Crit-keppni í bílageymslu Kringlunnar

Í dag fer fram ofurhjóladagurinn í Kringlunni, en hann er samblanda af skemmtun fyrir alla aldursflokka, keppni og sýningu á því sem söluaðilar í hjólageiranum hafa upp á að bjóða. Dagurinn byrjaði með Crit-keppni á annarri hæð bílakjallarans sem vísar út að Miklubrautinni. Þó nokkrir voru skráðir til leiks og talsverður fjöldi áhorfenda, enda keppni sem þessi mjög áhorfendavæn þar sem hægt er að hafa yfirsjón yfir stærstan hluta brautarinnar frá sama staðnum.

Í meistaraflokki karla var Óskar Ómarsson fyrstur eftir stífa keppni við Stefán Orra Ragnarsson og Birki Snæ Ingvason, en aðeins sjónarmunur var á Óskari og Stefáni í miklum lokasprett á síðasta hring. Fóru þeir allir 35 hringi, en fyrirkomulag keppninnar var að hjóla í 20 mínútur plús tvo lokahringi.

Í meistaraflokki kvenna sigraði Ágústa Edda Björnsdóttir með eins hrings forskot á Margréti Pálsdóttur, en Ágústa fór 33 hringi. Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir var þriðja og fór 30 hringi.

Í U19 flokki karla var Matthías Schou Matthíasson fyrstur, tæplega hálfum hring á undan Davíð Jónssyni, sem kom annar. Báðir fóru þeir 33 hringi, en Snorri Karel Friðjónsson var þriðji og fór 32 hringi. Þess má geta að Snorri er aðeins 12 ára gamall.

Í U19 flokki kvenna var Natalía Erla Cassata fyrst og fór hún 31 hring, en Bergdís Eva Sveinsdóttir var önnur og fór tvo hringi minna en Natalía.

Einhverjir tóku byltu í brautinni og á fjórða hring féll meðal annars Kristinn Jónsson sem keppti í meistaraflokki karla, en Ingvar Ómarsson, Íslandsmeistara í götuhjólreiðum og fjallahjólreiðum, var fyrir aftan hann og hætti í kjölfarið keppni eftir að hafa þurft að stoppa og verða nokkuð á eftir fyrstu mönnum. Vonandi hafa þó allir sloppið stórslysalaust frá þessari skemmtilegu keppni sem er kærkomin viðbót í keppnisflóruna hérlendis og fá bæði skipuleggjendur og Kringlan stórt kudos fyrir að standa á bak við keppnina og daginn í heild.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar