Stefnir í nýtt einstaklingsmet hjá Chris Burkard

Það stefnir allt í að Bandaríkjamaðurinn Chris Burkard slái einstaklingsmetið í WOW cyclothon í ár, en hann var fyrir nokkrum mínútum kominn yfir Kúðafljót og um 40 km frá Vík í Mýrdal. Þá á hann eftir samtals um 260 km í endamarkið í Hafnarfirði. Þrátt fyrir að hafa ekkert hvílt sig í raun á leiðinni er hann á um 25 km/klst meðalhraða í mótvindinum á Suðausturlandi. Á síðasta hluta leiðarinnar gæti veðrið haft nokkur áhrif, bæði til góðs og ills.

Óskar Páll Sveinsson, sem er einn þeirra sem fylgja Chris hringinn, segir í samtali við Hjólafréttir að Chris hafi aðeins stoppað í 20 mínútur á Egilsstöðum, þar sem hann fékk sér langþráðan poka af frönskum kartöflum. Var hann þá loksin að fá sér eitthvað annað en orkudrykki og orkustangir. Eftir Öxi, niðri í Berufirði, hafi hann svo stoppað í um 10 mínútur þegar þeir skiptu um hjól, en hann fór upp og niður Öxi á Lauf hjóli og skipti svo yfir á racerinn aftur. Óskar segir að veðrið hafi einfaldlega verið einstök í Berufirðinum þegar þeir voru komnir niður. „Kvöldsólin eins og hún gerist fallegust og logn. Hann stoppaði aðeins þar og borðaði, en hefur svo ekkert stoppað síðan.“

Markmið Chris er að setja nýtt met á hringferðinni, en Eiríkur Ingi Jóhannsson á fyrra metið sem er 56:12:40.  Ef Chris heldur sama 25 km meðalhraðanum þangað til hann kemur í mark á hann aðeins eftir rúmlega 10 klst og væri þá kominn í mark um miðnætti, eða á um 53 klst. Það gæti hins vegar spilað með honum að eftir Vík fær hann hliðarvind í stað mótvinds, sem á köflum gæti verið meðvindur. Hins vegar má gera ráð fyrir talsverðu úrhelli á þessum slóðum eftir klukkan sex í kvöld og er spurning hvernig áhrif það hefur á ástand Chris, sérstaklega þar sem hann hefur lítið sem ekkert hvílst þessa tvo sólarhringa.

Óskar segir að þeir hafi í dag verið að fá símtöl með ráðleggingum frá fjölmörgum sem þekkja vel til í ofurþrekkeppnum eins og þessari. „Það er mikið pepp í gangi,“ segir Óskar og hlær. Hann segir að menn tali um að síðustu 10% séu erfiðust, þar vinnist keppni eða tapist og það sé sá hluti sem Chris sé nú að sigla inn í.

„Hann er orðinn aumur allsstaðar í líkamanum. Hann er þreyttur, en merkilegast er hvað hausinn er skýr enn þá,“ segir Óskar og bætir við að það sé eins og Chris hafi verið að leggja af stað í morgun hvað það varði.

Chris er búinn að setja sér markmið og tímasetur ákveðnar vegalengdir og reynir að halda sig innan tímamarka þar. Óskar segir þetta hjálpa honum að halda tempói í gegnum keppnina. Bílstjórarnir sem fylgja honum flauta svo á hann á 15 mínútna fresti til að hann gleymi ekki að næra sig og drekka. Óskar segir ekki hægt að gera nóg af því, því þó að hann borði eins og hann geti á svona hringferð, þá muni hann alltaf nota meiri orku en hann nær að taka inn.

Framundan er svo stím í gegnum Suðurlandið án hvíldar og vera komin þangað á innan við 13 klst sem þeir hafa til að bæta met Eiríks. „Það verður eins gott að það verði búið að blása upp hliðið í Hafnarfirði,“ segir Óskar hress og á þar við markið sem hjólað er í gegnum.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar