Fjallahjólaárið hófst á Morgunblaðshringnum

Þá má loksins segja að hjólatímabilið sé formlega hafið hér á landi, en undanfarin ár hefur Morgunblaðshringurinn verið fyrsta fjallahjólamót ársins og jafnframt fyrsta bikarmótið í hjólreiðum, óháð hjólagrein.Fjallahjólatímabilið (XC) byrjaði á nokkuð hefðbundnum nótum, en það má allavega segja um meistaraflokk karla þar sem þeir Ingvar Ómarsson, Hafsteinn Ægir Geirsson og Bjarki Bjarnason röðuðu sér í þrjú efstu sætin, en þeir voru í þremur sömu sætum í þessu móti í fyrra. Í kvennaflokkinum var Karen Axelsdóttir fyrst, Kristín Edda Sveinsdóttir önnur og Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir þriðja. Þó engin þeirra hafi tekið þátt í Morgunblaðshringnum í fyrra verður ekki sagt annað en að þetta séu nokkuð þekkt nöfn í kvennaflokki.

Gaman var að sjá Karen, en hún var lítið virk á fyrri hluta keppnistímabilsins í fyrra, en kom svo sterk inn og sigraði meðal annars Kia hringinn (XC) í ágúst í fyrra. Þær Halla Jónsdóttir, sem sigraði Morgunblaðshringinn í fyrra, og María Ögn Guðmundsdóttir, núverandi Íslandsmeistari, voru hins vegar ekki meðal keppenda á föstudaginn. Kristín Edda, sem er aðeins tvítug, kemur einnig sterk inn og verður fróðlegt að sjá hvernig hún mun standa sig í fjallahjólreiðunum í sumar.

Ingvar, sem er núverandi Íslandsmeistari, mætti á nýju Trek hjóli, en eftir fjölmörg ár á Specialized frá Kríu skipti hann yfir í Örninn í byrjun þessa árs.

Þegar keppnin hófst kl 18:00 hafði veðrið yfir daginn verið nokkuð þokkalegt, aðeins rignt í kringum þrjú, en ekkert sem hafði áhrif á brautina að neinu viti. Fyrsti hringurinn var því hjólaður við nokkuð góðar aðstæður, en svo fór að hellirigna og við það varð brautin öll tæknilegri og erfiðari yfirferðar. Ekki er þó að sjá að það hafi haft mikil áhrif á hringtíma keppenda að neinu ráði.

Talsverður fjöldi fylgdist með keppninni og er það vel, sérstaklega ef miðað er við rigninguna. Undirritaður vill koma með þá ábendingu að gott gæti verið að benda sérstaklega áhorfendum hvar bestu áhorfendastaðirnir eru og jafnvel hvar best er að vera til að geta farið hratt á milli spennandi staða. Það lífgaði svo rækilega upp á stemninguna að sjá tvo hressa #teamhávaði liða mætta með bjarðir og barefli til að framkalla sem mestan hávaða og hvetja keppendur áfram. Þeir fá stórt kudos fyrir peppið við keppendur.

Ljóst var strax í byrjun að Ingvar ætlaði að búa sér til bil en hann keyrði vel upp fyrstu brekkuna og náði strax vænu forskoti á næstu menn, Náði hann um 17 sek á Hafstein á fyrsta hring og bætti svo við það út keppnina, þó Hafsteinn hafi skafið af 1 sekúndu á þriðja hring. Það vóg þó ekki þungt í heildarsamhengingu.

Í byrjun tímabils er áhugavert að reyna að gera einhvern samanburð á stöðu manna miðað við síðasta ár og sjá hvar þeir standa. Í karlaflokki er aðeins hægt að leika sér með tölur þriggja efstu manna, enda voru þeir í sömu sætum í fyrra. Þótt brautin í ár hafi verið nokkuð öðruvísi (meðal annars farinn  réttsæll hringur í staðinn fyrir rangsælan í fyrra) þá er hægt að nota hlutfallstölur til að sjá hvernig munurinn hefur breyst milli ára.

Talsverða spennu var að finna um þriðja sætið í karlaflokki þar sem þeir Bjarki Bjarnason og Kristinn Jónsson áttust við. Kristinn byrjaði sterkar og var á undan Bjarki fram yfir tvo hringi. Á þriðja hring fór svo vélin hjá Bjarka í gangi og hann vann upp forskot Kristins og endaði ágætlega á undan honum.

Með þeirri aðferð og má meðal annars sjá að Hafsteinn var í fyrra 17 sekúndum, eða 0,366% lengur að fara hringina fjóra en Ingar. Þá var Bjarki 4,36% lengur en Ingvar, en á þeim munaði 3:54. Í ár var Hafsteinn hins vegar 24 sekúndum á eftir Ingvari, eða sem nemur 0,47% á meðan Bjarki var 4,29% á eftir Ingvari. Miðað við þetta er munurinn á efstu þremur mönnum mjög svipaður og í fyrra og innan allra skekkjumarka. Vert er að taka fram að ekki er um neina vísindalega mælingu að ræða, heldur frekar sett fram til fróðleiks og gamans.

Nokkuð rólegt er framundan í XC fjallahjólreiðum, en engin slík keppni er í maí. Í júní eru almenningskeppnirnar Rangárþing ultra og Bláalónsþrautin, en þar á eftir koma Íslandsmótin í XC og ólympískum fjallahjólreiðum í tengslum við hlaupahátíð á Vestfjörðum í kringum 20. júlí. Næsta bikarmót er svo ekki fyrr en 8. ágúst í Öskjuhlíð.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar