Glacier 360 farið af stað – Eyjólfur og Birkir leiða eftir fyrstu dagleið
Í dag hófst fjallahjólakeppnin WOW Glacier 360, en um er að ræða eina „stage race“ fjallahjólakeppni ársins hér á landi þar sem hjólaðir eru samtals 290 kílómetrar á þremur dögum í kringum Langjökul. Á fyrstu dagleið er farið frá Geysi í Haukadal að Húsafelli og á morgun verður hjólaða frá Húsafelli norður fyrir jökulinn á Hveravelli. Síðasta daginn er svo hjólað niður að Gullfossi gegnum Þjófadali.
Samtals 52 hjólarar taka þátt í keppninni í ár og var ræst klukkan 10 í morgun.
Karlalið Airport direct leiðir keppnina eftir fyrstu dagleið, en þeir hjóluðu 95 kílómetrana (og 1.220m hækkunina) á 3:29:21. Motörlegs eru í öðru sæti, um fimm mínútum á eftir þeim Airport direct mönnum. Samkvæmt upplýsingum frá mótshöldurum er tími Airport direct sá besti á fyrsta legg keppninnar hingað til.
Lið Airport direct skipa þeir Eyjólfur Guðgeirsson og Birkir Snær Ingvason, en í Motörlegs eru þeir Bjarki Bjarnason og Steinar Þorbjörnsson.
Lið Team Kviku er eina kvennaliðið sem er skráð til keppni í ár, en það lið skipa þær Steinunn Erla Thorlasius og Anna Kristín Sigurpálsdóttir.
Liðið Ossowscy frá Sviss var fyrsta liðið í blönduðum flokki, en þau Maria Ossowska og Adam Ossowski skipa liðið. Voru þau á tímanum 4:10:13.
Samtals taka 16 erlend lið þátt í ár, 9 íslensk og eitt blandað frá bæði Íslandi og Sviss.