágústsson og Rannveig Guicharnaud en þau stóðu uppi sem sigurvegarar á síðasta ári þegar Íslandsmótið fór fram á Krýsuvíkurvegi við Kleifarvatn. Líkt og Hjólafréttir greindu frá á síðasta ári þurfti Rúnar Örn að halda 401 wöttum í meira en 25 mínútur til að verða Íslandsmeistari
Vatnsleysuströndin er nokkuð ólík keppnisbraut síðasta íslandsmóts. Við Kleifarvatn má finna nokkrar stuttar og brattar brekkur á meðan Vatnsleysuströndin er flatari. Hjólað er norðaustur frá Vogum, um 11 km leið þar til snúið er við á hringtorgi og aftur til baka. Heildarhækkun er einungis um 50m á þessari 22km leið. Brautin er þannig ekki tæknileg og með lítilli hækkun. Til að sigra munu keppendur þurfa að setja út alvöru wött og halda vindmótstöðu í lágmarki eða eins og einn reyndasti tímatökukeppandi þjóðarinnar, Hákon Hrafn Sigurðsson orðaði í samtali við Hjólafréttir á síðasta ári „Á flötum brautum er það eiginlega bara sá sem wattar mest sem vinnur“. Sjá nánar umfjöllun Hjólafrétta um tímatöku frá síðasta vori.
Skráning í mótið er góð og eru allir helstu sérfræðingar landsins í tímatöku skráðir til leiks. Í kvennaflokki er Rannveig mætt til að verja Íslandsmeistaratitilinn en líklegt er að Ágústa Edda muni veita henni harða samkeppni. Ágústa er efst á bikarstigum en hún hefur sigrað bæði tímatökumót sumarsins.
Í karlaflokki eru einnig sterkir keppendur skráðir til leiks. Rúnar Örn Ágústsson og Hákon Hrafn Sigurðsson eru jafnir á bikarstigum eftir fyrstu tvö mót sumarsins og hafa sigrað eitt mót hvor og tekið silfur í hinu. Ingvar Ómarsson er einnig skráður til leiks en hann var í öðru sæti á Íslandsmótinu í tímatöku á síðasta ári og hefur verið í feiknaformi í sumar.
Ljósmyndir/Benedikt Magnússon og Hjólafréttir