Kristófer og Bríet fyrst í síðustu Canon-crit keppni ársins

Eftir smá sumarfrí og tölvuleysi síðustu vikur er komið að því að henda inn efni hér á ný. Fullt að gera í hjólaheiminum framundan, bæði hér heima og utan. Mót um helgina, síðustu bikarmótin á næsta leiti og svo Vuelta seinna í mánuðinum.

En að máli málanna. Kristófer Gunnlaugsson úr Bjarti og Bríet Kristý Gunnarsdóttir úr Tindi komu fyrst í mark í fjórðu og síðustu Canon-Criterum keppni sumarsins sem haldin var á Völlunum í Hafnarfirði í gærkvöldi. Í B-flokki voru það þau Eyþór Eiríksson úr HFR og Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir úr Breiðabliki sem komu fyrst í mark.

Í C-flokki U17 vrou það þau Bergdís Eva Sveinsdóttir úr HFR og Matthías Schou Matthíasson úr HFR sem komu fyrst í mark og í U15 var Fannar Freyr Atlason úr Tindi fyrstur.

Í þessari keppni hjólar A-flokkur í 30 mínútur + lokahring, B- og C-flokkar í 20 mín + lokahring.

Ræsing A-flokksins tafðist nokkuð vegna slyss sem varð við lok B-keppninnar. Skullu tveir keppendur saman eftir að komið var yfir marklínuna með þeim afleiðingum að annar skall harkalega í jörðina og kinnbeinsbrotnaði. Var hann fluttur með sjúkrabifreið af svæðinu. Tjáði hann sig eftir slysið á Facebook og sagði að sér liði ekki illa þrátt fyrir að hafa brotnað. Atvik sem þetta minnir okkur á nauðsyn þess að æfa að hjóla í hóp sem og að halda áfram að hjóla eftir að komið er yfir marklínuna og minnka þar með hættuna á slysum við þá sem koma í mark í kjölfarið.

En að keppninni sjálfri. Í A-flokki kk var eitt peloton fyrstu hringina þangað til Guðmundur Sveinsson tók smá árás sem varði í um tvo hringi. Eftir 10 hringi slitu þeir Kristófer, Fannar Gíslason, Kristinn Jónsson og Sæmundur Guðmundsson sig frá öðrum keppendum og byggðu upp ágæta forystu sem hélt til loka keppninnar. Það voru svo þeir Kristófer, Fannar og Kristinn sem áttu endasprett, en Kristófer kom örugglega fyrstur í mark tveimur sekúndum á undan Fannari og fjórum sekúndum á undan Kristni.

Er þetta fyrsti sigur Kristófers í mótaröðinni í ár, en áður hefur hann meðal annars verið í tvisvar í fimmta sæti og einu sinni í þriðja sæti. Fannar landaði hins vegar öðru sætinu í þriðja skipti á þessu ári. Ágæt keyrsla var í dag, enda veður með besta móti, og fór karlarnir 21 hring, en í fyrri keppnum hefur mest tekist að fara 20 hringi.

Í kvennaflokkinum í A-flokki kepptu þær Bríet, Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir, Hrönn Ólína Jörundsdóttir og Rannveig Anna Guicharnaud. Rannveig keyrði hraðann fyrstu hringina, en eftir það skiptust allar á að brjóta vindinn. Vann hópurinn saman frá upphafi og fram í síðasta hring, en þær Bríet og Kolbrún voru öflugastar í lokasprettinum og var Bríet sjónarmun á undan.

Í B-flokki karla breikuðu þeir Eyþór og Brynjar Örn Borgþórsson á áttunda hring og héldu þeirri forystu út þá 14 hringi sem þeir fóru. Voru þeir um 20 sekúndum á undan pelotoninu sem kom þar á eftir.

Í B-flokki kvenna var Hrefna búin að stinga af á þriðja hring og hélt þeirri forystu örugglega út keppnina og fór einum hring meira en sú sem kom næst á eftir henni. Er þetta þriðja keppnin í mótaröðinni sem Hrefna sigrar í B-flokki.

Heildarúrslit má nálgast á Tímatöku.net

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar