Chris kom í mark á nýju meti – Lifði á vöfflustykkjum og koffíni

Bandaríkjamaðurinn Chris Burkard kom fyrstur í mark í einstaklingskeppni WOW cyclothon núna rétt rúmlega hálf tólf í kvöld á tímanum 52:36:19. Bætti hann fyrra met Eiríks Inga Jóhannssonar um tæpa 3,5 klst. Chris var ótrúlega hress miðað við aðstæður þegar hann kom í mark, brosandi út að eyrum, kjaftaði við viðstadda í góðan tíma áður en hann steig á pall og var með mjög skýra hugsun. Hins vegar viðurkenndi hann góðfúslega að líkaminn væri mjög lemstraður eftir langan tíma í hnakknum.

Chris Burkard kom í mark á tólfta tímanum á nýju meti í einstaklingsflokki. 52:36:19

Posted by Hjólafréttir on Fimmtudagur, 27. júní 2019

Chris svaf ekkert alla leiðina sagðist hafa séð einhverjar ofsjónir stuttu áður en hann kom í mark og fyrst hélt hann að fólkið sem var saman komið við markið væru slíkar ofsjónir. Að öðru leyti væri hugsunin skýr.

Hann sagði þátttöku sína hafa verið persónulega ferð fyrir sig, en hann hefur komið hingað til lands 34 sinnum og vildi í þetta skiptið prófa að kynnast landinu á alveg nýjan hátt. Hann hefur verið mjög iðinn við æfingar undanfarið ár og á Strava má sjá að hann er búinn að raka inn rúmlega 13 þúsund kílómetrum það sem af er ári og 435 klst.

Chris kemur í mark.

Chris sagði eftir að hafa lokið keppni að fyrsti sólarhringurinn hafi verið einstaklega fallegur, en hann fékk góðan meðvind á Vesturlandi, Norðurlandi og stóran hluta Austurlands. „Svo allt í einu umturnaðist veðrið og sýndi þér allar aðrar hliðar,“ en hann fékk talsverðan mótvind og hliðarvind á Suðurlandi, auk þess sem það var nokkur úrkoma. Þá sagðist hann á tímabili hafa fundið fyrir smá hagléli.

„Fyrir ferð eins og þessa hefði ég ekki getað óskað eftir neinu betra. Ef þetta hefði allt verið fullkomið hefði ég ekki fengið að upplifa hina raunverulegu hlið landsins,“ segir Chris.

Chris er grænmetisæta og sagðist að miklu leyti hafa lifað á vöffluorkustykkjum og líklega fengið sér einhver þúsund þannig, allavega þannig að hann gæti líklega aldrei borðað slíkt aftur. Þá sagðist hann hafa haldið sér gangandi á koffíni, en hann segist ekkert drekka koffíndrykki að jafnaði. „Ég fékk örugglega hámarksskammt koffíns sem er manneskja getur neytt,“ sagði hann í gamansömum tón að lokum.

Chris var gríðarlega þakklátur þegar hann kom í mark og hrósaði Íslandi eins og hann hefur reyndar gert oft í gegnum tíðina, en eins og komið hefur verið fram er hann þekktur ljósmyndari sem hefur komið hingað til lands 34 sinnum og tekið mikið magn mynda hér sem hafa ratað í erlenda fjölmiðla, auglýsingar og afþreyingarefni.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar