Grasrótarstarf eins og það gerist skemmtilegast

Það er alltaf skemmtilegt þegar grasrótin tekur af skarið og skellir í hressa og ferska viðburði, líkt og mátti sjá í kvöld þegar drengirnir í Svefnpokum og gjörðum settu upp viðburð á Bláfjallarvegi (Hafnarfjarðarmegin) þar sem keppnisgjaldið var aðeins góða skapið.

Bjarki Freyr Rúnarsson er einn þeirra sem stóð á bak við viðburðinn í kvöld, en hann segir að þegar ljóst var að stefndi í besta dag sumarsins á suðvestur horninu hafi þeim þótt tilvalið að boða fólk á Facebook í Grjónabrekkuna svokölluðu með það að markmiði að reyna að bæta KOM-ið upp brekkuna og almennt skemmta sér.

Fyrir utan frábært veður, þar sem ég er ekki frá því að vindurinn hafi jafnvel örlítið komið í bakið á manni, þá hentu þeir félagar í góða stemmningu með Soundboks hátalara og groovy tónum. Þá var sett upp start og mark sem gerði KOM huntið enn skemmtilegra.

Hægt er að sjá miklu fleiri myndir á Facebooksíðu Svefnpoka og gjarða

Undirritaður verður seint talinn með sterkustu mönnum þegar kemur að klifri og ætlaði upphaflega ekkert að koma við og reyna við brekkuna í kvöld. Eftir að hafa tekið venjulega æfingu upp Krýsuvíkurveginn í þessu góða veðri varð maður samt eiginlega að kíkja og sjá hvernig til tækist.

Á staðnum voru þegar þó nokkrir mættir og núverandi tvöfaldur Íslandsmeistari í fjallahjólreiðum, Ingvar Ómarsson, var að keyra vel í brekkuna þegar ég kom á staðinn. Fljótlega bættust fleiri við og var þannig mannað að alltaf voru einhverjir að þeysast upp brekkuna.

Þrátt fyrir að hafa bara ætlað að kíkja við í kvöld breyttist það fjótt, enda getur svona setup peppað keppnisskapið vel upp og þar með tilvaldar aðstæður til að bæta eigin tíma. Meðan hjólarar reyndu fyrir sér í þessari rúmlega 700m löngu tvískiptu brekku biðu aðrir og hvíldu vöðvana stundarkorn á bílastæði við miðja fyrri brekkuna. Þar sem maður er ekkert of vanur því að hafa áhorfendur á æfingum var auðvitað ekki hægt annað en að gefa allt í þegar farið var framhjá skaranum með tilheyrandi blóðbragði í munni (og síðar reyndar vellíðan tilfinningu). Eftir á að hyggja var það mögulega ekki skynsamlegasta ákvörðunin, enda er ég víst ekki að fara að klára brekkuna í 800-900 wöttum =)

37303159_294900247721953_990803638987259904_o
Stund milli stríða. Hjólreiðar, góð tónlist, brekkur og sumarverður. Gerist varla betra. Ljósmynd/Svefnpokar og gjarðir

Þeir svefnpoka og gjarða félagar, sem tengjast allir hjólaversluninni TRI og hafa verið duglegir að keppa í ár, fá feitt kudos fyrir að standa fyrir þessum viðburði í kvöld og miðað við orð Bjarka má gera ráð fyrir fleiri slíkum á komandi misserum, reyndar mjög líklega á næsta sólarhring ef veður leyfir.

Þetta er ekki eina skiptið í ár sem svona framtak grasrótarinnar skilar sér í skemmtilegu giggi, en fyrr á árinu var t.d. startað svokallaðri Crit-mótaröð. Við hjá Hjólafréttum erum sérstaklega ánægðir með svona framlög, þó í rauninni megi segja að allt í tengslum við hjólakeppnir hér á landi sé grasrótarstarf.

Ljósmyndir/Svefnpokar og gjarðir

Previous Article
Next Article

One Reply to “Grasrótarstarf eins og það gerist skemmtilegast”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar